RÍKISSTJÓRNIN OG HIN VILJUGU RÍKI
Bandalag hinna viljugu, Coalition of the willing sem George Bush. Bandarikjaforseti, skipulagði ásamt vafasömum félögum sínum í stjórn Bandaríkjanna í aðdraganda innrásarinnar í Írak vorið 2003 líður fáum úr minni, alla vega ekki Íslendingum sem urðu vitni að því að Íslandi var skipað í þennan hóp að Alþingi forspurðu.
Þetta stríddi gegn íslenskum þingskaparlögum því samkvæmt þeim bar að hafa samráð við utanríkismálanefnd Alþingis.
Í síðustu viku kom til umræðu á Alþingi stjórnarfrumvarp um breytingu á lögum sem varða þetta mál. Hér var um að ræða lagafrumvarp um lög er varða alþjóðamál og öryggismál. (http://www.althingi.is/altext/144/s/1084.html ).
Ég gerði 3. grein lagafrumvarpsins sérstaklega að umræðuefni. Hún er svohljóðandi: „Ríkisstjórninni er heimilt, að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis, sbr. lög um þingsköp Alþingis, að taka þátt í og gera þær ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til þess að framkvæma ákvarðanir alþjóðastofnana, ríkjahópa eða samstarfsríkja um þvingunaraðgerðir sem miða að því að viðhalda friði og öryggi og/eða tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi."
Látum mannfreslið liggja milli hluta, horfum frekar á öryggisþáttinn og þá breytingu að útvíkka heimildir ríkisstjórnarinnar til að ganga til samstarfs í þvingunaraðgerðum án samþykkis Alþingis.
Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Samkvæmt gildandi lögum getur ríkisstjórnin framkvæmt þvingunaraðgerðir sem ákveðnar eru af öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, alþjóðastofnunum eða ríkjahópum til að viðhalda friði og öryggi og/eða til að tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi. Með frumvarpinu" er lagt til að þessi heimild verði útvíkkuð til þess að hægt sé að innleiða þvingunaraðgerðir samstarfsríkja og er þá átt við samstarfsríki Íslands innan Evrópska efnahagssvæðisins eða Norður-Atlantshafsbandalagsins, að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis. Æskilegt gæti verið að innleiða slíkar aðgerðir í samstarfi við önnur ríki án þess að ríkjahópurinn í heild taki endilega slíka ákvörðun, enda er slíkt ekki alltaf hægt."
Nákvæmlega þetta gerðist árið 2003. Þá fengu herskáustu hagsmunaríkin á þessu mikilvægasta olíusvæði heimsins ekki stuðning til innrásar í Írak, "enda er slíkt ekki alltaf hægt."
Þá var leitað til allra elsku bestu vinanna góðu um að mynda Bandalag hinna viljugu. Mér bíður í grun að eftir á að hyggja hefðu íslensk stjórnvöld gjarnan viljað losna við þá niðurlægingu að ganga inn í þennan félagsskap. Það hefðu þau án efa gert ef það hefði verið bundið í lög að fara með slíkt mál fyrir Alþingi - ekki til málamyndasamráðs við utanríkisnefnd Alþingis, heldur alvöru samráðs og samþykkis þingsins eftir umræðu fyrir opnum tjöldum.
Með þessu lagafrumvarpi yrði hins vegar gengið í gagnstæða átt og heimildir ríkisstjórnarinnar víkkaðar! Þessu verður að breyta í frumvarpinu.
Hér geri ég grein fyrir afstöðu minni, í andsvari tók utanríkisráherra vel í að kanna - án skuldbindinga þó - hvort gera ætti breytingu á frumvarpinu í þá veru sem ég talaði fyrir og er það vel: http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20150326T122618