Fara í efni

SAMFYLKINGIN: AGNARSMÁ


Samfylkingin er lífleg, kann að virðast kná. Af ráðherrum geislar vissulega gleði og ánægja yfir því hlutskipti að vera komin á valdastóla. Formaður flokksins er á faraldsfæti, ferðast um álfur, eflaust gaman með öllum nýju ráðgjöfunum. Kristján, samgönguráðherra, ljómar sem sól í heiði, talar máli einkaframkvæmdar, jafnvel ákveðnar en Sturla forveri og Ásta R. er komin í samkrull með Pétri Blöndal að einkavæða heilbrigðiskerfið. Eða hvað? Meira að segja Jóhanna bað bankana í sumar um að hækka vexti og sýna með því ábyrgð! Allt þetta er vissulega umhugsunarefni og jafnvel undrunarefni.

Mest undrast ég þó hvað þessi flokkur er undarlega fljótur að söðla um í skoðunum og afstöðu. Virðist alls ekki hafa átt erfitt með að fylgja Íhaldinu inn á braut einkavæðingarinnar. Jafnvel í heilbrigðiskerfinu! Ef til vill var þetta alltaf huganum kærast. Spyr sá sem ekki veit.

En það er þó annað sem stingur meira í augu en hin pólitísku umskipti og það er undirgefnin við Íhaldið á þingi. Mér sýnist hún vera takmarkalaus. Kannski veldur afstöðuleysi eða prinsippleysi eða kannski er það bara almennur vesaldómur?

Frá mínum bæjardyrum blasir þetta svona við: Við erum nýkomin úr langvinnri stjórnarandstöðu saman, VG og Samfylking; stóðum saman í pontu á þingi dag eftir dag, nótt eftir nótt og mótmæltum hroðvirknislegum vinnubrögðum stjórnarmeirihluta, ofbeldinu sem hann beitti á löngum næturfundum. Nú bregður svo við að þegar slíkum vinnubrögðum er mótmælt þá er öllu slíku vísað á bug. En nú með samþykki Samfylkingar. Óskilyrtu. Samfylkingin er alltaf til með hverjum þeim sem dansar best í það skiptið. Og nú er það Íhaldið.

Í kvöld spurðist ég fyrir um það hjá einum forsvarsmanni Samfylkingarinnar hve lengi stæði til að ræða fjárlög inn í nóttina. Svo lengi sem þurfa þykir, þess vegna til hádegis á morgun!Hvers vegna?“,  var enn spurt, „hvers vegna er ekki leitað eftir samkomulagi, hvers vegna á að efna til slíkrar næturumræðu með einhliða valdboði? Sjálfstæðisflokkurinn segir að svona skuli það vera, var svarað að bragði.
Þannig flögrar hin lífsglaða Samfylking frá einni sannfæringu til annarrar. Allt eftir því hvað passar hverju sinni. Þetta má kalla að vera léttur á hinum pólitíska fæti, að eiga auðvelt með að söðla um. Sennilega er enginn vandi að gera það, ef menn eru smáir í sér, fisléttir. Þá er þetta eflaust ekkert mál. Það veit Samfylkingin. Þess vegna er hún svona lífsglöð. Og þess vegna vitum við líka, alla vega nú orðið, að Samfylkingin er þegar upp er staðið alls  ekkert kná, heldur bara smá, agnarsmá.