SAMT HRUNDU SOVÉTRÍKIN
03.06.2007
Ég hef löngum talað fyrir jafnvægi í þjóðfélaginu; leitt að því rök hve mikilvægt það sé í síbreytilegu samkeppnisþjóðfélagi að öflugt mótvægi sé gagnvart eigenda- og forstjóravaldi. Annars verði réttindi almennings fótum troðin. Nú á tímum þegar þjóðarauðnum er meira misskipt en í langan tíma er þörfin fyrir þetta augljósari en oft áður. Sama þarf að gilda í stjórnmálum. Þar þarf að vera ákveðið jafnvægi á milli gagnstæðra póla.
Á síðasta kjörtímabili voru hinir gagnstæðu pólar í pólitíkinni ríkisstjórnin annars vegar og Vinstrihreyfingin grænt framboð hins vegar. Í stjórnarandstöðu voru líka Samfylking sem átti góða spretti á stundum og Frjálslyndir sem einkum hafa haldið uppi öflugum málflutningi í sjávarútvegsmálum. Það var hins vegar VG sem hélt fánunum á lofti í öllum helstu átakamálum sem uppi voru, hvort sem um var að ræða gagnrýni á fylgispekt við utanríkisstefnu Bandaríkjanna og Nató, einkavinavæðingu og misréttisstefnu stjórnvalda eða Kárahnjúkavirkjun og allt sem henni fylgdi. Alltaf var það Vinstrihreyfingin grænt framboð sem stóð vaktina. Við vorum þó bara fimm. Hve margir skyldu hafa hugleitt að þingmenn Samfylkingarinnar voru tuttugu, þ.e. fjórum sinnum fleiri.
Nú eru þingmenn Samfylkingarinnar runnir saman við Sjálfstæðisflokkinn. Okkar hlutskipti á þessu kjörtímabili verður áfram að veita aðhald og benda á aðrar leiðir í stjórnarandstöðu. Við erum hins vegar orðin næstum helmingi fleiri. Við verðum níu talsins. Það þýðir einfaldlega enn kröftugri umræðu á Alþingi en áður.
Nú bregður hins vegar svo við að ýmsir málsmetandi aðilar kjósa að horfa framhjá þessum veruleika eða koma einfaldlega ekki auga á hann og tala eins og allt sé fallið í ljúfa löð eftir að Samfylking og Sjálfstæðsflokkur runnu saman í eitt. Til þess að allt falli í ljúfa löð þyrfti að skapast raunveruleg sátt í þjóðfélaginu um skipulag þess, samfélagsgerðina og þá einkum markalínur á milli samfélags og markaðar, atvinnustefnuna, utanríkisstefnuna, stefnu í umhverfismálum, kjaramálum og svo framvegis.
Því miður er fátt sem bendir til þess að sú sátt skapist með þeirri ríkisstjórn sem nú hefur verið mynduð. Samfylkingin hleypti Sjálfstæðisflokknum í fjármálaráðuneytið auk þess sem hann fékk heilbrigðisráðuneytið með allar sínar hótanir um einkavæðingu. Halda menn virkilega að sátt verði um einkarekstraráform Guðlaugs Þórs? Halda menn að sátt myndist um framhald stóriðjustefnunnar? Halda menn að sátt verði um undirgefni gagnvart hernaðarbandalaginu Nató og herskárri stefnu Bandaríkjanna? Því miður held ég að Egill Helgason, nýráðinn starfsmaður RÚV ohf, þurfi ekkert að óttast lognmollu en í Kastljósviðtali á föstudag sagðist hann halda að nú væri kominn mikill "samhljómur" í samfélaginu! (Í Morgunblaðsviðtali segist hann ánægður að vera kominn á RÚV og bætir við að þar sé ágætt að vera eftir að hlutafélagavæðingin losaði um tengslin við stjórnmálamennina. Er Egill virkilega svona mikið út á þekju eða eru tengslin við Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu kannski ekki tengsl við stjórnmálamenn í hans huga! Tengsl Ríkisútvarpsins hafa aldrei í sögu þess verið meiri en nú við stjórnarmeirihlutann!).
Góðvina síðunnar, Ólína, bendir á samsvarandi samhljómstal hjá forseta Íslands (sbr. HÉR) Ég tek undir með Ólínu. Ágreiningur er ekki úr sögunni í þjóðfélaginu þótt fjölgað sé í stjórnarmeirihlutanum á Alþingi. Þar breytist sáralítið fyrir utan það að helsti merkisberi stjórnarandstöðunnar á þingi, VG, styrkist. Það er líka alrangt að ímynda sér, eins og forseti Íslands gefur í skyn að fjölmiðlaflóran hafi orðið kröftugri eftir daga flokksmiðlanna. Þetta er ekki rétt að mínum dómi. Auk þess ætti það að vera okkur öllum áhyggjuefni hve einsleit pólitísk öfl eiga nú og ritstýra öllum helstu fjölmiðlum landsins!
Það má vel vera að ráðamenn á Íslandi hvort sem er í stjórnmálum, efnahagslífi eða fjölmiðlum telji sér trú um að nú geti þeir farið sínu fram í krafti auðs og meirihlutavalds – telji sér trú um að þeir geti sannfært þjóðina um að þeirra samhljómur sé allra. Í því felst einmitt brenglað veruleikaskyn hinna sjálfumglöðu valdastétta . Ef engin grundvallarbreyting verður við landsstjórnina eða í efnahagslífinu mun ágreiningur fara vaxandi. Á sínum tíma var allt vald á einni hendi í Sovétríkjunum. Pavda, sem þýðir sannleikur, og var helst málgagn valdhafa, talaði mikið um samhljóm í samfélaginu. Samt hrundu Sovétríkin.