Fara í efni

REYKJAVÍKURFLUGVÖLLUR OG HAGSMUNIR SAMFÉLAGSINS

Flugvöllurinn
Flugvöllurinn

Aftur eru málefni Reykjavíkurflugvallar í brennidepli. Allar götur frá því ég kom í samgönguráðuneytið, síðar innanríkisráðuneytið, sem hefur með flugsamgöngur að gera, haustið 2010 hef ég beitt mér fyrir því að fá lausn í „flugvallarmálið". Frá mínum bæjardyrum snýst það um að fá skipulagsheimild frá Reykjavíkurborg til að reisa nýja flugstöð í stað þeirrar sem fyrir er og er löngu úr sér gengin. Jafnframt að fá vissu fyrir því að ekki verði tjaldað til einnar nætur og að fjármagn verði tryggt til framkvæmda. Tók ég þar upp þráðinn frá forverum mínum í embætti sem hafa verið sama sinnis og ég varðandi Reykjavíkurflugvöll, að ekki eigi að flytja hann eða leggja niður.

Ekkert gekk árið 2010 að þoka málinu áfram þrátt fyrir góðan vilja minn. Ekki heldur á árinu 2011 eða 2012. Málið var strand þrátt fyrir ítrekaða beiðni mína um að hraða málinu. Í vegi stóð m.a. að ekki hafði náðst samkomulag milli borgar og fjármálaráðuneytis um verð á landi og síðan hver framtíðaráform borgarinnar væru með Vatnsmýrina. Við þekktum vilja borgarinnar að flytja völlinn en spurningin var um tímasetningar og ýmsa aðra ófrágengna þætti, þar á meðal öryggisþætti. Fram til þessa hefur það verið skilningur allra aðila að ekki yrði gengið frá þessum málum nema með heildstæðri lausn. Ég stóð í þeirri trú.

Þegar borgin sýndi vilja til að taka upp þráðinn að nýju í byrjun þessa mánaðar fagnaði ég því og taldi mikilvægt að við settumst heildstætt yfir málið, endurmætum forsendur í ljósi þess tíma sem liðinn er frá því málin voru síðast rædd og freistuðum þess að ná samkomulagi. Það sem ég ekki vissi var að þá þegar hafði verið undirritaður samningur  milli ríkis borgar! Þetta varð mér ekki ljóst fyrr en ég sá um þetta fréttir sl. fimmtudag. Samningurinn hafði hins vegar verið undirritaður í byrjun mánaðarins, hinn 1. mars, án þess að mér væri tilkynnt um það.  

Samningur fjármálaráðuneytis og borgarinnar verður hins vegar ekki virkur fyrr en náðst hefur samkomulag við innanríkisráðuneytið. Það samkomulag er ekki í höfn.

Í framhaldi frétta af skilyrtu samkomulagi fjármálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar hafa spunnist talsverðar umræður í fjölmiðlum, þar á meðal um kosti þess og galla að fara með flugvöllinn upp á Hólmsheiði annars vegar og halda honum í Vatnsmýrinni hins vegar. Í þeirri umræðu lét ég orð falla um hagsmuni skattgreiðenda, sem Gísla Marteini Baldurssyni, borgarfulltrúa í Reykjavík, þykja undarleg og óskiljanleg. Segist hann ekki átta sig á því hvers konar skattgreiðandi ég sé, sjá: http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/03/16/gisli-marteinn-atti-mig-ekki-a-thvi-hvernig-skattgreidandi-ogmundur-er/

Við Gísla Martein Baldursson og skoðanasystkin vil ég segja:
Sem skattgreiðandi og þjóðfélagsþegn sætti ég mig ekki við þá reikniformúlu að það sem megi hafa út úr landsölunni sé sjálfkrafa metið sem fjárhagslegur og samfélagslegur ávinningur.
Sem skattgreiðandi og þjóðfélagsþegn er ég ekki tilbúinn að leggja niður flugvöllinn í Vatnsmýrinni og byggja nýjan flugvöll á Hólmsheiði fyrir tugi milljarða. Stjórnmálamenn í Reykjavíkurborg - sumir hverjir - vilja flytja flugvöllinn, selja undan honum landið en láta skattborgara á landsvísu borga fyrir gerð nýs flugvallar. Þá er ljóst að nú þegar er þörf á margra milljarða innspýtingu í uppbyggingu og viðhald flugvalla á landinu öllu. Þessi þörf er orðin verulega knýjandi eftir aðhald og niðurskurð eftir hrunið. Hvaðan eiga fjármunir að koma til uppbyggingar á landsbyggðinni til viðbótar hugsanlegri fjárfestingu á Hólmsheiði?
Sem skattgreiðandi og þjóðfélagsþegn horfi ég til hagsmuna á annað þúsund starfsmanna á höfuðborgarsvæðinu sem hafa atvinnu af flugvellinum eða starfsemi honum tengdri. Þessi störf eru líka þjóðhagslegir hagsmunir og skipta okkur máli í félagslegu og efnahagslegu tilliti.
Sem skattgreiðandi og þjóðfélagsþegn horfi ég á hagsmuni ferðaþjónustunnar sem leggur upp úr því (í það minnsta drjúgur hluti hennar) að halda flugvellinum á sínum stað. Ferðaþjónustan er ein af undirstöðum efnahagslífs okkar og kemur okkur því við sem skattgreiðendum og þjóðfélagsþegnum hvað talsmenn hennar segja.
Sem skattgreiðandi og þjóðfélagsþegn horfi til þess að ég bý í eldfjallalandi. Flugvöllur í höfðuborginni er öryggisatriði í slíku landi. Aðkoma til og frá höfuðborginni gæti teppst af völdum eldgosa eða annarra náttúruhamfara. Stærsti flugvöllur landsins er á Reykjanesi. Helstu hraun þar runnu öll á landnámstíð og enn geta orðið eldgos á þessum slóðum. Á Hellisheiði rann hraun árið þúsund, sbr., „hverju reiddust goðin...?"
Sem skattgreiðandi og þjóðfélagsþegn horfi ég til hagsmuna landsmanna allra hvað varðar samgöngur og öryggi, aðgengi að öflugustu sjúkrastofnunum landsins og stjórnsýslu. Þetta vil ég sem skattgreiðandi og þjóðfélagsþegn tryggja með einhverjum hætti. Flugvöllur nærri Landspítala og hjarta stjórnsýslunnar er hagkvæm leið til þess.
Sem skattgreiðandi og þjóðfélagsþegn horfi ég til þess hvernig flugvöllur í Vatnsmýrinni, nánast á lóðum stærstu háskóla landsins, tengir þá öðrum geirum háskólasamfélagsins í landinu og veitir atvinnulífi víðs vegar um landið aðgang að sérfræðiþjónustu sem höfuðborgarsvæðið býr yfir eða fær erlendis frá.
Sem skattgreiðandi og þjóðfélagsþegn horfi ég á það hvernig höfuðborginni er með tilvist flugvallarins í Vatnsmýrinni auðveldað að rækja skyldur sínar gagnvart landsbyggðinni.
Sem skattgreiðandi og þjóðfélagsþegn er ég ekki reiðubúinn að láta sérhagsmuni verktaka ráða för í uppbyggingu í Vatnsmýrinni heldur vil ég horfa til almannahagsmuna, jafnvel þótt þeir verði ekki mældir með krónum og aurum á skömmum tíma í öllum tilvikum.

 Augljóst er að nú er hafin að nýju - að tilstuðlan núverandi meirihluta í borginni - umræða um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Það er vel. Sú umræða kemur þjóðinni allri við og væri eðlilegt að spyrja hana alla álits í þessu efni. Málið snýr að okkur öllum. Framtíð Reykjavíkurflugvallar snýst um hagsmuni samfélagsins alls.

http://visir.is/segir-mikilvaegt-ad-byggja-nyja-flugstod-i-skerjafirdinum/article/2013130319262

 

http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/03/15/ogmundur-med-efasemdir-frestum-thvi-ad-draga-tappana-ur-kampavinsfloskunum/
http://visir.is/vissi-ekki-um-kaup-reykjavikur-a-landi-i-vatnsmyrinni/article/2013130319298