Siðfræðistofnun fái Hlemm
Birtist í Mbl. 18.01.2003
Margar helstu þjóðþrifastofnanir og samtök þjóðfélagsins sækja rekstrarfé sitt í hagnað af spilakössum. Það á við um Háskóla Íslands, Rauða krossinn, Landsbjörg og SÁÁ.
Allar þessar stofnanir og öll þessi samtök gegna mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu. Fari svo að algert bann verði sett við fjárhættuspilum og spilakassar gerðir útlægir úr landinu þarf að finna framangreindum aðilum nýja tekjustofna. Um þetta hefur oft verið rætt af hálfu okkar sem erum andvíg því að þessum aðilum sé heimilað að hafa fólk sem haldið er sjúklegri spilafíkn að féþúfu. Hagnaður af rekstri spilakassa nemur árlega milljörðum króna. Þessir peningar koma fyrst og fremst úr vösum fólks sem er ekki sjálfrátt gerða sinna. Finnst okkur það sæmandi? Ég beini þessari spurningu til okkar allra því við erum öll ábyrg og ekki síst við sem sitjum á löggjafarsamkundu þjóðarinnar.
Í kjölfar gagnrýni á spilakassana á síðustu árum hefur sitthvað áunnist þótt stjórnvöld sýni enn ótrúlegt andvaraleysi. Viðvörunarorð hafa verið fest á spilakassa og SÁÁ hefur komið á fót neyðarlínu. Sameinaðar standa svo ofangreindar stofnanir og samtök að upplýsingasíðunni Spilafíkn.is og kosta hana upp á eigin spýtur – og þurfa eflaust ekki að horfa í aurana vegna þess ágæta framtaks þegar hafður er í huga sá hagnaður sem kassareksturinn gefur í aðra hönd. Mikið lengra nær þetta ekki að öðru leyti en því að SÁÁ líknar fórnarlömbum sínum, veitir þeim ráðgjöf og meðferð.
Ég hef stundum furðað mig á hve harðdrægir hagsmunagæslumenn forsvarsmenn spilahappdrættanna eru. Fyrir fáeinum misserum buðu þeir prófessor nokkrum frá Las Vegas hingað til lands til að réttlæta spilamennskuna. Hann mun hafa verið prófessor í spilavítum við háskóla í Las Vegas og Reno í Arizona. Þessi prófessor hafði komist að þeirri niðurstöðu að spilamennskan væri ósköp saklaus. Að vísu væri talsvert um að menn ánetjuðust spilafíkninni. Að máli hans var gerður góður rómur innan spilabransans.
Ekki trúi ég þó öðru en forsvarsmönnum spilavítanna finnist hlutskipti sitt vafasamt. Verst þykir mér Gullnáman/Háspenna sem svo er nefnd. Háskóli Íslands rekur hana. Og náman sú ber réttnefni; hún veldur mikilli spennu og er spilasjúklingum sérlega erfið því hún lokkar þá að með stanslausum upphrópunum. Kassarnir eru samtengdir og vinningarnir nema milljónum. Ef þú hefur ekki hraðann á gæturðu misst af stóra vinningnum!
Ég legg til að Háskóli Íslands geri okkur grein fyrir því hvert hagnaðurinn rennur; hvaða deildir og hvaða starfsemi spilasjúkir fjármagna. Þannig mætti merkja spilavítin mismunandi deildum skólans. Þá vissu allir hver styrkþeginn væri. Læknadeildin gæti þannig fengið Gullnámuna á Skólavörðustíg. Og Siðfræðistofnun gæti fengið Hlemm.