SAFNIÐ AÐ SKÓGUM OG SKAPARI ÞESS
Í júlí var förinni heitið að Skógum. Opinberlega var erindið að skoða byggðasafnið þar. En í sannleika sagt var það fyrst og fremst frumkvöðullinn, sem byggði safnið upp, sem vakti forvitni. Með öðrum orðum, markmið fararinnar var fyrst og fremst að skoða Þórð Tómasson!
Um þennan ungling á tíræðisaldri, sem ég leyfi mér að nefna svo, segir í fróðlegum og vel gerðum bæklingi um Skógasafnið, sem þar er til sölu:
„Skógasafn byggir á söfnunarstarfi eins manns, Þórðar Tómassonar. Hann hóf söfnun á unga aldri og safnið var formlega opnað árið 1949. Þrotlaus vinna hans hefur bjargað mörgum munum frá glötun, kraftur hans og áhugi hefur verið öðrum innblástur og hafa brottfluttir Íslendingar sent muni yfir hafið til varðveislu i safninu. Hann hefur flutt hús til Skóga og endurbyggt, er hagur smiður sjálfur og smíðaði langspil það, sem er til sýnis í safninu. Hann spilar ennfremur og syngur fyrir gestkomendur í safninu, íslensk þjóðlög og gamla sálma og glæðir þannig heimsóknina lífi sem seint gleymist. Þótt margir hafi ljáð Skógasafni lið, er þetta ótrúlega fjölbreytta og glæsilega safn samt fyrst og síðast minnisvarði um kraft eldhugans."
Skógasafnið er mjög áhugavert og fræðandi og er verulega skemmtilegt að fara þar um. En enn eftirminnilegri verður þó stundin með þeim systkinum Þórði Tómassyni og Guðrúnu Tómasdóttur, þar er hafsjór fróðleiks, nánast hvar sem borið var niður í umræðum um menn og málefni. Það er gott til þess að hugsa að Ísland skuli eiga fólk eins og þau.