Fara í efni

RÚV-FRUMVARP RÍKISSTJÓRNARINNAR AFSPRENGI ÁGREININGS

Birtist í Morgunblaðinu 05.05.05.
Fyrir Alþingi liggur sem kunnugt er frumvarp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið. Ætlunin er að gera stofnunina að sameignarfélagi. Af því tilefni hefur verið spurt hvaða aðiljum sé ætlað að eiga þessa stofnun í sameiningu. Eigandinn mun verða eftir sem áður einn, íslenska ríkið. Þetta er fyrsta atriðið sem gagnrýnendur þessa makalausa lagafrumvarps hafa staðnæmst við og sannast sagna orðið nokkuð hvumsa. Ekki bætir úr skák að engin lög eru til um sameignarfélög í landinu, þannig að lagaumgjörð stofnunarinnar yrði óljós og væru þeir sem ætlað er að samþykkja stjórnarfrumvarpið í reynd að kaupa köttinn í sekknum.

Ágreiningur en ekki samvinna

Lykillinn að skilningi að þessu frumvarpi er að gera sér grein fyrir því að það er sprottið upp úr ágreiningi en ekki samvinnu. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra og er fólgin í þessu mikil uppgjöf gagnvart erfiðu en mikilvægu viðfangsefni. Sjálfstæðisflokkurinn vill helst gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi og dengja því út á almennan viðskiptamarkað. Því er Framsóknarflokkurinn andvígur, hann vill ekki gera RÚV að hlutafélagi, hvað þá selja stofnunina. Útkoman er einhver undarlegasti bastarður síðari tíma lagasmíðar. Tillaga um stjórn stofnunarinnar ber þessa merki. Þar er blanda af póltískri kosningu af því tagi sem nú er og stjórnarfyrirkomulagi eins og tíðkast í hlutafélögum með tilheyrandi aðalfundum sem kjósi stjórn.

„Eftir að fullkomna verkið“ 

„Við höfum einfaldlega ekki stigið skrefið til fulls,“ sagði sjálfstæðismaður í mín eyru, þetta frumvarp á að brúa millibilsástand; „..af okkar hálfu“, bætti hann við, „er þetta eins konar millibilsfrumvarp“. Þetta verður reyndar augljóst þegar menn lesa sjálfan texta frumvarpsins. Dæmi hver fyrir sig. Hvað skyldu menn t.d. segja um 8. grein frumvarpsins þar sem kveðið er á um stjórn stofnunarinnar: Stjórn félagsins skal kosin á aðalfundi sem haldinn skal fyrir lok maímánaðar ár hvert. Hana skulu skipa fimm menn og jafnmargir til vara. Áður en kosið er til stjórnar á aðalfundi skulu fimm menn kjörnir hlutbundinni kosningu á Alþingi ásamt jafnmörgum til vara og skulu þeir kosnir í stjórn félagsins.“ Með öðrum orðum, fram skal fara kosning á aðalfundi, en áður skal stjórnarmeirihlutinn á Alþingi ákveða hverja aðalfundurinn kýs! Í framtíðinni á aðalfundur eflaust að kjósa stjórn Ríkisútvarpsins hf.  en ekki sf. Fyrirheitna landið er nefnilega hf. en ekki sf.

Hvað vinnst með þessu skrefi?

Þá liggur beinast við að spyrja hvaða hag menn sjá sér með þessu frumvarpi. Í mínum huga er það augljóst. Með frumvarpinu er ætlunin að taka starfsmennina úr því laga- og kjaraumhverfi sem gildir um ríkisstarfsmenn. Þá yrði allt sveigjanlegra og meðfærilegra, eins og sagt er, t.d. verður þá hægt að segja starfsmönnum upp skýringarlaust og án áminningar og án þess að gefa þeim kost á að bæta sig í starfi. Að auki myndi þessi breyting valda því að innsýn eigenda Ríkisútvarpsins, þ.e. þjóðarinnar, í rekstur og starfshætti stofnunarinnar, yrði takmarkaðri en gerist í ríkisrekstri. Síðan er rúsínan í pylsuendanum að sjálfssögðu sú að sf.- félagið ætlar ekki, að sögn forsvarsmanna frumvarpsins, að hleypa nýjum starfsmönnum inn í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Með öðrum orðum, það á að spara á kostnað starfsmanna!

  Samningum einhliða rift

Við fyrstu umræðu um stjórnarfrumvarpið um RÚV sf vék undirritaður að mikilvægi starfsmannalýðræðis. Menntamálaráðherra afgreiddi slíkt út af borðinu með þeim ummælum, að "ekki ætti að blanda starfsmönnum alltof mikið í þá stjórn sem fer með stjórn útvarpsins hverju sinni. Ráðherra sagði að markmiðið með lögunum væri "fyrst og fremst að nútímavæða Ríkisútvarpið." Skyldi ráðherrann telja það vera í anda nútímalegra vinnubragða að rifta einhliða gerðum samningum? Staðreyndin er nefnilega sú að aðkoma starfsmanna að stjórn  stofnunarinnar með tveimur fulltrúum í framkvæmdastjórn var tryggð með samkomulagi starfsmannafélaga Sjónvarps og Útvarps á grundvelli undirritaðs samnings á milli BSRB og fjármálaráðuneytisins í ágúst 1980. Hingað til hefur venjan verið að ræða við gagnaðila sinn ef breyta á áður gerðu samkomulagi.

BSRB varar við frumvarpinu

Stjórn BSRB hefur sent frá sér ályktun þar sem varað er við frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þar er ríkisstjórnin hvött til þess „að draga frumvarp sitt til baka og leita eftir breiðri samstöðu um þær breytingar sem nauðsynlegt kann  að vera að gera á stofnuninni.“  Ennfremur segir: „Ef frumvarpið verður að lögum mun það skerða kjör og réttindi starfsmanna og er einboðið  að upp munu koma mál sem nauðsynlegt verður að útkljá fyrir dómstólum.“
Þarf frekar vitnanna við? Væri ekki ráð að ríkisstjórnin dokaði ögn við? Þegar allt kemur til alls er Ríkisútvarpið eign okkar allra. Það er lágmarkskrafa að fram fari umræða um framtíð stofnunarinnar þar sem öll sjónarmið fá að komast að. Það gerðist ekki við undirbúning þessa lagafrumvarps. Það er enn hægt að ráða bót á því. En til þess þarf tíma.