Fara í efni

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN FORGANGSRAÐAR


Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, mætti í Kastljós Sjónvarpsins í kvöld. Margt var skrafað. En þar kom að spurt var um forgangsröðun Sjálfstæðismanna. Hvað myndir þú gera, spurði Helgi Seljan Kastljósmaður, ef þú yrðir forsætisráðherra. Bjarni sagði að nauðsynlegt væri að byggja á víðtækri sátt um þá stefnu sem fylgja ætti. Sættir yrðu að takast við hagsmunaðila. Þetta sagði formaðurinn, eða á þessa leið.
Nú beið ég spenntur, skyldi hann telja upp hagsmunaaðilana sem tala þyrfti við, kannski byrja á því að nefna Öryrkjabandalagið, svo Hagsmunasamtök heimilanna, BSRB, Náttúruverndarsamtökin...

Bannað að anda á kvótakerfið

Nei, fyrstir inná samráðspallinn hjá Bjarna Benediktssyni átti að vera Landssamband útvegsmanna!  Ekki orðaði hann þetta þannig - nefndi LÍÚ ekki einu sinni á nafn - heldur sagði að falla yrði frá öllum áformum um að hagga við kvótakerfinu. Með öðrum orðum, varnir fyrir kvótakerfið ætti að setja í forgang! Þetta kemur okkur sem sitjum á Alþingi ekki á óvart. Allt það sem á einhvern hátt raskar kvótakerfinu æsir upp eitthvað sem velviljaðir menn myndu eflaust vilja kalla „réttlætiskennd" sjálfstæðismanna, aðrir myndu kalla þetta svæsna hagsmunagæslu fyrir aðila, sem komist hafa yfir eignarhald á náttúruauðlindum.

Gleymum ekki gærdeginum

Nú er það svo að mörg okkar telja það vera mikilvægustu hagsmuni þjóðarinnar til langs tíma að tryggja eignarhald hennar á auðlindum, þar með sjávarauðlindinni. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins minnti á hvað það þýddi að fá flokk hans nú inn í Stjórnarráð Íslands. Hefur hann ekki gert nógan óskunda þar á liðnum árum? Vilja menn endurtaka leikinn? Fyrst kvótinn, tryggja framhald á lénsskipulagi í sjávarútvegi, svo málmbræðslur og ennþá fleiri málmbræðslur, síðan einkavæðing og ennþá meiri einkavæðing, þá skattkerfi fyrir efnafólk, sjúklingagjöld... Þetta var bara í gær. Svona morgundag viljum við ekki!