SÉRRÉTTINDALÖGIN Á LEIÐINNI ÚT?
Það gladdi mig að heyra að Samfylkingin vill nú afnema hið alræmda lífeyrisfrumvarp þeirra Davíðs og Halldórs um sérréttindakjör alþingismönnum og þingmönnum til hagsbóta. Í vetur voru uppi tilburðir um að láta frumvarpið ganga undir lýtaaðgerð. Á það vildi ég ekki fallast og sagði einfaldlega BURT MEÐ LÖGIN.
Eftirfarandi er úr ræðu minni um þetta frumvarp þegar það kom fyrir Alþingi til afgreiðslu: …"Það er vissulega mikilvægt verkefni að taka lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra til endurskoðunar og á þeim tímapunkti stöndum við. Nú er spurningin í hvaða átt menn vilja halda, áfram eða aftur á bak. Í því frv. sem hér liggur fyrir felst yfirlýsing um það að í stað þess að halda inn í framtíðina er stefnan tekin í afturhaldsátt. Þetta frv. er tímaskekkja, minjar um kerfi misskiptingar og sérréttinda. Í ríkjum austan tjalds birtust forréttindi valdastéttanna m.a. í svokölluðum dollarabúðum. Þar versluðu menn á sérkjörum. Þetta frv. er dollarabúð íslenska lífeyriskerfisins.
Það er alveg rétt sem sagt hefur verið að í frv. er sitthvað til eðlilegrar samræmingar frá því sem nú er og í þeim skilningi til bóta. Því fer þó fjarri að það eigi við um frv. í heild sinni. Ég spyr: Nú, þegar við endurskoðum lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra, hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að halda með þennan hóp og reyndar alla strolluna sem nú er að finna í einni spyrðu, alþingismenn, ráðherra og hæstaréttardómara, inn í lífeyrissjóði sem þessum aðilum standa opnir? Hvers vegna getur þetta fólk ekki verið á lífeyriskjörum sambærilegum þeim sem aðrir búa við? Hvað er svona sérstakt við það að vera þingmaður? Hvað er svona sérstakt við það að vera ráðherra? Hvað er svona sérstakt við það að vera hæstaréttardómari? Það er ekkert sérstakt við það annað en að þessum hópum eru sköpuð sérréttindi sem engin rök eru fyrir."
Ræðan í heild sinni HÉR