SAMFÉLAGIÐ HALDI VÖKU SINNI
Í gær hófst þing Kennarasambands Íslands þar sem lagðar eru línur til næstu ára hjá sambandinu. Athyglisvert var að hlýða á ávörp sem flutt voru við setningu þingsins og ber þar fyrst að telja ræðu Eiríks Jónssonar, formanns KÍ, sem flutti kraftmikla ræðu þar sem hann ræddi þjóðfélagsmál almennt og málefni kennara sérstaklega. Varaði Eiríkur mjög eindregið við einkavæðingarstefnunni og vék hann sérstaklega að heilbrigðiskerfinu í því efni. Við svipaðan tón kvað í ræðum erlendra gesta. Ég flutti þinginu ávarp og færði þingfulltrúum kveðjur stjórnar BSRB. Fjallaði ég nokkuð um þær þjóðfélagsbreytingar sem nú væru að eiga sér stað og hvatti verkalýðshreyfinguna og samfélagið allt að halda vöku sinni. Minntist ég föður míns, Jónasar B. Jónssonar, en hann var heiðursfélagi í Kennarasambandi Íslands og hefði orðið hundrað ára 8. apríl ef hann hefði lifað.
Hér er setningarræða Eiríks Jónssonar, formanns KÍ: http://ki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4393
Ávarp mitt fylgir hér á eftir:
Mér er það einkar kært að ávarpa þing Kennarasambandsins, nú sem endranær. Mér hefur alla tíð fundist ég tengdari kennarastéttinni en flestum öðrum stéttum. Ekki bara vegna þess að ég sem aðrir landsmenn hef notið leiðsagnar og fræðslu af hálfu kennara frá blautu barnsbeini innan veggja skólans, leikskólans, barnaskólans, gagnfræðaskólans, menntaskólans og háskólans, svo stuðst sé við heiti stofnana eins og þau voru í mínum uppvexti - heldur einnig vegna hins að allt í kringum mig eru og hafa verið kennarar. Þetta er mér sérstaklega hugleikið nú því svo vill til að í gær voru eitt hundrað ár liðin frá því að faðir minn, Jónas B. Jónsson, kom í heiminn. Í hans lífi endurspeglast hinar miklu þjóðfélagsbreytingar 20. aldarinnar. Hann hóf sinn starfsferil sem farandkennari norður í landi - í Húnavatnssýslum - fór þar með fræðsluna á milli sveitabæja, varð síðan kennari í Reykjavík og fræðslustjóri þar þegar fram liðu stundir. Hann tók framan af starfsævi sinni virkan þátt í kjarabaráttu kennara, var alla tíð baráttumaður breytinga og framfara og veit ég að hann kunni vel að meta þann heiður sem Kennarasamband Íslands sýndi honum með því að gera hann að heiðursfélaga í apríl 1988, fyrir nákvæmlega 20 árum. Skeikar aðeins einum degi frá þeim degi þegar Svanhildur Kaaber, þáverandi formaður Kennarasambands Íslands, heiðraði hinn aldna félaga sinn.
Ég staðnæmist við þessa persónulegu sögu vegna þess að hún snertir strengi í hjarta mínu. En svo er það líka hitt, að saga og reynsla fyrri kynslóða á að vera okkur sem oftast tilefni til að staldra við. Því jafnvel þótt við eigum ætíð að vera þess minnug að allt stofnanaform er barn síns tíma og á að taka stöðugum breytingum til að svara kalli hvers tíma þá er það ekki að ástæðulausu að þjóðin hefur gert að spakmæli og orðtaki ljóðlínurnar úr Aldamótum Einars Benediktssonar, "Að fortíð skal hyggja ef frumlegt skal byggja, án fræðslu þess liðna sést ei hvað er nýtt".
Já, hvað er nýtt og hvað er gamalt í dag? Ef við förum nógu langt aftur í tímann þá finnum við tímabil þar sem samfélagið var sundrað, auður og þjóðfélagsstaða réð því hvernig einstaklingi vegnaði á lífsins göngu. Sú ganga var fyrirsjáanleg nánast frá fæðingu til grafar. Þetta breyttist á tuttugustu öldinni - hinni merkustu í mannkynssögunni - mesta framfaraskeiði þeirra þjóða sem við helst berum okkur saman við. Þá sannaðist í verki, hverju samstaða og samtakamáttur getur fengið áorkað. Framfarir í vísindum og menntun hefðu aldrei orðið að því marki sem varð ef við hefðum ekki öll - þjóðfélagið allt - tekið höndum saman. Um miðbik 20. aldarinnar og fram undir aldarlok myndast þverpólitísk samstaða um grunninn að velferðarsamfélaginu. Menn greindi á um hve hratt ætti að fara í sakirnar við að reisa hann og styrkja - hvert skatthlutfallið ætti að vera - en um takmarkið, almannaþjónustu á forræði samfélagsins - um þetta deildu menn ekki.
Það var ekki fyrr en undir aldarlokin að þær deilur hófust. Þá fór sérhyggjan gamla aftur að láta á sér kræla og einsog við vitum hefur henni orðið talsvert ágengt. Á síðustu árum hafa handlangarar þessar stefnu gengið rösklega til verka. Með markaðs- og einkavæðingu undangenginna ára hafa stoðir samfélagsins verið veiktar, jafnframt því sem völdin hafa verið flutt til. Þau hafa verið flutt frá fólkinu til fjármagnsins - til handhafa auðsins.
Nú horfir menningarlífið, listamenn og jafnvel opinber listasöfn, góðgerðarsamtök hvers kyns, sjúkir og hrjáðir - nú horfa þessir aðilar allir til hinna nýju handhafa auðsins í von um að njóta velvildar þeirra - velvildar hinna nýju valdhafa.
En ef eitthvað brestur í þeirra heimi? Hvar er þá öryggið?
Staðreyndin er sú að samfélagið - þar á meðal almannaþjónustan - er á leið út á markaðstorgið og verður nánast öll komin þangað innan tíðar ef ekki verður spyrnt við fótum. Fyrir fáeinum dögum heyrðum við læknismenntaðan starfsmann Heilsuverndarstöðvarinnar ehf. lýsa fyrir útvarpshlustendum nýrri vörulínu hjá fyrirtæki sínu. Hún gengi undir heitinu Velferðarþjónustan, þar sem m.a. væri boðið upp á geðheilbrigðisþjónustu og önnur „pródúkt" einsog það hét - og fengju gullkorthafar Kaupþings banka sérstakan 20% afslátt. Talsmaðurinn var hinn hróðugasti og sagði að „vöruframboð" Heilsuverndarstöðvarinnar ehf væri stöðugt að aukast!
Þar á bæ heita sjúklingar ekki lengur sjúklingar heldur viðskiptavinir. Ég spyr, hvenær rennur sá tími upp að skólaneminn, heiti ekki lengur nemi heldur viðskiptavinur eða kúnni?
Eða hvað? Viljum við þetta? Er þetta eftirsóknarvert? Er þetta hagkvæmt? Er þetta skynsamlegt - hvað með réttætið ? Langar okkur aftur inn í 19. öldina? Getur verið að við ætlum ekki að halda í ávinninga 20. aldarinnar? Getur verið að verkefnið nú,í dögun 21. aldarinnar, é að virkja að nýju græðgi og sérhyggju sem frumaflið í gjörðum okkar.
Móðir Theresa var einhvern tímann að því spurð þar sem hún var innan um holdsveika betlara í Kalkútta á Indlandi, hvað hún fengi fyrir sinn snúð. Sá sem spurði var bandarískur auðjöfur og hann bætti því við að ekki væri hann fáanlegur að gera það sem hún gerði, jafnvel þótt í boði væru milljón dollarar. Ég myndi ekki gera þetta fyrir slíkan pening, sagði milljarðamæringurinn. Ekki ég heldur, neither would I, svaraði sú gamla að bragði.
Við finnum öll hvernig svar þessarar gömlu nunnu virkjar eitthvað innra með okkur og hvílíkt afl þessi kennd er - samkenndin - og hvers við erum megnug þegar við tökum höndum saman - þegar við vinnum sem samfélag.
Okkar verkefni - verkefnið fram undan - er ekki bara að standa vörð um samfélag sem byggir á samstöðu og samkennd. Á sumum sviðum þarf beinlínis að endurreisa samfélagið. Þegar við nú hugsanlega stöndum frammi fyrir alvarlegum hremmingum í efnahagslegu tilliti þá skynjum við að nýju mikilvægi þess að leggjast sameiginlega á árarnar. En til þess að það sé hægt þá þurfum við að vera á sama bátnum. Og okkur þarf að finnast við vera saman á báti. Það er nákvæmlega þetta sem er mikilvægasta framlag verkalýðshreyfingar til samfélagsins fyrr og nú, að tryggja efnalegt og félagslegt réttlæti þannig að okkur finnist öllum við heyra saman. Þetta er verkefnið í bráð og lengd.
Ég flyt þinginu kveðjur stjórnar BSRB. Ég vil þakka forystu Kennarasambands Íslands, Eiríki Jónssyni og öðru forystufólki sambandsins fyrir frábært samstarf þar sem aldrei hefur borið skugga á. Þingi Kennarasambands Íslands flyt ég árnaðaróskir.