Fara í efni

SAMSTÖÐUKVEÐJUR Á 1. MAÍ!!!


Á baráttudegi verkalýðsins flyt ég öllu launafólki og landsmönnum öllum eldheitar baráttukveðjur og minni á nauðsyn þess að við þjöppum okkur öll saman um kröfuna um réttlátt samfélag. Sjaldan hefur verið eins mikil þörf á samheldni og samstöðu þjóðarinnar og í þrengingunum nú. BSRB tekur þátt í baráttufundum verkalýðsins um land allt og hvet ég félaga til að fjölmenna í göngur og á fundi.
Ræðumaður BSRB í Reykjavík að þessu sinni er Þórveig Þormóðsdóttir, formaður Félags starfsmanna stjórnarráðsins. Að loknum fundinum efnir BSRB venju samkvæmt til kaffisamsætis í höfuðstöðvum samtakanna að Grettisgötu 89. Verður þar án efa fjölmennt sem endranær. Ég hvet félaga í BSRB og velunnara samtakanna til að mæta og þiggja veitingar!
Þá vil ég vekja athygli á því að VG Í Reykjavík býður alþýðu borgarinnar einnig til kaffisamsætis og baráttufundar að Vesturgötu 7.
Dagskráin hefst að loknum útifundi verkalýðsfélaganna, en þá munu þau Björg Eva Erlendsdóttir og Ari Mattíason flytja ræður,  auk þess sem trúbadorinn Svavar Knútur treður upp. Systkinin frá Tjörn í Svarfaðardal, Ösp og Örn Eldjárn, flytja eldheit baráttulög og hinn eini og sanni Reynir Jónasson mun síðan spila undir fjöldasöng á nikkuna. Fundinum stjórnar hin einarða forystukona UVG, Steinunn Rögnvaldsdóttir.