SANNLEIKURINN Í NÝJA TÍMANUM
John Y. Jones heitir maður. Hann er norskur þrátt fyrir nafnið sem mun eiga rætur í enskum forfeðrum. Þetta er að ég hygg einn öflugasti baráttumaður fyrir mannréttindum á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað, hefur í áratugi staðið fyrir ótal fundum og uppákomum til að vekja athygli á brotalömum í mannréttindamálum, skrifað og talað með þeim hætti að á hann er hlustað.
Um allnokkurt skeið hefur kastljós Johns beinst að mannréttindum og málfrelsi og þá ekki síst að ofbeldinu á hendur Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Í síðasta tölublaði norska vikublaðsins Ny Tid, Nýi Tíminn, er grein eftir John Jones á forsíðu undir fyrirsögnini Når sannheten blir truende, Þegar sannleikurinn ógnar.
Ef sannleikurinn er talinn vera ógnandi í samtímanum þá má segja að John Y. Jones gefi tóninn um hvernig eigi að bregðast við þeim sem vilja sannleikann feigan, nefnilega að tala óhikað og óttalaust um það sem bannfært er og greiða þannig götu sannleikans.
Segja má að forsíða Ny Tid sé eins konar áskorun til lesenda um að framtíðin, nýir tímar, skuli einkennast af opinni og óttalausri umræðu um það sem satt er og rétt.
Þannig hefst grein John Jones á forsíðu Ny Tid:
“Samhengið er sýnilegt: Umfjöllun fjölmiðla um hörmungarnar í Úkraínu, stríð Ísraels gegn Gaza og ofsóknirnar á hendur Julian Assange. Við tölum um “leitina að sannleikanum” en stundum einnig um það sem gert er til að forða því að sannleikurinn og það sem þykir óþægilegt nái eyrum almennings. Þetta er sameiginlegt með blaðamönnunum hundrað sem skotnir hafa verið á Gaza á undanförnum mánuðum, nasistum táttóveruðum með svastikum í Maríupol, sem vestrænir fjölmiðlar töluðu aldrei um, og síðan Julian Assange, sem bíður örlaga sinna í bresku öryggisfangelsi, gefið að sök að hafa upplýst um stríðsglæpi, spillingu og lygar. Fórnarlamdið er sannleikurinn.
“Ég var sagður vera hættulegasti maður Bandaríkjanna” sagði Daniel Ellsberg í viðtali við Ole Torp í norska ríkisútvarpinu, NRK, í júní 2015. Með þúsundir leynilegra skjala undir höndum um sannleikann í Víetnamstríðinu, braut Ellsberg lygamúr Nixons, Kissingers og Pentagon. En áður en hann lést árið 2023, sagði þessi hugrakki upplýsingamiðlari að það væri Julian Assange sem væri hugrakkasti – og hættulegasti uppljóstrari – vorra tíma.
Baráttan gegn uppljóstrurum snýst um að hylja sannleikann. Hverju hefur Julian Assange áorkað síðan hann kom Wikileaks á laggirnar fyrir tuttugu árum? Höfuðglæpur Assange var sá að hann miðlaði ekki aðeins því sem rak á fjörur hans, heldur sagði hann einnig tugþúsundum uppljóstrara til um hvernig mætti upplýsa um það sem valdakerfið vildi fela. Eftir tilkomu Wikileaks er feluleikurinn orðinn erfiðari. Julian Assange sýndi okkur hvernig við gætum sjálf fundið sannleikann. Og fyrir það þarf hann að gjalda með refsingu.” …
Hér er slóð á grein John Jones í Ny Tid: https://www.nytid.no/nar-sannheten-blir-truende/
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.