Fara í efni

RUKKAÐ FYRIR AÐ DRAGA ANDANN?

MBL  - Logo
MBL - Logo

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 12.01.14.
Fyrir áramótin fluttu fjölmiðlar fréttir af því að ýmsir landeigendur og sveitarstjórnarmenn væru farnir að ókyrrast yfir því að geta ekki byrjað að rukka fólk fyrir að njóta náttúrunnar. Seljalandsfoss og Skógarfoss voru nefndir í þessu sambandi.
Ekkert hef ég við það að athuga að greiða gjald fyrir að nýta aðstöðu  og þjónustu við ferðamannastaði. Sums staðar hefur tekist vel til við þjónustustöðvar, til dæmis við Geysi í Haukadal. Margoft hef ég komið þangað með erlenda gesti og í sumum tilvikum hópa og snætt þar málsverð. Ráðstefnu hef ég setið við Geysi í tvígang við mikla ánægju þátttakenda.
Þó þarf að fara varlega í þessu efni  og forðast ókosti og öfgar markaðsvæðingar og sölumennsku við ferðamannastaði. Hrikaleg dæmi fyrirfinnast erlendis um skrumskælingu á náttúruperlum og sögulegum minjum.
Fyrir skömmu reistu eigendur Kersins í Grímsnesi  rukkunarskúr með tilheyrandi sjóðvélum við þessa „eign" sína. Þess er nú farið á leit að allir sem vilja skoða eldgíginn greiði eigendunum gjald fyrir. Í bókhaldi má eflaust til sanns vegar færa að Kerið sé í einkaeign sem landspilda, en sem  náttúruperla er Kerið hins vegar okkar allra. Það á einnig við um aðrar náttúrugersemar.
Fyrir nokkru skrifaði landeigandi á norð-austurhorninu, sem segist eiga Dettifoss, grein í Morgunblaðið þar sem hann kveðst  vilja fá leyfi til að rukka aðgang að sinni náttúruperlu. Hann nefnir náttúruperlur „sem gætu staðið undir og séð um gjaldtöku ... til dæmis Geysir, Kerið, Jökulsárlón, Dyrhólaey, Reynisfjörður, Dettifoss/Selfoss, Leirhnjúkasvæðið, hverir Námafjalls, Gjástykki, Gullfoss og Dimmuborgir, o.fl, o.fl."
Landeigandinn sér fyrir sér að öryrkjar og börn fengju að skoða Dettifoss og Gullfoss ókeypis  en að gjaldtakan verði „undir stjórn þeirra sem hafa umráðaréttinn á svæðinu og þeir skuli ráða því hvað gert verður til uppbyggingar og verndunar náttúrunnar." 
Í þeim dæmum sem hér eru nefnd skilur annars vegar á milli atvinnustarfsemi ásamt þjónustu, sem ég hygg að fáir andmæli að greitt sé fyrir, og hins vegar þegar fegurð náttúrunnar er gerð að söluvöru. Þá held ég líka að almennt sé ríkjandi skilningur á því að verja þurfi umhverfið við fjölfarna ferðamannastaði og hlú vel að því.
En það kostar peninga. Skiptar skoðanir eru um það hvernig þeirra skuli aflað. Gjald á komu ferðamanna  til landsins er að mínu mati vel fallið til að láta renna í slíkar framkvæmdir. Það gjald yrði greitt án tillits til þjóðernis enda greiddu Íslendingar, sem væru í förum til og frá landinu, gjaldið ekkert síður en útlendingar. Þetta þyrfti ekki að vera hátt gjald til að skipta máli.
Við þurfum að taka þessa umræðu alvarlega. Núverandi ferðamálaráðherra er hlynnt gjaldtöku en hefur ekki tjáð sig endanlega um hvert form skuli vera á henni. Vill hún rukka í Leifsstöð og láta þannig greiða almennt gjald til stígagerðar og annarrar aðstöðu?  Eða vill Ragnheiður Elín Árnadóttir, ferðamálaráðherra, rukka nemendur í framhaldsskólaferðalaginu fyrir að koma í Landmannalaugar og  vill hún heimila landeigendum að rukka við Dettifoss og Seljalandsfoss?
Og þegar á annað borð verður byrjað að krefjast aðgangseyris að sköpunarverkinu,  hvar endar sú gjaldtaka?  Loftslagskvótar, með markaðsvæðingu andrúmsloftins, eru kannski vísbending um það sem koma skal. Mun einhver „eignast" leyfi til að rukka okkur fyrir að draga andann?