Fara í efni

SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN LÆTUR TIL SKARAR SKRÍÐA


Fregnir berast nú um að einkavæðingardeild Sjálfstæðisflokksins  sé nú að hrinda af stað stórsókn í heilbrigðiskerfinu með víðtækum kerfisbreytingum og jafnvel hreinsunum. Félagslega þenkjandi fólki verði vikið til hliðar svo greiða megi götu pólitískra handlangara flokksins. Þótt, Guðlaugur Þór, heilbrigðisráðherra, stýri þessu að forminu til, er margt sem bendir til að í reynd sé það fjármálafólkið utan ráðuneytisins sem sé að taka yfir.
Í dag kom í ljós á Alþingi að heilbrigðisráðherrann treystir sér ekki til að taka þátt í umræðu sem ég hef óskað eftir að fram fari á Alþingi utan dagskrár um einkavæðingu á Landspítalanum. Tilefnið var auglýsing í Morgunblaðinu 26. febrúar síðastliðinn þar sem heil sjúkradeild var boðin út. Daginn eftir, 27. febrúar  óskaði ég eftir þessari umræðu og benti á að fresturinn sem fyrirtækjum væri gefinn til að taka þátt í útboðinu væri rúmur hálfur mánuður eða til 11. mars. Í dag er kominn 13. mars, útboðsfresturinn útrunninn og þing að fara í páskahlé. Alþingi kemur ekki saman að nýju fyrr en um næstu mánaðamót. þá ætlar Guðlaugur Þór að sjá til hvort hann treysti sér í umræðu! Kannski telur hann sig þá vera sloppinn fyrir horn.  Þögli félaginn í ríkisstjórninni, Samfylkingin, sem samþykkir allan ósómann með þögn sinni, búin að borða á sig gat af páskaeggjum og þess vegna í pólitísku rænuleysi.
Guðlaugur Þór Þórðarson hagar sér einsog menn gera sem óttast eigin málstað. Best að þurfa sem minnst að ræða hann nema við já-fólkið í eigin flokki. Síðan gæti hitt verið, að heilbrigðisráðherrann hreinlega viti ekki hvað  einkavæðingardeildin sé búin að ákveða og vilji bíða með umræðu á þingi þar til hann verði búinn að fá það á hreint hvað ákveðið hefur verið.
Fréttir úr heilbrigðiskerfinu fjalla þessa dagana ekkert um heilbrigðismál. Þær fjalla allar bara um pólitík og það pólitík í myrkari kantinum.