Sjálfsvirðing í húfi
Yfirleitt taka Íslendingar hlýlega á móti nýjum löndum sínum og er það vel. Þannig er það ánægjulegt hve forsetafrúnni á Bessastöðum, Doritt Moussaieff, hefur verið vel tekið af landsmönnum. Það hefur einnig átt við um fjölmiðla, þ.e.a.s. að öllu öðru leyti en einu. Hún má ekki hreyfa sig án þess að fjölmiðlafólk geri klæðnað hennar að sérstöku umræðuefni; hún taki sig svona eða hinsegin út í kjólum sem hún klæðist og gert er að umræðuefni hvort glói á skartgripi hennar. Það er bót í máli að jafnan er þetta á jákvæðum nótum og án efa vel meint. En mikið held ég að þetta hljóti að vera hvimleitt.
Því fer þó fjarri að Doritt Moussaieff ein kalli á athygli af þessu tagi. Það virðist vera að færast í vöxt hér á landi að klæðnaður fólks og útlit er til umfjöllunar í blöðum og útvarpi; hvað fólk borði í veislum og hverjir ræðist þar við. Hingað til höfum við verið sæmilega laus við barnalegan snobbhátt af þessu tagi. Fram undir þetta hefur þekkt fólk verið látið í friði hér á landi og hefur verið litið á það sem þroskamerki Íslendinga og blessunarlegan skort á minnimáttarkennd að þurfa ekki að búa til "fyrirfólk". Það er heilbrigt og gott að dást að því sem vel er gert og hrósa mönnum fyrir vel unnin störf og gott framtak. En að gapa upp í þá sem tróna á toppunum, hvort sem er í stofnunum samfélagsins, fyrirtækjum eða í skemmtanalífi er í besta falli tilraun til að búa til tilgerðarlegt glanssamfélag, í versta falli hólfar þetta samfélagið í sundur og eykur jafnvel á stéttskiptingu.
Afstaða landsmanna í þessum efnum hefur því miður verið að breytast í seinni tíð. Frægir menn sem sóttu okkur heim hér áður fyrr voru látnir í friði. Nú eru þeir hundeltir af blaðamönnum og ljósmyndurum, þótt ekki eigi þetta við um alla fjölmiðla. En þeir fjölmiðlamenn sem í hlut eiga eru án efa að sinna sínu starfi á þeim nótum sem ritstjórnir fjölmiðlanna krefjast af þeim. Þannig er ekki síst við verkstjóra viðkomandi fjölmiðla að sakast. Það væri þakkarvert ef þeir tækju höndum saman um að forðast óvelkomið persónulegt áreiti gagnvart einstaklingum, bæði innlendu fólki og gestkomandi. Þetta er spurning um að virða friðhelgi og bera virðingu fyrir fólki. Það gerum við með því að leyfa einstaklingum að klæða sig óáreittir og láta þekkta aðkomumenn í friði nema þeir óski sérstaklega eftir öðru; séu beinlínis að sækjast eftir því að vekja á sér athygli. Í því tilviki er ekki við fjölmilðana að sakast þótt þeir smelli af mynd og mynd. En þótt mikilvægt sé að sýna fólki tillitssemi og virðingu á þennan hátt, þá er mér ekki síður umhugað um okkar eigin virðingu – sjálfsvirðingu þjóðarinnar. Hún er nefnilega í húfi.