„SÉRFRÆÐINGUR" SPEGLAR SIG
23.11.2010
Baldur Þórhallsson er prófessor í stjórnmálafræði. Hann er líka varaþingmaður Samfylkingarinnar. Í þriðja lagi er Baldur andheitur stuðningsmaður þess að Ísland gangi í Evrópusambandið. Það var gott hjá RÚV að geta fyrstu tveggja hlutverka Baldurs þegar hann var kynntur í upphafi viðtals í Speglinum í gærkvöld. Fyrir hlustendur sem ekki þekkja til hefði náttúrlega verið forvitnilegast að heyra um þriðja hlutverkið. Þannig hefðu þeir fengið botn í málflutning hans.
Afstaða mín til ESB þykir Baldri svo galin að líkja megi til vinnubragða sem leiddu til hruns efnahagskerfis Íslands. Hvorki meira né minna! Meintur glæpur minn er að fara þess á leit að í stað þess að ganga inn í samningsferli Evrópusambandsins og „aðlagast 100%" eins og stækkunarskrifstofa sambandsins orðar það, þá skuli leitast við að fá botn í viðræður um helstu álitamál og síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu um afstöðu þjóðarinnar til hugsanlegrar ESB aðildar Íslands.
Þetta þyrfti ekki að taka langan tíma - að því tilskildu að vilji væri fyrir hendi.
Samningsferli Íslands er nú lagað að umsóknum Austur-Evrópuríkja sem ekki hafa verið innan EES með tilheyrandi samræmingu í lagaumhverfi. Sem EES ríki eigum við hins vegar miklu meira skylt með Norðmönnum og þeirri aðferðafræði sem beitt var í viðræðum þeirra við ESB árið 1993 og þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfarið þar sem þeir höfnuðu aðild.
Fróðlegt hefði verið að heyra óvilhalla fræðimenn fjalla um þetta - og svo hitt hvort það geti verið að innan ESB rúmist ekkert sem kalla megi sveigjanleika og skynsemi hins hagsýna manns sem frekar vill verja krónum í velferð en rándýra rýnifundi í Brussel. Þá hefði Spegillinn hins vegar þurft að kalla til annan viðmælanda en prófessor Baldur, varaþingmann Samfylkingarinnar - og áhugamann um að trufla í engu 100% aðlögun Íslands að ESB.