RÖDD SKYNSEMI OG SANNGIRNI ÚR HEIMI FASTEIGNAVIÐSKIPTA
Enn eina ferðina eru bankarnir byrjaðir að hamst á Íbúðalánsjóði. Að þessu sinni var það bankstjóri KB banka, Hreiðar Már Sigurðsson sem fékk keflið í hönd. Í fréttatíma Ríkissjónvarpsins sl. sunnudagskvöld úthúðaði hann Íbúðalánasjóði, kvað hann ekki standa við yfirlýsingar um "gagnsæi", bryti gegn EES reglum og væri almennt til óþurftar. Hallur Magnússon, frá Íbúðalánasjóði vísaði þessum fullyrðingum til föðurhúsanna á svipuðum nótum og oft áður og mjög í þeim anda sem gert hefur verið á þessari heimasíðu einnig. Allt var þetta semsé í farvegi sem orðinn er gamlakunnur.
En Sjónvarpið lét ekki sitja við það eitt að tala við þessa tvo menn heldur snéri fréttastofan sér að þessu sinni einnig til fasteignasala, Ingibjargar Þórðardóttur. Hún rekur fasteignasöluna Híbýli. Hún benti á að væri það ekki fyrir tilvist Íbúðalánasjóðs væri hlutfall eignarhúsnæðis mun lægra hér á landi en raun ber vitni enda lægi í augum uppi að “þeir sem að minna mega sín og hafa lægri tekjur, þeir þurfa að njóta einhverrar ívilnunar.”
Það er rétt hjá Ingibjörgu Þórðardóttur að þetta hefur verið hluti hins félagslega húsnæðiskerfis sem Íbúðalánasjóður er arftaki að. Ég verð þó að segja fyrir mitt leyti að alltof lítið er eftir af hinum félagslega þætti í núverandi kerfi miðað við það sem áður var. En það er athyglisvert að heyra fasteignasala í Reykjavík vara við því að farið verði að kröfu bankanna um að Íbúðalánasjóður verði lagður niður eða skipað að draga stórlega saman seglin. Ingibjörg Þórðardóttir segir ljóst að skapast myndi “ófremdarástand ef að Íbúðalánasjóður færi af markaðnum.” Þegar allt kæmi til alls hefði hann “ sýnt umburðarlyndi gagnvart skuldurum sem lenda til dæmis í greiðsluerfiðleikum eða einhver áföll dynja á fólki, eins og veikindi eða dauðsföll eða eitthvað þess háttar, að þá eru lánin fryst og þeim er skuldbreytt og reynt að styðja við bakið á fólki þannig að það missi þá ekki þakið ofan af sér. En aftur á móti held ég og bara veit það að bankarnir þeir hvorki geta né sýna slíkt svigrúm.”
Þessi orð bera vott félagslegri ábyrgð og sanngirni sem afar verðmætt er að við varðveitum í okkar samfélagi. Hafi Ingibjörg Þórðardóttir þökk fyrir þessar ábendingar.