SAMRÁÐ Í ANDA BRÉSNEFS
03.04.2008
Í tíu-fréttum Sjónvarps í kvöld sátu Rúmeníu-fararnir okkar, Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem nú sækja fund NATÓ í Búkarest, fyrir svörum fréttamanna, samferðamanna sinna úr einkaþotunni góðu. Það dugir ekki annað en fá góða „dekkun" frá Búkarest. (Mér er reyndar sagt að fréttamaður Sjónvarps hafi komið frá London og fyrir vikið misst af því að kynnast ferðamáta hefðarfólksins úr Stjórnarráði Íslands).
Hvað um það, fréttamannafundurinn, sem virtist haldinn á göngunum þar sem NATÓ ráðstefnan fer fram, var það sem kalla mætti í brésnefskum stíl, bæði að formi og innihaldi: Yfirlýsing og búið basta. Utanríkisráðherranum þótti fráleit sú gagnrýni fulltrúa VG í utanríkismálanefnd Alþingis, að ekki skuli hafa verið haft samráð við nefndina um stefnu Íslands á fyrirhuguðum NATÓ fundi. Um þetta varð utanríkisráðherrann fyrir svörum. ISG vissi ekki betur en sent hefði verið „minnisblað" úr utanríkisráðuneytinu inn á fund utanríkismálanefndar Alþingis þar sem fram hefði komið hvað yrði á dagskrá í Búkarest og hverjar yrðu helstu línurnar.
Samkvæmt mínum málskilningi flokkast þetta ekki undir samráð, fremur tilkynningu. Þetta hefði eflaust þótt eðlilegt „samráð" á valdatíma Brésnefs í gamla Sovét. En getur verið að ríkisstjórn Íslands á fyrsta áratug 21. aldar kalli þetta samráð? Er ríkisstjórnin að gera grín? Og þá að hverjum? Að stjórnarandstöðunni? Eða kannski sjálfri sér? Spyr sá sem ekki veit. En hvað skyldi kjósendum Samfylkingarinnar finnast um „samræðustjórnmálaflokkinn" sem þeim var talin trú um að þeir væru að kjósa?