Samgönguráðherra upplýsi um forstjórakjörin
Birtist í Mbl
Á fyrsta degi þinghaldsins var dreift skýrslu forsætisráðherra um aðgang að upplýsingum um hlutafélög í eigu ríkisins. Tilefnið var fyrirspurn á þingi frá í vor um launakjör æðstu stjórnenda hjá Pósti og síma hf. Samgönguráðherra sem hefur á hendi eina hlutabréfið í Pósti og síma hf. hafði neitað að svara fyrirspurninni og urðu af því tilefni nokkrar deilur.
Ekki á óvart
Nú þarf í sjálfu sér engum að koma það sérstaklega á óvart að torveldara skuli reynast að nálgast upplýsingar um hlutafélög en opinberar stofnanir. Ein meginröksemd þeirra sem hafa talað fyrir því að almannaþjónusta lúti almannavaldi og sé ekki gerð að hlutafélagi og einkavædd er einmitt sú að einkafyrirtæki eru ólýðræðislegri og lokaðri að þessu leyti en opinberar stofnanir. Í þessu sambandi hafa menn þó bent á að í siðferðilegu tilliti sé óeðlilegt að fyrirtæki sem byggð hafa verið upp af almannafé séu fengin einstaklingum í hendur án þess að almenningur eigi rétt á að fylgjast með hvernig þessum fjármunum er ráðstafað.
Launa- og kjaraleynd í fyrirtækjum sem starfa á markaði er yfirleitt réttlætt á tvennan hátt; annars vegar að vernda þurfi einkahagi einstaklingsins og hins vegar að upplýsingar um kjör starfsmanna geti skaðað samkeppnisstöðu viðkomandi fyrirtækis.
Ýmis álitamál
Opinberar stofnanir eru undanskildar hvers kyns kjaraleynd því samkvæmt upplýsingalögum ber að upplýsa um öll föst kjör opinberra starfsmanna sé þess óskað. Upplýsingalög taka hins vegar ekki til starfsmanna hlutafélaga að þessu leyti heldur einkaréttarlög sem eru mun lokaðri eins og áður er getið.
Á það ber þó að leggja áherslu að lög sem snerta upplýsingaskylduna eru um margt óljós og ýmis álitamál uppi, ekki aðeins hvað varðar upplýsingaskyldu gagnvart almenningi heldur einnig gagnvart hluthöfum, eigendum fyrirtækja. Þannig segir í fyrrnefndri skýrslu sem unnin er af Stefáni Má Stefánssyni lagaprófessor við Háskóla Íslands fyrir forsætisráðuneytið, að sérstaða Pósts og síma sé nokkur varðandi upplýsingaskyldu almennt því „…samgönguráðherra getur krafist upplýsinganna á grundvelli þess að hann er æðsta stjórnvald í félaginu þar sem ríkið er eini hluthafinn og samgönguráðherra fer með eignaraðild ríkisins samkvæmt þeim lögum.“
Löglegt
Meginniðurstaða prófessorsins er eigi að síður sú að samgönguráðherra hafi ekki borið lagaleg skylda til að veita upplýsingar um kjör stjórnenda Pósts og síma hf. Prófessorinn rekur sig í gegnum þau lög sem snerta málið og að lokinni þeirri yfirferð er niðurstaða hans afdráttarlaus að þessu leyti. Mér virðist málið hins vegar geta horft öðru vísi við þegar spurt er um lagaheimild ráðherrans til að veita upplýsingar. Með öðrum orðum, eitt er lagaleg skylda, annað er heimild. Yfir þessu er hægt að velta vöngum bæði á lagalegum en einnig siðferðilegum forsendum. Og í framhaldinu er rétt að spyrja hvernig samgönguráðherra hafi nálgast viðfangsefnið: Með það fyrir augum að upplýsa sem minnst, loka á upplýsingar eða upplýsa þjóðina, eigendur fyrirtækisins að svo miklu leyti sem honum var stætt og lög leyfa.
En siðlaust
Sl. vor kom í ljós að ráðherrann vildi loka á upplýsingar, upplýsa sem minnst. Halldór Blöndal virtist ekkert hafa gert til að leita eftir þeim upplýsingum sem um var beðið, líkt og þjóðinni kæmu þær ekki við. Af þessu mátti draga þá ályktun að samgönguráðherra liti á það sem einkamál stjórnar og forstjóra að þeim séu fengnir bílar í hendur og eðlilegt að launakjör þeirra séu dulin.
Ef þögn ráðherra var hins vegar tilkomin vegna kröfu forstjóranna um launaleynd í skjóli einkaréttar þá hlýtur fólk að spyrja hvort það sé siðferðilega ásættanlegt að forstjórar neiti að upplýsa um kjör, þar með talin kaup á bifreiðum, sem keyptar eru fyrir almannafé. Telst þetta virkilega vera þeirra einkamál?
Finnist Halldóri Blöndal samgönguráðherra það geta skaðað hagsmuni Pósts og síma hf. að greina frá launakjörum æðstu stjórnenda fyrirtækisins vaknar sú spurning hver eða hvað hann telji að muni skaðast. Ímynd Pósts og síma hf.? Og ef svo er, þá í hvers augum; hver myndi fyrtast við? Það skyldi þó aldrei vera íslenska þjóðin, sem er allt í senn viðskiptavinur, notandi og eigandi Pósts og síma?
Það hlýtur að vera grundvallarkrafa að ráðherra geri grein fyrir því hvað þeir menn hafi að fela sem telja að það myndi valda trúnaðarbresti á milli þjóðar og fyrirtækis ef upplýst væri um jafn sjálfsagðan hlut og launakjörin. Á afstöðu samgönguráðherra reynir nú að nýju því undirritaður hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi um kjör toppanna hjá Pósti og síma hf. En alvarlegasta spurningin mun svo vakna þegar þjóðin vill heyra röksemdir fyrir væntanlegum skipulagsbreytingum hjá Pósti og síma hf. og þá hugsanlegum lokunum pósthúsa á landsbyggðinni. Munu þær ef til vill heyra undir viðskiptaleyndarmál sem gætu skaðað hagsmuni Pósts og síma hf. að upplýsa um?