Fara í efni

SÉRVALIÐ SIÐGÆÐI

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN
Birtist í Morgunblaðinu 17.09.15.
Margir fara mikinn í réttlætingu á refsiðagerðum gagnvart Rússum. Sitthvað er tínt til. Talað er um „grundvallarsiðgæði" sem aldrei skuli hvikað frá - og alls ekki undir nokkrum kringumstæðum megi láta veraldlega hagsmuni villa sér sýn, til dæmis þegar í húfi sé að koma afurðum á markað.
Gott og vel. Erum við tilbúin að gera það?

Alltaf verið horft til hagsmuna

Ekki verður sagt um Íslendinga að þetta hafi hingað til verið leiðarljósið. Í Sovétríkjunum sálugu stóðu yfir miklar ofsóknir um miðja síðustu öld í nafni rétttrúnaðar Stalínisma. Engu að síður var því tekið fagnandi af Íslands hálfu er Sovétmenn gerðu við okkur viðskiptasamning árið 1953. Hún mun hafa heitið Lavrova sem fór fyrir samninganefnd Sovétmanna. Sonur hennar er Sergei Lavrov,  núverandi utanríkisráðherra Rússlands. Hann er væntanlega  ennþá sonur mömmu sinnar og þekkir því til þessarar sögu. Samningurinn kvað á um að við keyptum olíu af þeim, þeir fisk af okkur. Þetta kom báðum vel. Ekki síður Íslandi.

„Vinaþjóðir" beita sér

Ísland var í þröngri stöðu á þessum tíma. Hinum hefðbundnu „vinaþjóðum" í nýstofnuðu NATÓ var lítið gefið um ný fiskverndarlög Íslendinga og Bretar höfðu ákveðið refsiaðgerðir gegn Íslandi, að heimila ekki  íslenska fisksölu, í hefndarskyni fyrir þá ákvörðun að reka togara þeirra út úr Faxaflóanum og Breiðafirðinum og færa landhelgina í fjórar mílur til verndar fiskstofnunum. Þetta var ekki bara hefnd heldur tilraun til að knýja Íslendinga til að hverfa frá fiskverndarstefnu sinni, með öðrum orðum, þvingunaraðgerðir harðdrægra hagsmunaaðila.

Hin veraldlega siðferðisvog

Til sanns vegar má færa að siðferðileg rök hafi verið Íslands megin í þessum átökum. En það var við þessar aðstæður sem við snerum okkur til ríkis sem þá hafði valtað yfir heilar þjóðir með ofbeldi og yfirgangi, þar á meðal lagt undir sig Eystrasaltsríkin. Þarna vógust á veraldlegir og siðferðilegir hagsmunir undir skugga mannréttindabrota. Sá skuggi virðist þó ekki hafa skyggt á ánægju Íslendinga yfir því að ná sínu fram gagnvart þeim sem vildu beita þá ofríki.

Hryðjuverkaríkið Ísland!

Það er reyndar ekkert nýtt að horfa þurfi til vogarskála siðferðis og hagsmuna. Bretland skilgreindi Ísland sem hryðjuverkaríki haustið 2008 og reyndi ásamt „vinaþjóðum" að knýja okkur til undirgefni, að borga Icesave með vöxtum! Það voru ekki Íslendingar sem þá vildu skilja sig frá „lýðræðisþjóðunum" heldur vildu „lýðræðisþjóðirnar"  skilja okkur að frá sér, eða svo lengi sem við létum ekki að þeirra vilja. Þess vegna vorum við sett á lista með  Norður-Kóreu og Al Queda.

Ekki leiðitamur og hrakinn úr embætti

Í Úkraínu erum við að tala um enn grimmari hluti. Því þar er verið að drepa fólk. Engu að síður skal enn spurt um „grundvallarsiðgæðið"  einsog það heitir í umræðunni um aðkomu Íslands að Úkraínudeilunni.  Þykir okkur hin siðferðislega réttlæting  í þeim hildarleik vera ESB og NATÓ-megin og þar með Íslands? Ekki er ég á því máli. Ég vil altént spyrja hvort það hafi  verið í lagi að steypa lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum í Úkraínu með fulltingi  og beinni íhlutun „okkar" eins og gert var í febrúar 2014? Þáverandi forseti Úkraínu þótti draga taum Rússa, enda sjálfur frá austurhéruðum Úkraínu,  og neitaði að halla sér að ESB og NATÓ. Þar með voru  hans örlög ráðin.

Hervald gegn þjóðaratkvæðagreiðslu

Flestir málsvarar íhlutunar  Bandaríkjanna, ESB og NATÓ í Úkraínu eru svolítið feimnir vegna aðkomu sinnar að valdaráninu og hamra því á hlutskipti Krímskagans sem Rússar innlimuðu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er Krímskaginn sem allt snýst um er okkur nú sagt. En skiptir þá engu máli hver vilji íbúa Krímskagans er? Ég get tekið undir að ekkert er gefandi  fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór undir járnhæl  rússnesks hers - og ljóst að heildarniðurstaðan er fölsuð - en þegar hún rímar hins vegar  við það sem á undan er gengið og má þar vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1991 og síðan 1994, þá má ætla að við höfum nokkra vísbendingu um lýðræðislegan vilja. Ítrekað hefur þannig komið fram að Krímbúar vilji ekki vera innmúraður  hluti af Úkraínu þótt þarmeð sé ekki sagt að þeir vilji heyra undir Rússland. Í maí árið 1992 samþykkti þingið á Krím að lýsa yfir sjálfstæði að því gefnu að það yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu sem var fyrirhuguð í ágúst þá um haustið. Úkraínuþing brást hart við og sagði að slík kosning væri ólögleg og forseti Úkraínu hótaði að beita hervaldi. Þess vegna varð ekkert úr sjálfstæði.

Ríkjahagsmunir mikilvægari en lýðræðið?

Flest okkar líta á lýðræði sem grundvallarréttindi.  En samt virðist virðing margra fyrir lýðræðinu ekki ná lengra en svo  að framar og ofar beri okkur skilyrðislaust  að virða núverandi landamæri ríkja jafnvel þótt íbúarnir vilji annað! Okkur er sagt að alþjóðalög kveði á um þetta. Það er kannski ekkert skrítið að nánast öll ríki heims eru hjartanlega sammála um þessa reglu hversu órökrétt sem landamærin eru, iðulega dregin af gömlum konungs- og nýlenduveldum  eða á grundvelli hernaðarofbeldis - að ekki sé minnst á gjafmildi einræðisherra fyrri tíðar! Krústjoff, þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna,  færði  Úkraínumönnum Krímskagann að gjöf árið 1954 og þar - og með síðari heitstrengingum einnig - hafi orðið til landamæri, varin af alþjóðarétti.

Samtrygging gegn lýðræði

 En vegna þessarar samtryggingar núverandi ríkja heims  fá Kúrdar, Katalóníumenn,  Baskar og fleiri lítinn stuðning um sjálfsstjórn á hinu alþjóðlega taflborði stjórnmálanna.
Ekki nóg með það, þegar Tyrkir hófu árásir á Kúrda innan landamæra Tyrklands og í grannríkjum einnig  fyrir nokkrum dögum, þá komu NATÓ ríkin saman til að lýsa stuðningi og blessa ofbeldið.  Á þessum fundi mun lítið hafa verið rætt um siðferði, hvað þá „grundvallarsiðgæði". Enginn virðist hafa haft áhyggjur af því að í Tyrklandi, sem víðar, hefur fólk til skamms tíma setið í fangelsi fyrir það eitt að vilja tala eigið tungumál. Enginn segir neitt enda fangelsin innan löglegra  landamæra!
Ísland átti rödd á þessum NATÓ fundi. Mér kom ekki á óvart að sú rödd skuli hafa verið þögul. Ég furða mig hins vegar á hve áköf þögnin er í íslenskum fjölmuðlum - mörgum -  þegar kemur að ofbeldi og yfirgangi úr okkar átt.

Alþjóðaréttur grundvallist á réttlæti!

Fullyrt er að Íslendingar eigi allt sitt undir því komið að virtur sé alþjóðaréttur.  Það eru orð að sönnu og á við um allar þjóðir heims. En alþjóðaréttur þróast og breytist, stundum með átökum. Landhelgisstríðin minna á hve hatrammlega var tekist á um útfærslu landhelgi Íslendinga.
 Auðvitað þarf að ræða hvað býr að baki öllum reglum og öllum lögum því til eru ranglát lög, líka alþjóðalög. Þannig eru landamæri þvert  á lýðræðislegan vilja ranglát. Líka hvað Krímskagann áhrærir. Verkefnið er að þróa alþjóðarétt á grundvelli réttlætis- og skynsemisraka. 

Hernaðaruppbygging í okkar nafni?

Rússar undir stjórn Pútíns, sem er gamall KGB foringi, hafa víða vaðið uppi. Og mannréttindi eru ekki virt sem skyldi í Rússlandi . En refsiaðgerðirnar gagnvart Rússum nú snúast ekkert um þetta heldur átök byggð á stórveldahagsmunum austurs og vesturs.
Á fjósbitanum fitna nú ýmsir. Harðlínuöfl styrkjast og hergagnaiðnaðurinn fagnar hátíð í bæ. Allt þetta er í góðu samræmi við áherslur ríkisstjórnar Íslands því í skýrslu utanríkisráðherrans  um utanríkismál sem rædd var á Alþingi í mars sl., kemur fram mikil ánægja yfir því að NATÓ ríkin hafi skuldbundið sig til að leggjast í frekari hernaðaruppbyggingu! Það styðji Ísland og fagni því sérstaklega að tekist hafi  „að stöðva niðurskurð til varnarmála ...og stefna að auknum fjárfestingum á þessu sviði næsta áratuginn."

Lítil bón

Ekki ber að skilja þessi skrif á þann veg að hagsmunagæsla  í eigin þágu fyrr á tíð réttlæti siðferðisbrot síðar. Mér finnst hins vegar mikilvægt að horfa til heildarmyndarinnar í ljósi fyrri tíðar- og samtímasögu og að við tökum alvöru umræðu um hvert við viljum stefna. Nánustu samstarfs- og viðskiptaríki okkar, fyrr og siðar, eru engir englar þegar að er gáð!
Ég styð að við fylgjum sjálfstæðri stefnu í utanríkismálum sem byggi á almennu siðferði og hvet jafnframt til að við vörumst hvers kyns tvískinnung. Sérvalin meint siðgæðisstefna Íslands gagnvart Úkraínu og Rússlandi, verður ekki skýrð með öðru en fylgispekt við ESB og NATÓ.
Síðan á ég þá bón að við byrjum á því að draga úr andheitum stuðningi Íslands við hernaðarhyggju og látum ógert að kvaka í eintóna kór á fundum NATÓ og ESB.