Fara í efni

RÚSSNESKI FÁNINN, NAGLAKLIPPURNAR Í LEIFSSTÖÐ OG ÖRYGGI BORGARANS

Ungir menn stálu fána rússneska sendiráðsins í "fylliríi" að sögn fréttastofu RÚV. Rússar mótmæltu kröftulega og kröfðust aðgerða. Ungu mennirnir gáfu sig fram og báðust afsökunar. Málið úr sögunni. Ekki aldeilis, því viti menn, í kvöldfréttum kom fram að Rússar litu málið enn grafalvarlegum augum og sama var að skilja á okkar mönnum í utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíginn í Reykjavík. Hugsanlega þyrfti að efla öryggisgæslu við sendiráð í Reykjavík svo alvarlegt  væri þetta mál.
Eflaust eiga Rauðarármenn ekki annarra kosta völ en taka undir með Rússum af diplómatískum ástæðum. Vonandi eru þeir í hjarta sínu ekki rússnesku diplómatíunni sammála og vona ég að ekki verði ráðist í kostnaðarsamar öryggisaðgerðir vegna þessa. Sama kvöld og þessi atburður átti sér stað var sagt frá því að ráðist hafði verið á mann í miðbæ Reykjavíkur og honum misþyrmt herfilega. Maðurinn var stórslasaður. Talað var um fólskulega árás. Árásin lyktaði af eiturlyfjum. Að mínum dómi er hér um  mun alvarlegri atburð að ræða en hinn "grafalvarlega" fánastuld og ástæða til að grípa til aðgerða.

Í stað þess að verja fána Rússa, setja á fót leynilögreglu, efla víkingasveitir og taka naglaklippur af flugfarþegum í Leifsstöð, eigum við að hyggja að raunverulegu öryggi almennings. Það gerum við með því að efla almenna löggæslu, uppræta fíkniefnasölu og síðast en ekki síst leita allra leiða til að koma í veg fyrir að fólk sækist eftir fíkniefnum. Þessi upptalning er í öfugri forgangsröð.
Skyldi ekki vera samhengi á milli þess annars vegar að ungt fólk með geðraskanir fær ekki aðhlynningu og lækningu vegna þess hve þrengt er að geðheilbrigðisþjónustunni og hins vegar ásóknar þessa sama fólks í eiturlyf síðar á lífsleiðinni? Er það ekki grafalvarlegra mál en það ráðslag drukkinna ungmenna að stela fána – sjá að sér og biðjast afsökunar?