SIGURJÓN, TOLSTOJ OG ÞORGEIR
Nýlega sótti ég samkomu í Norræna húsinu til minningar um Sigurjón Friðjónsson en á þessu ári eru eitt hundrað og fimmtíu ár liðin frá fæðingu hans norður í Þingeyjarsýslu.
Athygli mín beindist að þessum gáfaða og djúphygla manni fyrir nokkuð löngu síðan en samstarfskona mín til margra ára á BSRB, Svanhildur Halldórsdóttir, er barnabarn hans. Svanhildur sem augljóslega er barnabarn afa síns, færði mér að gjöf rit hans, Skriftamál einsetumannsins, eftir að ég hafði beðið hana að segja mér af honum.
Skemmst er frá því að segja að ég heillaðist af þessu litla kveri og hef oft vitnað í þá speki sem þar er að finna. Ekki síst um kærleikann, til dæmis þetta:
„Sólin vinnur ekki á ísunum , þegar hún byrjar að hækka á lofti. En þó fer svo að lokum , að þeir renna og verða að lífslindum sumarblómans. Líkt er því varið með kærleikann og mannssál, sem bundin er í klaka blindrar eigingirni. Stöðugir velvildargeislar vinna á þeim klaka að lokum og kenna manninum hvað lífið í fyllingu sinni er."
... og um menntun sem hann segir vera annað og meira en fróðleik:
„Sá er fróður, sem margt veit. En menntaður er sá, sem þroskað hefir skynsemi sina og ímyndunarafl, vilja sinn og framkvæmdaþrótt. Menntaður sá, sem tamið hefir og þroskað allt það gott, sem í honum býr og reitt upp illgresi sálarinnar. Til þessa er fróðleikur hjálpartæki þegar rétt er stefnt. En of oft verður hann það ekki."
Á fyrrnefndri minningarhátíð í Norræna húsinu voru lesin ljóð og sungin lög við ljóð Sigurjóns og Arnhildur Arnaldsdóttir flutti stórgott erindi um þennan langafa sinn. Hún nefndi á meðal annars andans menn sem Sigurjón hefði horft til, þar á meðal hefði verið rússneski rithöfundurinn og hugsuðurinn, Leó Tolstoj, hinn kristni anarkisti sem ég leyfi mér að nefna svo, en hann hefur verið mér hugleiknari en flestir andans menn, nánast frá unglingsárum.
Það merkilega er að áður en ég fræddist af Arnhildi Arnaldsdóttur, hafði ég stundum þóst greina sameiginlegan þráð í þankagangi þeirra Sigurjóns og Tolstojs um eilífðarmálin en einnig í innsæi þeirra og skilningi á hinu óræða í tilverunni, því sem aldrei verður sagt nema á ljóðrænan hátt - nokkuð sem fáum er gefið að miðla.
Þess má geta að Hið íslenska bókmenntafélag hefur nú endurútgefið Skriftamál einsetumannsins og er bókin nú fáanleg í bókabúðum.
En hvers vegna minnast á Þorgeir Ljósvetningagoða í sömu andrá og Sigurljón Friðjónsson. Um þann fyrra vitum við lítið, hinn síðarnefnda talsvert; hugsun þeirra eflaust gerólík. Um það vitum við þó ekki.
En hugrenningatengslin verða þegar mér er hugsað til þjóðkirkjunnar íslensku og hvernig þjóðin hefur verið reiðubúin að taka henni á þeirri forsendu að sameinast innan veggja hennar en þó þannig að það sem gerðist innra með hverjum manni sé hans mál. Reyndar gerði Sigurjón svo miklar kröfur til kirkjunnar og þess sem þar var sagt í nafni trúar, að hann gat ekki gert við hana sátt.
En hvað sem því líður þá höfðar nálgun Sigurjóns Friðjónssonar til mín þegar hann tekst á við hið óræða í tilverunni - hið „óseigjanlega". Og þrátt fyrir djúpa trú hans þá er hún fyrst og fremst á hið góða og mikilvægi þess að leggja rækt við það. Umgjörðin er síðan annað mál.
Og það er þarna sem tengingin verður við Þorgeir Þorkelsson lögsögumann frá Ljósavatni þegar hann vildi gera alla menn á Íslandi kristna árið eitt þúsund. Hann var þá vel að merkja Ljósvetningagoði og fór fyrir Ásatrúarmönnum í andstöðu þeirra við kristinn sið sem þá átti vaxandi fylgi að fagna.
Niðurstaða Þorgeirs var sú að okkur bæri umfram allt að forðast átök um umgjörðina; innri sannfæringu hvers og eins bæri hins vegar að virða. Hér skyldu vera ein lög og einn siður sem byggðist á umburðarlyndi. „En nú þykir mér það ráð, að vér látim og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggju hafi nokkuð síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn."
Hinn 22. október sl., vísaði ég nokkuð til þessa í útvarpsviðtali sem þeir áttu við mig Ævar Kjartansson og Hjalti Hugason í þáttaröð þeirra um Martein Lúther og íslensku þjóðkirkjuna í tilefni þess að 500 ár eru liðin frá því að Lúther sagði skilið við katólskuna.
Þátturinn er hér: http://ruv.is/sarpurinn/ras-1/samtal/20171022