Fara í efni

SIGURÐUR INGI SÓLAR SIG


Birtist í Morgunblaðinu 20.08.19.
Um miðbik sumars birtist grein í Morgunblaðinu eftir formann Framsóknarflokksins, Sigurð Inga Jóhannsson, undir sólríkri fyrirsögn: Af stjórnmálum og sólskini. 

Greinin er skrifuð rétt eftir að ríkisstjórnin hafði skýrt frá undanhaldi sínu í “hráakjötsmálinu”, að hún hygðist ekki verða við áskorunum um að taka þetta umdeilda mál upp á nýjum forsendum gagnvart EES og setja skorður við innflutningi á hráu kjöti. Þessu var, sem frægt varð að endemum, lýst yfir á hlaðinu á Keldum, Tilraunastöð Háskólans í meinafræði, þaðan sem helst hafa borist varnaðarorð um innflutning á búfénaði og hráu kjöti um áratuga skeið og hefur þar óspart verið vísað til reynslu sögunnar. Það er önnur saga en kannski þó ekki alveg!

Undanhald kynnt sem stórsókn

Eftir fréttamannafundinn á Keldum fengum við að kynnast samræmdu göngulagi ráðherra ríkisstjórnarinnar því nú tóku að birtast samhljóma greinar frá þeim um að Ísland yrði gert að öruggasta landi í heimi hvað varðar fjölónæmar bakteríur og lágmarkslyfjagjöf, með öðrum orðum Ísland yrði gert að því sem það þegar er en með því að draga úr vörnunum!
Í sólarhugvekju formanns Framsóknarflokksins var þetta orðað á eftirfarandi hátt og minnt á í framhjáhlaupi að þessi einstæða framfarasókn væri Framsóknarflokknum sérstaklega að þakka.

“Og hvað gerðum við í Framsókn?”

Gefum nú Sigurði Inga orðið: “Það hefur auðvitað verið tekist á á Alþingi eins og heilbrigt verður að teljast. Eitt af þeim málum sem mjög hafa brunnið á okkur í Framsókn er hið svokallaða hráa kjöts-mál þar sem íslenska ríkið hafði verið dæmt til að afnema frystiskyldu á innfluttu kjöti. Og hvað gerðum við í Framsókn í þeirri stöðu? Við hófum sókn og börðumst fyrir því að Ísland yrði fyrsta landið í heiminum til að banna dreifingu á matvælum sem innihalda tilgreindar sýklalyfjaónæmar bakteríur. Þessi sókn okkar snýst um sérstöðu íslensks landbúnaðar sem skapar einstaka stöðu okkar hvað varðar lýðheilsu en sýklalyfjaónæmi er ásamt loftslagsbreytingum helsta ógn við líf og heilsu manna og dýra í heiminum.

Í þessu máli sýndum við svo ekki verður um villst að við erum framsækinn og framsýnn flokkur. Fyrir örfáum misserum, jafnvel mánuðum, hefði ekki verið jarðvegur fyrir slíkar ákvarðanir en með því að beita kröftum okkar til að gefa vísindamönnum hljómgrunn, til dæmis með fjölmennum fundi í vetur, hefur almenningur vaknað til vitundar um gæði íslensks landbúnaðar og einstaka stöðu Íslands í heiminum.”

Ekki jarðvegur?

Við þessa framsetningu er margt að athuga. Í fyrsta lagi má spyrja hvort formaður Framsóknarflokksins telji virkilega að ekki hafi verið jarðvegur fyrir því á Íslandi að sporna gegn því, með öllu því eftirliti sem koma mætti við, að hér á landi væri dreift matvælum með “tilgreindar sýklalyfjaónæmar bakteríur.” Spurningin hefur alltaf snúist um það hvernig þetta skuli gert, ekki hvort. Eftir að innflytjendur fengu því framgengt eftir málssókn á hendur íslenska ríkinu að skorður við innflutningi skyldu teljast í bága við EES samninginn og því ólöglegar, voru margir á þeirri skoðun að taka ætti málið upp á nýjum forsendum gagnvart EES. Í þeim samningi er nefnilega að finna ákvæði þess efnis að heilbrigðissjónarmið standi ofar viðskiptahagsmunum og á þeim grunni mætti krefjast endurupptöku málsins. Nýjar aðstæður væru komnar upp eftir að ljóst varð hver heilbrigðisvá fjölónæmar bakteríur í matvöru væru að verða víða um lönd. Fyrir þessu sjónarmiði hefur mjög eindregið talað, Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins fyrr á tíð.

Kostuleg kynning á fundarniðurstöðum!

Og kemur þar að hinni vægast sagt undarlegu kynningu formanns Framsóknarflokksins á “fjölmennum fundi” sem flokkurinn efndi til og gefið hefði “vísindamönnum hljómgrunn” í þessari umræðu.
Ég get borið vitni um að fundurinn sem hér um ræðir, og var haldinn á Hótel Sögu hinn 21. febrúar síðastliðinn, var fjölmennur og hann gaf vísindamönnum vissulega góðan vettvang til að kynna rannsóknir sínar og niðurstöður.
En hverjar voru þær? Um þennan þátt málsins ræddu einkum þeir Lance Price, prófessor við George Washington háskóla í Bandaríkjunum og Karl G. Kristinsson, prófessor við Háskóla Íslands og yfirlæknir við sýklafræðideild Landspítalans.
Mér er minnisstætt að bandaríski vísindamaðurinn var spurður hvað hann helst vildi ráðleggja íslenskum stjórnvöldum í þessum efnum. Hann svaraði því til að Íslendingar ættu að gera allt sem í þeirra valdi stæði til þess að halda í þá öfundsverðu stöðu sem þeir væru í með ströngum takmörkunum á innflutningi á hráu kjötmeti. Karl G. Kristinsson tók í sama streng á svipuðum forsendum og hann oft hafði gert áður.
Almennt heyrði ég ekki betur en að þetta væri tónninn í fundarmönnum, þar með talið ráðherranum sjálfum, formanni Framsóknarflokksins!

Almennt varað við undanhaldi

Þessu fylgdu margir framsóknarmenn eftir í blaðaskrifum. Ég minnist til dæmis varnaðarorða Höllu Signýjar Kristjánsdóttir, þingkonu Framsóknarflokksins og Þórarins Inga Péturssonar, varaþingmanns flokksins, í grein sem birtist á vísi.is í byrjun maí þar sem þau tóku undir málflutning vísindamannanna á fundinum á Hótel Sögu varðandi innflutning á kjöti til Íslands: „Með því að opna á innflutning á hráu kjöti, eins og heildsalar og ákveðin stjórnmálaöfl þeim hliðholl, hafa krafist væru íslensk stjórnvöld einfaldlega að gera tilraun sem allar líkur eru á að endi illa. Varðar það bæði sýkingar í matvælum og einnig áður nefnt sýklalyfjaónæmi sem virtar alþjóðlegar stofnanir og vísindamenn telja að muni draga fleiri jarðarbúa til dauða árið 2050 en ógnvaldurinn krabbamein. Viljum við slíka tilraunastarfsemi? Og vill verslunin stunda slíka tilraunastarfsemi í skiptum fyrir fleiri krónur í kassann?”

Sólað sig í boði Sjálfstæðisflokksins?

Auðvitað er það gott og bráðnauðsynlegt að efla allt eftirlit með hráu kjöti og matvöru almennt, óháð því hvar hún er framleidd. En því er ósvarað hvernig á því stendur að stjórnvöld hafa ekki döngun í sér til að standa uppi í hárinu á heildsölum sem farið hafa með lögsóknir á hendur okkur, almenningi og skattgreiðendum, til að brjóta varnarmúra þjóðarinnar um viðkvæma innlenda matvælaframleiðslu sem vísindamenn hafa sýnt fram á að er frírri af sjúkdómum og sýklalyfjum en nokkurs staðar á byggðu bóli.
Er það Sjálfstæðisflokkurinn sem stýrir hér för?
Er sólbað formanns Framsóknarflokksins í boði hans?