Fara í efni

SAMSTÖÐU UM MÁLSTAÐ!

DV
DV

Birtist  í DV 11.01.10.
Gerbeytt staða er komin upp í Icesave deilunni. Alþingi kláraði málið fyrir sitt leyti. Síðan tók þjóðin við. Lýðræðisbylgja reis með þjóðinni og fjórðungur kjósenda krafðist þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Forsetinn
varð við þeirri kröfu sem var fullkomlega rökrétt af háns hálfu.
Þetta varð þess valdandi að málið komst að nýju í brennidepil ekki bara í Bretlandi og Hollandi heldur einnig í öðrðum ríkjum Evrópusambandsins og reyndar langt út fyrir það.

Ofbeldi gegn Íslandi

En nú eru áherslur aðrar. Umræðan er núna almennari og okkur jákvæðari. Ástæðan er sú að Evrópuþjóðir þekkja tungumál lýðræðisins og vita hvað það þýðir þegar lýðræðisbylgja rís. Menn spyrja hvað búi að baki henni. Hvers vegna þessi óánægja? Leiðarahöfundar stórblaðanna á meginlandinu spyrja hvort geti verið að illa hafi verið farið með Íslendinga, þingmenn Evrópuþingsins stíga fram nú síðast Alain Lipietz, sem sjálfur tók þótt í smíði reglugerðarinnar um tryggingasjóði fjármálastofnana og segir að verið sé að reisa kröfur á hendur Íslendingum sem engan veginn standist lög. Hann sagði meira, samningaviðræðurnar við Breta og Hollendinga hefðu verið í farvegi þvingana og ofbeldis þar sem Íslendingum hefði verið meinað að nýta sér úrræði réttarríkis til að fá úr því skorið hvort þeim í reynd beri lagaleg skylda til að láta íslenska skattgreiðendur axla byrðarnar af Icesave á þann hátt sem Bretar og Hollendingar krefjist. Þá hafa menn staðnæmst við lánskjörin, hærri vexti en Bretar og Hollendingar taki sjálfir lán á, þannig að þeir séu í reynd að græða á þessum viðskiptum.
Þarf ekki að ræða það tjón sem Bretar ollu Íslendingum með hryðjuverkalögunum sem sett voru á Ísland meðan verið var að fella Landsbankann í Bretalandi? Svona er spurt. Síðan hafa komið aðrir vinklar inn í umræðuna.
Spurt hefur verið um stærðargráðu vandans. Þá kemur í ljós að sú þjóð sem látið hefur mest af hendi rakna af skattfé almennings til hjálpar bönkum í vandræðum eru Bretar. Framlagið þeirra er um hundrað milljarðar sterlinmgspunda. Þýtt yfir á íslenskar aðstæður samkvæmt höfðatölureglu mun þetta vera svipuð upphæð og Íslendingar eru að greiða í vexti af Icesave lánunum á aðeins tveimur árum!

Náttúruperlur á ábyrgð allra

Þegar fólk heyrir um þetta erfiða hlutskipti þrjúhundruð þúsund manna þjóðar rekur menn í rogastans. Þá vilja menn vita hvort við getum borgað "Það er ekki bara spurning um að geta borgað", svörum við, "þetta er spurning um
það hvernig þjóðfélagið og landið lítur út efrir hremmingarnar, hver útreiðin verður fyrir velferðarkerfið." Og við bendum á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn minni okkkur stöðugt á auðlindir Íslands til sjávar og til lands, jökulárnar, fossana og hverasvæðin. Þið hafið gnægð óbeislaðrar orku er okkur sagt.
Þetta skilja náttúruunnendur í Evrópu. "Ég gleymi aldrei hverasvæðunum og kraftinum í Dettifossi", skrifaði mér Hollendingur um daginn eftir að heyra viðtal við mig í hollenskri útvarpsstöð.  Þegar Bretum og íbúum meginlandsins er bent á að málið snerti okkur öll, alla þá sem annt er um dýrmætar náttúruperlur, sem við sameiginlega viljum vera gæslumenn fyrir, þá breytist tónninn. Enn einn vinkillinn eru áhyggjur manna yfir gölluðu
regluverki fjármálakerfisins og hvort verið sé að beita litla þjóð ofríki án dóms og laga vegna galla í þessu regluverki.

Nýtum ný tækifæri

Þessa stöðu verðum við að nýta okkur, málstað Íslands til framdráttar. Það gerum við því aðeins að okkur takist að slíðra sverðin hér innan lands og snúa bökum saman. Munum að samastaða á fyrst og síðast að vera um málstað,
ekki stofnanir, stjórnmálaflokka. Bara um málstað. Nú ríður á að allir sýni ábyrgð og samstarfsvilja. Ríkisstjórnin og Alþingi fór með málið eins langt og komist var þar á bæ við erfiðar aðstæður. Nú hefur lýðræðisaldan feykt málinu upp í nýja stöðu. Efna þarf til þverpólitísks samstarfs á jafnræðisgrundvelli um framhaldið. Þetta er verkefni dagsins. Á öðrum degi finnum við farvegina áfram. Það getum við. Öll saman.