Fara í efni

SIGURRÓS OG LANDIÐ


Hljómsveitin Sigurrós hefur unnið hug og hjörtu landsmanna. Ég hef lengi verið í hópi aðdáenda hennar. Sigurrós kynntist ég á milli svefns og vöku. Runnið hafði á mig svefn í stofusófanum en smám saman hafði ég vaknað upp við einhverja mjög góða tilfinningu. Ég var lengi að komast til botns í af hverju hún stafaði. Opið var fyrir útvarpið þar sem verið var að leika tónlist Sigurrósar.
Í rauninni finnst mér þurfa að finna eitthvert nýtt orð yfir tónlist Sigurrósar. Nær væri að tala um hljóm-stemningu. Þetta er undarleg blanda en rammáfeng. Hún skapar sérstakt andrúmsloft. Jafnframt er hún hluti af andrúmslofti. Hún fellur vel að baráttu náttúruunnenda, sem vilja standa vörð um náttúruna, gæta hennar, hlú að henni.

Tónleikahald Sigurrósar víðs vegar um Ísland nú í sumar náði eki hámarki frammi fyrir mannfjöldanum á Klambratúni í Reykjavík, eins ágætt og það var, heldur við Snæfell. Þar lék Sigurrós fyrir fjöllin, sólina og gróðurinn. Líka fólk; fólk sem vill vera eitt með náttúrunni – í sátt við hana, í faðmi hennar. Þessum tilfinningum lýsir Sigurrós betur en flestir aðrir. Þess vegna á hún nú hljómgrunn með þjóðinni.