Ríkisstjórn Íslands er meðábyrg
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra tjáir sig talsvert um Íraksmálið og dregur ekkert af sér í fylgispekt sinni við Bandaríkjastjórn. Nýlega sagði utanríkisráðherra í fréttaviðtali að það væru hagsmunir Íslendinga að vestræn samvinna gengi vel. Þetta átti víst að vera réttlæting á undirgefni íslensku ríkisstjórnarinnar við herveldið í vestri. Við þessa yfirlýsingu gerast ýmsar spurningar áleitnar. Hvað ef hagsmunir Íslendinga og hugsjónir stangast á; skiptir málstaður eða siðferði ef til vill engu máli? Nægir að hagsmunir "okkar" séu tryggðir? Einmitt þetta virðist ráðherrum Framsóknarflokksins helst hugleikið. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra veltir vöngum yfir afleiðingum yfirvofandi stríðs í viðtali við DV í gær: "Áhrifin verða eðlilega meiri ef þetta verður langvinnt, og svo er þetta líka spurning um áhrifin á stöðugleikann í þessum heimshluta. Stutt stríð hefur ekki mikil áhrif út fyrir þetta svæði." En hvað með áhrifin á alþýðu manna í Írak? Hvað með Gvendarbrunna þeirra Íraka, hvað með börnin? Hver er ábyrgð okkar Íslendinga þegar kemur að því að svara fyrir barnadauðann? Og við verðum að svara, einfaldlega vegna þess að ríkisstjórn Íslands er með stuðningi við Bandaríkjastjórn meðábyrg árásaraðilanum. Þessu veltir Ólína fyrir sér í lesendabréfi á heimasíðunni í dag.