Samorka, Sjónvarpið og staðreyndir um einkavæðingu
Í fréttum Ríkissjónvarpsins síðastliðinn sunnudag var vitnað í samantekt hjá Samorku þar sem því er haldið fram að rafmagnsverð í Svíþjóð og Noregi hafi ekki hækkað sem neinu nemur við markaðsvæðingu kerfisins. Hins vegar hefði skattlagning aukist verulega. Ekki kemur þetta heim og saman við yfirlýsingar norsku neytendasamtakanna sem segja hin „markaðsvæddu“ fyrirtæki hafa samráð sín í milli um að keyra verðlagið upp og nú „háfi“ þau inn milljarða í gróða á kostnað notenda. Varðandi orkuverð er t.a.m. fróðlegt að líta á umfjöllun í norska Dagblaðinu frá 22. september en þar var sýnt fram á að markaðsvæðing hafi sprengt upp raforkuverð í Noregi. Vitnað er í talsmann norska Neytendaráðsins, Per Anders Stalheim. Hann segir að norsk raforkufyrirtæki raki saman milljörðum. Hagnaðurinn í rafmagnsgeiranum sé ævintýralegur. Árið 2000 hafi hagnaður norskra rafveitna verið um 11,6 milljarðar n.kr. og rafveiturnar hafi greitt 3,7 milljarða n.kr. í arð til eigenda sinna. Þetta er orðinn markaður þar sem menn „háfa inn peninga“, segir Stalheim. Um þetta hefur meðal annars verið fjallað á upplýsingavef BSRB, http://www.bsrb.is/news.asp?ID=682&type=one&news_id=451&menuid=
Hentu 10% framleiðslunnar í Svíþjóð
Í minnisblaði Bertils Dahlstens frá sænska verkalýðsfélaginu SEKO (Samtökum launafólks í þjónustu og samgöngum) til EPSU (Evrópusamtaka launafólks í almannaþjónustu), er ástandinu á norræna rafmarkaðinum eftir markaðsvæðingu lýst í dökkum litum. Verð sl. fjóra mánuði hafi hækkað um 400% hjá Nord Pool sem er miðlunarfyrirtæki norrænna rafmagnsveitna. Að auki hafi sænska stjórnin hækkað skatta á rafmagn á sama tíma. Þýðingu á minnisblaðinu er að finna á heimasíðu BSRB.
Ástæður ófremdarástandsins hafi opinberlega verið taldar lítil úrkoma sl. ár. Í skýrslunni segir að þetta sé ekki satt, úrkoma hafi reyndar verið óvenjumikil bæði árin 2000 og 2001. Hins vegar hafi verið til staðar fyrir markaðsvæðingu, umframorka í sænska kerfinu til þess að mæta þurrum árum og álagspunktum. Það fyrsta sem raforkuframleiðslufyrirtækin gerðu var að skera þessa umframorku í burtu um sem nemur 3100 Mw eða 10% af framleiðslugetu sænska raforkukerfisins fyrir breytingar! Fyrirtækin sögðu að þau væru ekki að framleiða rafmagn að gamni sínu og ekkert þeirra taldi sig þurfa að bera kostnað af slíkri öryggisorkugetu. Þessa orku þurfa Svíar nú að flytja inn frá kolaraforkustöðvum í Póllandi og Þýskalandi.
Þá er lýst áhyggjum af fjárfestingum og viðhaldi í sænskum raforkuiðnaði. Um 40% af starfsmönnum hefur verið sagt upp og engin nýliðun á sér stað. Engar fjárfestingar hafa verið gerðar í iðnaðinum síðan fyrir markaðsvæðingu, en raforkuiðnaðurinn krefst langtímaáætlana varðandi uppbyggingu og viðhald ef tryggja eigi landsmönnum öruggan aðgang að nægu rafmagni.
Einkavæðingin á neyðarstyrk frá ríkinu
Markaðasvæðing á rafmagni hefur í för með sér aukið óöryggi fyrir notendur. Þeir eiga allt sitt undir geðþótta eigenda hlutafjárins. Um þetta fjallaði ég meðal annars í grein sem birtist í Morgunblaðinu 21/12 á sl. ári og hér á heimasíðunni tveimur dögum síðar eins og sjá má. Í þessari grein segir m.a.: „ Eðli málsins samkvæmt sækja hlutafjáreigendur fyrst og fremst í fjárfestingar sem gefa mestan arð. Það hefur í för með sér að þeir eru ótryggir bakhjarlar. Nýleg dæmi um þetta er franski eða öllu heldur fjölþjóðlegi risinn Vivendi Universal. Hlutabréf í því fyrrirtæki sem er eitt af stærstu vatnsveitufyrirtækjum heimsins hafa á einu ári fallið um 80%. Ástæðuna má ekki hvað síst rekja til mjög glannalegra fjárfestinga sem fyrirtækið réðst í undir stjórn forstjóra þess til sex ára, Jean-Marie Messier, en undir hans leiðsögn varð Vivendi að öðru stærsta fjölmiðlunarfyrirtæki heims! Franskar fjármálastofnanir þurftu að grípa til sérstakra aðgerða til að draga úr söluæði sem greip um sig í tengslum við skuldakreppu Vivendi.Eitt stærsta orkufyrirtæki Bretlands, British Energy, sem framleiðir og selur 25% rafmagns í Bretlandi hefur að undanförnu ítrekað sent út viðvörun um að án frekari aðstoðar frá opinberum aðilum stefni í gjaldþrot fyrirtækisins. Hlutabréf í fyrirtækinu kolféllu í september sl. Þetta gerðist þrátt fyrir neyðaraðstoð bresku ríkisstjórnarinnar að upphæð 410 milljónum breskra punda sem veitt var til endurskipulagningar á fjármálum fyrirtækisins. Markaðsvirði hlutafjárins er komið niður í 173,8 milljónir punda, samanborið við rúmar 2000 milljónir punda fyrir ári síðan. Þannig hefur verðgildi hlutabréfa fallið um 91% á einu ári og aldrei verið lægra í sögu fyrirtækisins. Fulltrúi stofnunar sem á hlutabréf í British Energy lét hafa eftir sér að ríkisstjórnin hafi með fjárstyrk sínum bjargað fyrirtækinu tímabundið frá gjaldþroti. Eftir sé hins vegar að finna svar við þeirri grundvallarspurningu hvað verða megi fyrirtækinu til bjargar til framtíðar litið en það tapi nú á framleiðslu rafmagns. Með öðrum orðum, þegar mest þarf á að halda hlaupa hlutafjáreigendur á brott.“
Það væri verðugt verkefni fyrir Ríkissjónvarpið og aðra fjölmiðla að fjalla nánar um áhrif markaðsvæðingar á grunnþjónustu á borð við rafmagn. En greinilegt er að ekki er treystandi á Samorkumenn eina um heimildir.