Fara í efni

RÍKISSTJÓRNIR SKIPTA MÁLI


Formaður Samfylkingarinnar, utanríkisráðherrann, Ingibjörg Sólrún Gsladóttir,  talaði um nauðsyn „þjóðarsáttar" á baráttudegi verkalýðsins 1. maí. Gott ef formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, Geir H. Haarde, hefur ekki einnig orðað þessa hugsun. Hvað þau eiga við er mér hins vegar hulin ráðgáta. Alla vega virðist ekki vera mikið samræmi á milli orða og gjörða.

Oft hefur verið vísað til Þjóðarsáttarsamninganna, sem svo voru nefndir,  frá árinu 1990. Þar hafa iðulega verið uppi ýmsar söguskýringar, sem margar eiga það sammerkt að gera sem minnst úr hlut þáverandi ríkisstjórnar. Einnig hefur mér oft fundist að söguskýrendur hafi ekki alltaf áttað sig á hlut BSRB í þessum samningum, en ég er sannfærður um að af þeim hefði aldrei orðið án aðkomu BSRB. (Þetta hef ég áður rakið t.d. hér: https://www.ogmundur.is/is/greinar/hvert-stefnir-hja-samtokum-launafolks-innan-almannathjonustunnar). En það sem meira er, án aðkomu ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar með Alþýðubandalag, Alþýðuflokk auk Framsóknarflokks innanborðs, hefðu þessir samningar aldrei orðið! Það má sú ríkisstjórn eiga að hún reyndi að gera sitt besta og var alltaf til viðtals við samtök launafólks, hafði sjálf frumkvæði og svaraði alltaf kalli. (Að vísu ekki kalli félaga minna í BHM sem vildu fara aðrar leiðir en ASÍ og BSRB og leiddi það til illvígra deilna sem urðu okkur öllum erfiðar og sárar.)  
Þetta rennur æ betur upp fyrir mér þegar ég ber þennan tíma saman við framkomu núverandi ríkisstjórnar, sem einkennist af sinnuleysi ef þá ekki lítilsvirðingu gagnvart viðsemjendum sínum.
Þótt ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur  sé rétt fram höndin virðist hún fullkomlega áhugalaus um að taka í þá hönd.  
BSRB hefur lýst áhuga á því að gera skammtímasamning. Þegar ríkisstjórnin hafnaði því óskaði BSRB eftir því að efnt yrði með hraði til fundar með oddvitum stjórnarflokkanna auk félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra. Engin viðbrögð berast. Það er ekki nóg með að ríkisstjórnin hafi ekki frumkvæði að viðræðum við forsvarsmenn BSRB um fyrirhugaða kjarasamninga. Þegar óskað er eftir formlegum fundi þá er því kalli ekki svarað. Svipað sinnuleysi mun hafa einkennt  samskiptin við ríkisstjórnina þegar samningar ASÍ og SA voru í burðarliðnum. ASÍ og SA náðu samningum þrátt fyrir ríkisstjórnina.
Það getur því miður ekki gerst hvað BSRB snertir því um er að ræða viðsemjendur aðildarfélaga bandalagsins. Það gengur því ekki að  ríkisstjórnin sofi sig í gegnum þetta vandamál einsog hún virðist ætla að reyna að gera.
En hvað á BSRB vantalað við ríkisstjórnina? Eins og menn kann að reka minni til þá hefur hún og einstakir ráðherrar margoft lýst því yfir að ráðist yrði gegn kynbundnum launamun, kjör umönnunarstétta stórbætt svo og hópa innan almannaþjónustunnar þar sem launagliðnun hefur orðið mikil og mannekla viðvarandi sökum þess hve bágborin launakjör eru í boði. Nú þegar boðið er upp á kjarasamning nánast út kjörtímabilið  án þess að bóli á tillögum um hvernig þessi loforð skuli efnd er eðlilegt að óskað sé eftir skýringum. BSRB mun ekki sætta sig við að þær skýringar komi ekki fram.