SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN Á THATCHER-LÍNUNNI GEGN LAUNAFÓLKI
Á meðal þeirra sem fram komu í Silfrinu í Sjónvarpinu í dag var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Hans framlag til þeirra deilna sem nú eru á vinnumarkaði var að tala fyrir því að skylduaðild að verkalýðsfélögum yrði afnumin. Þannig yrði freslið best tryggt.
Þarna talaði fjármálaráðherrann og formaður Sjálfstæðisflokksins í anda Margrétar Thatcher, helsta frjálshyggjupostula aldarinnr sem leið og lærisveina hennar í stjórnmálum og atvinnulífi undir aldarlokin. Þessi mannskapur var búinn að finna það út að með því að tala fyrir frelsi til að velja væri búið að opna á þann möguleika að atvinnurekandinn gæti stillt starfsfólki upp við vegg: Þú verður ráðinn en að því tilskyldu að þú standir utan verkalýðsfélaga! Með þessum hætti mætti rýra réttindi launafólks þannig að það væri í veikari stöðu í kjara- og réttindabaráttu.
Mikið var ég feginn að Drífa Snædal, fyrrum forseti Alþýðusambands Íslands skyldi leiðrétta Láru Júlísdóttur, sem á sinni tíð sinnti lögmannsstörfum fyrir ASÍ, þegar hún ranglega hélt því fram í þættinum að þær breytingar sem gerðar voru á lögum um stéttarfélög og vinnusdeilur á árinu 1996 hafi verið í fullkominni sátt við verkalýðshreyfinguna. Því fór nefnilega fjarri að svo hafi verið þótt niðurstaðan hafi orðið illskárri en lagt var upp með.
Til hafði staðið að veita ríkissáttasemjara mun meiri völd en hann þó fékk me lagabreytingunum, en það náði ekki fram að ganga ekki síst vegna andstöðu BSRB.
BSRB talaði á þessum tíma á svipuðum nótum og margir innan ASÍ, ekki síst forsvsrsmenn Dagsbrúnar, forvera Eflingar. Við þann málfluting hef ég aldrei orðið viðskila og í þeirri deilu sem nú er uppi um túlkun á lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur er ég samstiga fromanni Eflingar, Sólveigu Önnu Jónsdóttur.
Til fróðleiks birti ég hér kafla úr bók minni Rauða þræðinmum þar sem meðal annars er fjallað um þessar deilur. Eftirfarandi er á blaðsíðu 154:
Búið í haginn fyrir lögþvingaða miðstýrða kjarasamninga
Þriðja lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar frá árinu 1996, sem áður er um getið, var frumvarp um stéttarfélög og vinnudeilur. Nefni ég það hér því það var sömu gerðar og nokkur slík á þessum árum og framan af 21. öldinni, sem hvert á sinn hátt miðaði að því að skerða réttindi launafólks og stíga skref í þá átt að miðstýra kjarasamningum með lögþvinguðu viðræðuferli. Þetta frumvarp átti því vel heima í spyrðu með frumvarpi um skert réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og frumvarpi um skerðingu á lífeyrisrétti þeirra. Í ályktun framkvæmdastjórnar Vinnuveitendasambandsins, VSÍ, skömmu áður en frumvarpið um stéttarfélög og vinnudeilur kom fram segir: ,,Loks kann að vera tímabært að kveða skýrt á um rétt starfsmanna einstakra fyrirtækja og stjórnenda þeirra til að semja sjálfir um kaup og kjör án milligöngu samtaka atvinnurekenda og launþega. Einkaréttur stéttarfélaga til gerðar kjarasamninga verði þannig takmarkaður.“ Þarna birtist Thatcherisminn skýr og tær. Ekki gekk frumvarp ríkisstjórnarinnar þó eins langt og atvinnurekendur helst hefðu viljað samkvæmt þessari ályktun en fingraför þeirra voru engu að síður greinileg. Allt var þetta útbúið með miklum glassúr. Þannig var sagt að frumvarpinu um stéttarfélög og vinnudeilur væri ætlað að lýðræðisvæða verkalýðsbaráttuna. Rétt var það að nú skyldi tryggt að kosið væri um verkföll í almennri kosningu allra félagsmanna. En þar með voru Dagsbrúnarfundirnir, fjöldafundir, iðulega í troðfullu Austurbæjarbíói, sem veittu forystunni heimild til verkfallsboðunar úr sögunni. Sveitt spennan, baráttuskjálftinn á rafmögnuðum fundum, var eitur í beinum atvinnurekenda enda beindust þessir fundir gegn þeim, þeirra óbilgirni. Því þurfti lög á þá. Þessu var harkalega mótmælt, svo harkalega að við framkvæmd laganna voru stjórnvöld og atvinnurekendur feimnari en ella hefði orðið við að framfylgja þeim til hins ítrasta. Þannig getur barátta skilað sér – ekki alltaf í svarthvítum niðurstöðum.