Fara í efni

SELJUM EKKI ÍSLAND

Birtist í DV 28.12.18.
Þegar litið er til ársins sem er að líða og síðan þess sem í vændum er, þá staðnæmist ég einkum við tvennt sem í mínum huga telst uppörvandi og jákvætt.

Jóna Imsland er maður ársins!

Fyrst vil ég nefna til sögunnar konu að nafni Jóna Imsland en hún hófst handa þegar vel var áliðið árs um að safna undirskriftum undir hvatningunni, Seljum ekki Ísland. Nokkur þúsund manns hafa þegar skrifað undir áskorunina þrátt fyrir afar litla kynningu. Tildrögin eru kunn: Í sumar bárust fréttir af því að erlendir auðmenn væru að kaupa upp stór landsvæði víða um landið, mest á Norðausturlandi, í Fljótum, Biskupstungum en einnig víðar. Um þetta var rætt manna á meðal í sumar og var almennt búist við því að ráðist yrði í lagabreytingar, samkvæmt tillögum sem þegar liggja fyrir, um leið og þing kæmi saman sl. haust. Sú varð ekki raunin.

Áhugaleysi þingmanna var algert og ekki í nokkru samræmi við greinilegan þjóðarvilja. Þá hóf Jóna Imsland átak sitt og bíður framtak hennar þess að við fylkjum okkur saman um það á komandi ári. Vel væri til fundið að við sýndum vilja okkar í verki með því að kjósa Jónu Imsland mann ársins. Ef ekki, þá gerum við það á næsta ári þegar henni, með okkar stuðningi, hefur tekist að vekja stjórnmálamenn af þyrnirósarsvefni sínum. Gleymum því ekki hve kauphallarbröskurum heimsins myndi reynast auðvelt að kaupa Ísland eins og það leggur sig. Gróðinn á góðum degi í kauphöllinni myndi fara langt með það. Þar með yrði eignarhald á auðlindunum jafnframt að talsverðu leyti komið ofan í vasa auðkýfinga og út fyrir landsteinana í þokkabót.

Undið ofan af gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu

Hitt jákvæða atriðið sem ég staðnæmist við er ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra nú undir árslokin um að byrja að vinda ofan af gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu. Þessi ákvörðun er gríðarlega mikilvæg og þá jafnframt augljós ásetningur ráðherrans að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklings í kerfinu.

Upphæðin sem lífeyrisþegum og öryrkjum sparast þegar þeir hætta að vera krafðir um gjald á heilsgæslustöðvum nú um áramótin, er að sönnu ekki ýkja há, en hún hefur ekki aðeins hagræna heldur einnig táknræna þýðingu. Í byrjun tíunda áratugarins, þegar gjaldtakan hófst, var talað um þetta sem „fyrsta skref“. Þáverandi heilbrigðisráðherra hafði reyndar einnig á orði á þessum tíma að gjaldtaka innrætti sjúklingum kostnaðarvitund, nokkuð sem samtökum sjúklinga og verkalýðshreyfingu þótti ekki vera göfugt markmið, nefnilega að þröngva inn í vitund þeirra sem ættu við sjúkdóma að stríða hve mikil byrði þau væru á samfélaginu!

Nú er svo komið að fimmtungur kostnaðar heilbrigðiskerfisins kemur beint úr vasa sjúklinga en aðeins áttatíu af hundraði úr sameiginlegum skatthirslum. Kannanir hafa ítrekað sýnt að þetta hafi valdið því að fátækasti hluti samfélagsins veigri sér við að leita sér lækninga af fjárhagslegum ástæðum. Vonandi verður haldið áfram á þessari jákvæðu braut og er mikilvægt að veita heilbrigðisráðherra öflugan stuðning hvað þetta varðar.

Vonbrigði ársins

Ekki hefði ég trúað því að á fullveldisárinu yrði farið að rukka okkur fyrir að koma á Þingvöll og ekki hefði ég heldur trúað því að aðkoma VG að ríkisstjórn breytti engu um að seldur sé aðgangur að náttúruperlum landsins! Þar með er haldið áfram á braut fyrri ríkisstjórna um að kvótavæða náttúru landsins, festa í sessi prívatréttinn til að hagnast á því sem heyrir okkur öllum til. Á komandi ári verður fylgst með framvindunni í þessu efni. Því verður vart trúað að ríkisstjórnin lyppist niður gagnvart yfirgangi hagsmunaaðila nema að hún sé sama sinnis, að réttmætt sé að rukka fólk fyrir að horfa á fjall eða foss.

Fjölmiðlar gerist vandaðri og gagnrýnni

Önnur vonbrigði ársins var umfangsmesta hernaðaræfing NATO til þessa á Íslandi. Hvenær skyldi sá tími renna upp að við segjum okkur frá þessu siðlausa hernaðarbandalagi? Seinast sáum við til NATO þegar ráðist var á Líbíu með hörmulegum afleiðingum. Svo í vor var gerð árás á Sýrland, skammvinn þó, til að refsa þarlendum stjórnvöldum fyrir að beita efnavopnum gegn þegnum sínum. Viðeigandi stofnun (OPCW) í Haag myndi eflaust staðfesta þetta eftir að hafa rannsakað málið, var okkur sagt í fréttum. Rannsóknin fór vissulega fram. Í ljós kom að allur málatilbúnaður NATO var lygi frá upphafi til enda. Lítið fór fyrir þeirri niðurstöðu í fjölmiðlum.

Vonandi hressist Eyjólfur á komandi ári!

Sjá: http://eyjan.dv.is/eyjan/2018/12/28/seljum-ekki-island/