Fara í efni

RÖK SJÁLFSTÆÐIS/SAMFYLKINGARFLOKKS UM ÁFENGI: AF ÞVÍ BARA


Nú gerist það í fimmta sinn að Sigurður Kári Kristjánsson, Sjálfstæðisflokki og Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, ásamt samherjum í frjálshyggjudeildum flokka sinna, flytja lagafrumvarp á Alþingi um að færa áfengissölu inn í matvöruverslanir. Í gær lauk fyrstu umræðu um málið. Ljóst er að frumvarpið mætir mikilli andstöðu innan Alþingis. Utan þings er andstaðan einnig mikil. Í gærmorgun sat ég fyrir svörum í morgunþætti hjá Heimi Karlssyni á Bylgjunni. Heimir opnaði fyrir símann og hringdu hlustendur inn. ALLIR sem hringdu voru andvígir frumvarpinu.
Ég finn það í merg og á beinum að aldrei hefur andstaðan gegn þessu afturhaldssama frumvarpi verið eins mikil og nú. Fólk gerir sér grein fyrir því að verði frumvarpið að lögum mun það hafa skaðleg áhrif hvað lýðheilsu varðar og frá sjónarhóli neytenda yrði þetta ávísun á hærra verð og minna vöruúrval. Það er ekki að undra að frjálshyggjuliðið eigi í vök að verjast. Þeirra rök eru ekki beisin en er að finna í þremur orðum: Af því bara.
Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki, reyndi að krafsa í bakkann undir lok umræðunnar og sagði að menn mættu ekki binda sig í tölfræðileg rök, þetta snerist um frelsi og mannvænt samfélag! Það er nefnilega það! Hættum að horfa á skýrslur og til reynslu annarra þjóða! Við erum að búa til frjálst mannvænt samfélag!

En mér verður spurn. Ber ekki löggjafanum að skipa þessum málum á þann veg að kerfið þjóni samfélaginu vel, bæði í heilsufarslegu tilliti og tryggi jafnframt hagsmuni neytenda? Þegar sýnt er fram á það með rökum og tölfræðilegum upplýsingum að frumvarp frjálshyggjudeildarinnar þjónar hvorugu markmiði þykir flestu hugsandi fólki eðlilegt að hafna því. Nei, segir frjálshyggjudeildin. Hvers vegna ekki? Af því bara!