Ríkisstjórnin mótmælir mannréttindabrotum í Guantanamo - í kyrrþey
Í maílok náðist ánægjuleg samstaða með verkalýðshreyfingunni (ASÍ og BSRB), ýmsum vefritum (Deiglunni.com, Múrnum, Sellunni, Skoðun og Tíkinni), ungliðahreyfingum þriggja flokka (Ungum frjálslyndum, Ungum vinstri grænum og Ungum jafnaðarmönnum) og síðast en ekki síst mannréttindasamtökunum Amnesty International um að koma formlega á framfæri við ríkisstjórn Bandaríkjanna mótmælum vegna mannréttindabrota í herstöð Bandaríkjamanna við Guantanamo flóa á Kúbu. Í kjölfarið var hafin undirskriftasöfnun á netinu.
Viku af júní lét utanríkisráðuneytið frá sér heyra og sagði að þegar hefði verið komið á framfæri formlegum mótmælum við fulltrúa bandarískra yfirvalda. Nokkrum dögum síðar, 11. júní sendi utanríkisráðuneytið síðan frá sér fréttatilkynningu þessa efnis og er hún birt í lokin á þessum pistli.
Aðstandendur áskorunarinnar sendu fyrir sitt leyti í kjölfarið frá sér tilkynningu þar sem þeir kváðust "telja mikilvægt að ríkisstjórn Íslands láti sig varða mannréttindi fanganna í Guantanamo herstöðinni sem margir hafa setið þar í haldi án dóms og laga í vel á þriðja ár og sætt ómannúðlegri meðferð og hugsanlega pyntingum. Jafnframt er því fagnað að mótmælum íslenskra yfirvalda vegna brota á mannréttindum Guantanamo fanganna hafi verið komið formlega á framfæri við fulltrúa Bandaríkjanna.
Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur nú í vel á þriðja ár haldið mörg hundruð einstaklingum föngnum án dóms og laga. Það er því ljóst að það er nauðsynlegt að almenningur og ríki heims tali skýrt þegar mótmælt er þessum alvarlegu mannréttindabrotum Bandaríkjamanna.
Íslensk yfirvöld eru hvött til að beita áhrifum sínum á alþjóðavettvangi á eins afgerandi hátt og kostur er og hvetja önnur ríki til að mótmæla brotum á mannréttindum fanganna í Guantanamo." (Sjá yfirlýsinguna í heild hér: http://amnesty.is/frettir/nr/174
Enda þótt framangreind samtök fagni því að íslensk stjórnvöld sýni einhvern lit vekur athygli af hve mkilli hógværð og linku þau koma fram í þessu máli. Það var ekki fyrr en eftir að undirskriftasöfnun var komin af stað að frá því var greint að utanríkisráðuneytið hafi komið mótmælum á framfæri. Mótmæli í kyrrþey skipta nánast engu máli og eru lítið annað en friðþæging. Það sem máli skiptir er hvað sagt er opinberlega helst á pólitískum vettvangi þar sem mannréttindabrjóturinn er veikur fyrir. Það hafa fulltrúar okkar í utanríkismálum, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson nánst aldrei gert þegar Bush og Bandaríkin eru annars vegar. Fræg að endemum var för Davíðs vestur um haf nýlega þar sem hann spilaði þeirri yfirlýsingu inn í kosningabaráttu Bush að hann hefði gert heiminn friðvænlegri með árásinni á Írak! Ekki orð um Guantanamó eða pyntingar í bandarískum herfangelsum.
Við annan tón kvað hjá Jóhönnu K. Eyjólfsdóttur, framkvæmdastjóra Amnesty International, í DV nýlega (11.maí) um pyntingarnar í herfangelsunum: "Pyntingar eiga sér aðeins stað þar sem þær eru liðnar af yfirvöldum". Jóhanna sagði ljóst að þessar pyntingar væru í samræmi við yfirvegaðar fyrirskipanir: "Pyntingar eru ekki tómstundagaman sadískra hermanna. Þeim er ætlað að brjóta niður, niðurlægja, afmennska fórnarlambið." Aðgerðastjóri Rauða Krossins, Pierre Kraehenbuehl, tekur í sama streng ( sjá frásögn Fréttablaðsins byggða á AP 11. maí): "Um var að ræða útbreitt mynstur, ekki einstök tilvik. Þarna var mynstur og kerfi."
Myndir sem við höfum séð í blöðum af pyntingum í íröskum fangelsum undir stjórn Bandaríkjahers segja meira en nokkur orð fá lýst. Myndirnar frá Guantanamo og lýsingar þaðan segja sitt um hvernig fangarnir eru "afmennskaðir" eins og framkvæmdastjóri Amnesty Interantional komst að orði.
Ráða má af greinargerðum og yfirlýsingum utanríkisráðuneytisins að málinu hafi vissulega verið hreyft og að Íslendingar telji að virða bera alþjóðlega mannréttindasáttmála og vissulega er því "fagnað" að Hæstiréttur Bandaríkjanna skuli kanna lögmæti þess að halda mönnum föngnum í Guantanamo. Tónarnir frá utanríkisráuneytinu eru hins vegar með fyrirvörum og í engu samræmi við tilefnið. Bandaríkjastjórn er ekki fordæmd fyrir skýlaust brot á Genfarsáttmálanum og þess krafist að þegar í stað verði látið af pyntingum og ofsóknum og grundvallarreglur réttarríkis í heiðri hafðar. Aðeins er lýst almennri skoðun Íslands að mannúðar- og mannréttindasamningar skuli virtir, jafnvel þótt "flestir fanganna í Guantanamo Bay" hafi verið " handteknir í Afganistan sem meintir meðlimir Al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna og ... því hugsanlega um hættulegustu hryðjuverkamenn í heimi að ræða", svo vitnað sé í yfirlýsingu íslenska utanríkisráðuneytisins!
Eftrifarandi er fréttatilkynning utanríkisráðuneytisins í heild sinni:
11.6.2004 Utanríkisráðherra barst þann 27. maí s.l. áskorun frá nokkrum stéttarfélögum, félagasamtökum og vefsíðum, varðandi mannréttindabrot gegn föngum sem haldið er í herstöðinni við Guantanamo-flóa á Kúbu. Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins hefur svarað erindinu á eftirfarandi hátt:,,Reykjavík, 8. júní 2004
Með vísan til áskorunar nokkurra stéttarfélaga, félagasamtaka og vefsíða, dags. 27. maí sl., þess efnis að ríkisstjórn Íslands komi á framfæri mótmælum við ríkisstjórn Bandaríkjanna vegna mannréttindabrota gegn föngum sem haldið er í herstöðinni við Guantanamo-flóa á Kúbu, skal tekið fram að formlegum mótmælum hefur þegar verið komið á framfæri.
Það var gert á fundi Sturlu Sigurjónssonar, skrifstofustjóra alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, með Sichan Siv, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Efnhags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna, 23. apríl sl. og svo á fundi Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, með James I. Gadsden, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, 18. maí sl.
Af þessu tilefni er ástæða til að vísa til bréfs sem skrifstofustjóri alþjóðaskrifstofu sendi Lögfræðingahóps Íslandsdeildar Amnesty International 19. apríl sl., þar sem segir m.a.: ,,Hvað varðar fangana í Guantanamo Bay leggja íslensk stjórnvöld áherslu á að Bandaríkjamenn, sem allir aðrir, fari í einu og öllu eftir gildandi alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum varðandi stríðsfanga. Flestir fanganna í Guantanamo Bay voru handteknir í Afganistan sem meintir meðlimir Al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna og hér er því hugsanlega um hættulegustu hryðjuverkamenn í heimi að ræða. Þetta þýðir þó ekki að þeir séu réttlausir og njóti ekki verndar alþjóðlegra mannúðar- og mannréttindalaga. Íslensk stjórnvöld telja að um fanga í Guantanamo Bay gildi ákvæði Genfarsamninganna þar til staða þeirra verður endanlega ákvörðuð af þar til bæru dómsvaldi. Meðferð stríðsfanganna þarf að vera mannsæmandi og réttlát málsmeðferð þarf að vera tryggð. Jafnframt þarf réttarstaða fanganna að vera skýr. Því fagna íslensk stjórnvöld ákvörðun Hæstaréttar Bandaríkjanna, sem nýverið ákvað að taka til meðferðar mál sem varða lögmæti þess að halda útlendingum í Guantanamo Bay herstöðinni sem sakaðir eru um að hafa barist með hryðjuverkasamtökum Al-Qaeda eða Talibanastjórninni í Afganistan. Þessari ákvörðun hefur einnig verið fagnað af mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna"."
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 11. júní 2004.
sjá hér: http://www.utanrikisraduneyti.is/frettaefni/frettatilkynningar/nr/2282