Fara í efni

SÆSTRENG TIL AÐ FLYTJA INN RAFMAGN?!

Hörður Arnarson - Landsvirkjun
Hörður Arnarson - Landsvirkjun

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að enn þurfi að rannsaka fýsileika þess að leggja sæstreng. Þó sé þegar augljóst að hann geti gagnast okkur sem öryggistæki. Þannig gætum við flutt inn orku ef íslenskar orkulindir þverri. Sú hætta sé alltaf fyrir hendi að orkan þverri tímabundið þar sem byggt sé á vatnsorku. (sjá Morgunblaðið 21. janúar)

Það sem myndi gerast með nýjum sæstreng er að við tengdumst þarmeð markaðsvæddu orkukerfi Evrópu. Orkan innanlands myndi þar með hækka því vel að merkja, ekki má samkvæmt EES reglum mismuna kaupendum. Síðan myndum við flytja inn orku erlendis frá þegar við ekki gætum séð stóriðjunni fyrir orku. Svo mun verða því greinilegt er að forsvarsmenn Landsvirkjunar vilja spenna bogann til hins ýtrasta. Samtenging við orkukerfi Evrópu myndi án efa hafa þær afleiðingar í för með sér að þrýstingur á nýjar virkjanir myndi stóraukast og þar með myndi þyngjast varnarbaráttan fyrir íslenskar náttúruperlur.

Á sínum tíma var ég iðinn að fylgjast með reynslu af markaðsvæðingu orkunnar í Evrópu. Það var því miður að mestu leyti fyrir daga þessarar heimasíðu þar sem ég get fundið greinar í leitarkerfi. Ég þyrfti fyrir bragðið að hafa nokkuð fyrir því að finna þær.
En hér er slóð á prýðilega grein Sveins Valfells, verkfræðings, um þetta efn en til hennar vitnaði ég hér á síðunni nýlega: https://www.ogmundur.is/is/greinar/radherra-kynni-ser-spurningar-sveins-valfells-og-svor

Forstjóri Landsvirkjunar segir að enn þurfi nokkurn tíma - jafnvel nokkur ár til að kanna þetta mál til hlítar. Vandinn er hins vegar sá að þegar búið verður að fjárfesta í rannsóknum og vangaveltum um málið í langan tíma og margir hafa af slíku atvinnu, er hætt við að málið öðlist sjálfstætt líf og harðdræga fylgismenn þess að láta drauma sína rætast. Tónninn í málflutningi forstjóra Landsvirkjunar þykir mér þegar farinn að bera keim af þessu viðhorfi.