RÉTTUR ALLRA FLUGREKSTRARAÐILA VERÐI VIRTUR
Birtist í Morgunblaðinu 29.10.13.
Ánægjulegt er hve mikill gleðigjafi Reykjavíkurflugvöllur ætlar að reynast okkur stjórnmálamönnunum með - að því er virðist - endalausum áfangasigrum og tímamótum.
Í upphafi árs glöddust þau Dagur B. Eggertsson, forseti borgarráðs Reykjavíkurborgar og Katrín Júlíusdóttir, þáverandi fjármálaráðherra, yfir sölusamningi á ríkislandi á flugvallarsvæðinu til borgarinnar.
Á daginn kom að þar hafði illa verið þjófstartað og fögnuðurinn ekki tímabær því skilyrðum sölunnar hafði ekki verið fullnægt. Gleymst hafði að gera innanríkisráðuneytinu grein fyrir tímamótunum en ráðuneytið hafði þá um langt skeið staðið í nokkru stappi við fulltrúa borgarinnar.
Söluandvirðið í nýja flugstöð
Um síðir náðist niðurstaða og var nú aftur fagnað og 19. apríl voru undirskriftarpennar mundaðir, að þessu sinni af minni hálfu sem innanríkisráðherra og borgarstjórans í Reykjavík, í viðurvist fulltrúa rekstraraðila í innanlandsflugi og Isavia sem ætlað var að taka yfir alla aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli frá Flugfélagi Íslands.
Sá fyrirvari var settur í þetta samkomulag að Isavia og rekstraraðilar þyrftu að sannfærast um að fluginu yrðu tryggð örugg rekstrarskilyrði svo lengi að fýsilegt þætti að ráðast í smíði nýrrar flugstöðvar. Þessu var heitið og er svo að skilja að það hafi nú gengið eftir og þá væntanlega að söluandvirðið fyrir ríkislandið renni til uppbygginngar á aðstöðu - þ.m.t. nýrri flugstöð - fyrir innanlandsflugið á forræði Isavia. Þetta er algert lykilatriði sem fjölmiðlar hafa því miður ekki spurt út í. Stendur ekki örugglega enn til að gera þetta?
Að nýju fagnað
Aftur sáu menn nú ástæðu til að efna til undirritunarfagnaðar, að þessu sinni í lok síðustu viku í Hörpu og voru nú komnir tveir nýir handhafar undirritunarpenna, forsætisráðherrann og forstjóri Icelandair Group. Það nýja í samkomulaginu nú - sem að öðru leyti virðist vera hið sama og fyrrgreint samkomulag frá 19. apríl - er að sett verði á laggirnar nefnd skipuð fulltrúum undirritunaraðila til að kanna framtíðarfyrirkomulag og kalla til "ráðgjafafyrirtæki með víðtæka reynslu af skipulagi og hönnun flugvalla til að draga fram valkosti og bestu lausnir fyrir mögulegan flugvöll."
Hvar var Isavia?
Flest er gott um þetta að segja ef tryggt er að söluandvirðið gangi til uppbyggingarinnar sem áður segir. En þó vil ég benda á atriði sem ekki gengur upp að mínu mati og þá með fullri viðringu fyrir Icelandair Group. Það fyrirtæki hefur að sönnu undir sínum væng stærsta rekstraraðilann í innanlandsflugi, Flugfélag Íslands. En rekstraraðilarnir eru fleiri, nefni ég þar annan stóran rekstraraðila, flugfélagið Erni. Í Hörpu samkomulaginu segir að „ábyrgðarmenn verkefnisins" séu „innanríkisráðherra, borgarstjóri og forstjóri Icelandair Group."
Eðlilegur fulltrúi flugsins að mínu mati er Isavia sem er í samfélagseign, en ekki einstök fyrirtæki þótt stór séu. Hins vegar er eðlilegt að leita til þeirra um upplýsingar og álit. Að ganga framhjá öðrum flugfélögum hvað formlega aðkomu snertir tel ég ekki vera rétt.
Lýðræðið gerir menn raunsæja
Aftur að ánægju stjórnmálamanna sem flestir virðast vera að taka gleði sína eftir áralangt karp um Reykjavíkurflugvöll. Eflaust hafa tugþúsundir undirskrifta og afdráttarlausar skoðanakannanir hjálpað til að taka málið upp úr því sem kallað hefur verið átakaferli. Sveitarstjórnarkosningar eru í nánd. Sú staðreynd virðist gera afstöðu manna mildari. Enn og aftur kennir þetta að með lýðræðinu má leysa margan vandann.