SAMFAGNAR ÖLL SAMFYLKINGIN HEILBRIGÐISRÁÐHERRA?
Sjálfstæðisflokkurinn vill einkarekið heilbrigðiskerfi. Samfylkingin hefur haft innan sinna vébanda aðila sem eru sama sinnis og má þar nefna Ágúst Ólaf Ágústsson, varaformann flokksins. Hann hefur að því leyti komið heiðarlega fram. Innan Samfylkingarinnar hefur hins vegar verið andstaða gegn þessum áformum.
Nú hafa Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin myndað ríkisstjórn og féllst Samfylkingin á að afhenda Sjálfstæðisflokknum heilbrigðisráðuneytið ásamt fjármálaráðuneyti. Og nú er kátt í ranni. Nýr heilbrigðisráðherra fagnar ákaft í Morgunblaðinu í dag. Tilefnið er að tryggingafyrirtækið Sjóvá býðst til að stækka Grensásdeild Landspítalans. Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, segir í Morgunblaðinu í dag að þetta sé vegna þess að fyrirtækin í landinu hafi svo mikinn áhuga á heilbrigði landsmanna. "Síðan eru það fyrirtækin í landinu sem hafa svo sannarlega alla hagsmuni af því að heilbrigði þjóðarinnar sé sem best og ég fagna að þeir hafi áhuga á því að koma að þeim málum og mun reyna að beita mér fyrir því að samvinna allra þessara aðila verði sem best," segir heilbrigðisráðherra í Morgunblaðsviðtalinu.
Tryggingafyrirtækið Sjóvá vill sem sé hasla sér völl í einkarekinni heilbrigðisþjónustu. Ríkisstjórnin hefur heitið því að fjármagna slíkan rekstur. Víða erlendis þar sem farið hefur verið inn á þessa braut hafa einkafyrirtæki keppst um að komast á garðann enda iðulega um arðvænlegan bisniss að ræða. Eflaust vilja þau líka að þjóðin sé hraust. Forstjóri Sjóvá er einn af helstu talsmönnum einkavæðingar í landinu, glóðvolgur úr Viðskiptaráðinu. Hvers vegna verða peningar skyndilega til þegar slíkir aðilar banka upp á? Starfsfólk Grensásdeildar hefur óskað eftir bættri aðstöðu um árabil. Hvers vegna er ekki hlustað fyrr en Þór Sigfússon bankar upp á?
Nú vitum við allt um fögnuð Guðlaugs Þórs. Við vitum einnig um afstöðu varaformanns Samfylkingarinnar. En skyldu kjósendur Samfylkingarinnar almennt vera þessu sammála? Skyldi öll Samfylkingin fagna?