Fara í efni

SÉRKENNILEGT SJÓNVARPSVIÐTAL

Hensel matvælaöryggi
Hensel matvælaöryggi

Síðastliðinn föstudag birtist sérkennilegt viðtal við mann sem kynntur var okkur sem „sérfræðingur þýsku áhættumatsstofnunarinnar" sem ætti í samstarfi við íslenska eftirlitsaðila í matvælaiðnaði.

Þýski matvælaöryggisfræðingurinn, Andreas Hensel, sagði að ótti íslenskra stjórnvalda væri í ætt við það sem áður hefði mátt heyra frá „nýjum aðildarríkjum ESB."  Þau héldu því „ætíð" fram að þau byggju við meira matvælaöryggi en önnur ríki.

Þjóðverjinn gaf þannig lítið fyrir rök Íslendinga gegn innflutningi á hráu kjöti. Málið snerist um hreinlæti í eldamennsku. Suðurevrópumenn gætu sýkst af neyslu íslensks kjöts ef þeir gættu ekki hreinlætis. Hann kvað óttann skiljanlegan en tilhæfulausan og vildi leysa málið með því að fara einhvern milliveg.

Þetta er of léttilega sloppið frá viðtali um grafalvarlegt mál. Gefið er í skyn að áhyggjur varðandi innflutning á hrámeti eða lifandi búfénaði byggi á bábylju en ekki reynslu og þekkingu. Staðreyndin er sú að Íslendingum hefur tekist að halda dýrastofnum sínum sjúkdómsfrírri en flestum öðrum þjóðum hefur tekist. Þannig er rangt að gefa til kynna að líkt sé á komið með öllum þjóðum í því efni. Því fer fjarri.

Hinn þýski ráðgjafi í matvælaöryggi er ekki einn á báti hvað sleggjudóma varðar. Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, hefur gert það að sérstakri hugsjón sinni að opnað verði fyrir óheftan innflutning á matvælum. En svo óheppilega vildi til að sama dag og hann hneykslaðist yfir því að hér á landi var fargað innfluttum osti úr hrámjólk, undir leiðarayfirskriftinni‚ Útlendu drápsostarnir, barst frétt frá Kanada um að þar í landi hefði komið upp hættuleg sýking í sams konar osti. Þeir sem fyrir barðinu á slíkri sýkingu verða - stundum með alvalregum afleiðingum, td. nýrnaskemmdum - tala varla af léttúð um að varlega verði farið í þessum efnum.

Í málflutingi þýska sérfræðingsins, eins og hann birtist í umræddri sjónvarpsfrétt, ægði öllu saman, sýkingu í hrárri matvöru annars vegar og hreinlæti hins vegar. Enn ein vídd í þessari umræðu er síðan innflutningur á lifandi dýrum en þar hefur Íslendingum tekist að halda stofnum sínum heilbrigðari en víðast hvar annars staðar. Alla þessa þætti er þörf á að ræða af yfirvegun og fordómalaust, hvort sem er í fréttum Sjónvarps, leiðurum Fréttablaðsins eða annars staðar.