RITSTJÓRI FRÉTTABLAÐSINS BLÆS Á ÞJÓÐARSAMSTÖÐU Í ALBANÍULEIÐARA
Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifar ritstjórnarpistil í blað sitt í dag undir fyrirsögninni: Áhrif Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs: Meiri en hollt er.
Þorsteinn tekur tvö dæmi.
Fyrra dæmið varðar virkjanir og stóriðju. Þorsteinn gerir því skóna að andstaða við virkjanir í þágu stóriðju sé runnin undan rifjum VG. : „Innan ríkisstjórnarinnar hefur verð hörð andstaða við uppbyggingu nýrrar orkufrekrar atvinnustarfsemi. Þau nýmæli sem hafa verið á döfinni í þessum efnum eins og netþjónabú og sólarrafhlöðuframleiðsla hafa þann kost umfram álframleiðslu að mengunaráhrif þeirra eru engin eða óveruleg. Forsenda þessarar atvinnunýsköpunar er virkjun neðri hluta Þjórsár. Eindregin andstaða Vinstri græns við þau virkjunaráform eins og öll önnur hefur augljós jaðaráhrif inn í ríkisstjórnina. Eins og sakir standa er þó ekki ljóst hvort þau áhrif duga til að bregða fæti fyrir framfarir á þessu sviði."
Hér vísar Þorsteinn Pálsson í megin hitamál okkar samtíðar, þ.e. á hvað við eigum að leggja áherslu við uppbyggingu atvinnustarfsemi í landinu og að hvaða marki réttlætanlegt sé að fórna dýrmætum náttúruperlum í þágu stóriðjuuppbyggingar. Það er vissulega rétt að Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur mjög skýra stefnu á þessu sviði, bæði varðandi náttúruvernd og mikilvægi þess að tryggja fjölbreytni í atvinnuuppbyggingu. Hvað hvoru tveggja snertir á VG samherja í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu, bæði hvað varðar inntak stefnunnar og einnig aðferðafræði. Þannig eru margir Sjálfstæðismenn og Samfylkingarmenn eindregið sammála Vinstrihreyfingunni grænu framboði, að okkur beri að hægja á, jafnvel stöðva öll frekari virkjunaráform þar til gerð hefur verið rammaáætlun um nýtingu orkulinda og hún fengið umræðu þannig að slík áætlun byggi á víðtækri sátt.
Ég fæ ekki betur séð en Þorsteinn Pálsson sé að gefa slíkri hugsun langt nef. Í reynd er hann að segja við ríkisstjórnina: Hættið að leita eftir samstöðu með þjóðinni, þið hafið völdin, nýtið þau eftir eigin höfði.
Þeir sem staðið hafa í þeirri trú að yfirvegun og víðsýni einkenni skrif Þorsteins Pálssonar þurfa að endurmeta þá afstöðu sína. Síðan er hitt umhugsunarvert, hvort þessi áhugamaður um samstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar beri einhvern kvíða í brjósti þessa dagana og sjái ástæðu til að stappa stálinu í sína menn.
Síðara dæmið sem ritstjóri Fréttablaðsins nefnir um áhrif á ríkisstjórnina eru viðbrögð „innan stjórnkerfisins" til að „búa til tæknilegar hindranir til að bregða fæti fyrir fyrirtæki" sem vilja skrá hlutabréf í erlendri mynt: „Hér er um að ræða augljós jaðaráhrif frá stefnu Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs í peningamálum. Þar á bæ er litið á krónuna sem óhjákvæmilegan lið í fullveldi landsins. Það er talið veikja fullveldið og sjálfstæða peningamálastjórn ef íslensk alþjóðafyrirtæki gera ársreikninga sína upp íerlendri mynt. Kaupþing er eitt þessara fyrirtækja. Enn er ekki ljóst hvaða úrlausn stjórnsýslukæra þess um þetta efni fær. Þeir tafaleikir sem stjórnkerfið hefur leikið fram til þessa vekja upp spurningar um hvort þar innan dyra geti menn hugsað sér að fórna eðlilegum nútímaleikreglum í þeim eina sýnilega tilgangi að halda opnum jaðartengslum við Vinstri grænt með því að þrengja að stöðu íslenskra fyrirtækja á alþjóðamarkaði. Synjun erindis Kaupþings væri vísbending í þá veru. Umfram allt fælist þó í henni afturhvarf og slæm skilaboð út á markaðinn. Atburðir síðustu vikna á hlutabréfamarkaðnum staðfesta hversu mikilvægt er að tryggja samkeppnisstöðu íslenskra fjármála- og atvinnufyrirtækja sem best. Möguleg jaðaráhrif Vinstri græns gætu orðið meiri en hollt er þegar full þörf er á nýrri viðspyrnu og sókn í atvinnustarfsemi sem snýst um rekstur."
Ja hérna. Hvern er verið að skamma? Væntanlega þann aðila sem helst hefur tjáð sig í þá veru sem hér er vísað til, nefnilega Seðlabanka Íslands og stjórann þar á bæ, Davíð Oddsson. Þetta kölluðu menn í gamla daga að skamma Albaníu. Þegar Sovétmenn skömmuðu Albaníu voru þeir í reynd að skamma Kína vegna vinsamlegra tengsla á milli Kína og Albaníu. Nú er verið að gera því skóna að stefna Davíðs Oddssonar - fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins - og stefna VG varðandi Evruna eigi sitthvað sameiginlegt. En í stað þess að gagnrýna DO beinir Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, spjótum sínum að Vinstrihreyfingunni grænu framboði.
Hitt skiptir þó meginmáli að þessi skrif Þorsteins Pálssonar er byggð á vanþekkingu og hleypidómum. Það væri gott og æskilegt fyrir Fréttablaðið og trúverðugleika ritstjórans að hann kynnti sér afstöðu þingmanna VG til lagasetningar um fjármálamarkaðinn, þar á meðal heimildir til að gera upp reikninga fyrirtækja í erlendum myntum. Það er vissulega hárrétt að VG hefur viljað - og vill - standa vörð um íslenskan gjaldmiðil og er vissulega umhugað um fullveldi Íslands.
Hins vegar er það svo að þegar löggjöf um íslenskan fjármálamarkað og samkeppnisumhverfið hefur verið annars vegar hefur VG jafnan verið opið fyrir nýjum hugmyndum, stutt allt það sem við höfum talið vera til framfara, en það á við um þorra þeirra þingmála sem komið hafa fyrir Alþingi á þessu sviði. Stöku málum höfum við lagst gegn. Það á við um mál sem við teljum ekki þjóna almannahag . Þá hefur þingflokkur VG og einstakir þingmenn flokksins sett fram ófáar tillögur um að betrumbæta íslenskt fjármálaumhverfi. Þar vil ég til dæmis nefna áherslu okkar á að aðgreina viðskiptabanka frá fjárfestingarstarfsemi en við teljum samtvinnun þarna í millum varhugaverða, ekki síst í litlu hagkerfi einsog okkar.
Sannast sagna koma mér skrif Þorsteins Pálssonar nokkuð á óvart og þá fyrst og fremst fyrir hve óyfirveguð þau eru. Oft hefur ritstjóranum tekist prýðilega upp og yfirleitt hefur hann reynt að kynna sér þau mál sem hann skrifar um í leiðurum sínum. En það er greinilega ekki algild regla.