Skattastefna VG er ávísun á kjarabætur
Birtist í Mbl. 07.04.2003
EKKI veit ég hvort einhver 1. apríl galsi var í leiðarahöfundi Morgunblaðsins síðastliðinn þriðjudag eða hvort blaðinu var alvara í greiningu sinni á skattastefnu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. A.m.k. hafði leiðarahöfundur ekki farið eins gaumgæfilega í saumana á þessum málum og fréttamaður blaðsins, sem gerði prýðilega grein fyrir stefnu flokksins annars staðar í blaðinu. Leiðarinn hefst á svohljóðandi orðum: "Frétt Morgunblaðsins í dag, um að Vinstrihreyfingin - grænt framboð vilji lækka skatta er ekki aprílgabb." Og lokaorð leiðarans eru þessi: "Hvað sem því líður eru vinstri - grænir nú farnir að taka sér hugtakið skattalækkun í munn og það er út af fyrir sig fagnaðarefni."
Við viljum réttlátt skattakerfi
Það er ekki réttur skilningur að Vinstrihreyfingin - grænt framboð hafi aldrei fyrr hreyft hugmyndum um skattalækkun. Við höfum talað fyrir réttlátu skattakerfi og verið með tillögur um að færa skattbyrðina til þannig að þeir sem engan veginn eru aflögufærir verði ekki látnir greiða langt umfram getu, á sama tíma og létt er skattbyrðum af hinum sem hafa miklar tekjur. Skattastefna Sjálfstæðisflokks allar götur frá 1991, fyrst í samstarfi við Alþýðuflokk og síðan Framsóknarflokk, hefur gengið út á þetta: Stórfelldar ívilnanir til þeirra sem hafa mikil efni en auknar álögur á þá sem hafa lítil efni. Hér er rangt að einblína á tekjuskatta einvörðungu því einnig verður að horfa á þjónustugreiðslur, svokölluð notendagjöld. Þau hafa stóraukist á áratug Sjálfstæðisflokksins.
Það er einmitt í þessu ljósi sem við gjöldum varhug við skattalækkunartilboðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, nokkuð sem greiningardeildir bankanna eru farnar að kalla hættuleg og óábyrg yfirboð. Fólkið sem á undanförnum árum hefur þurft að borga meira til að standa straum af stórauknum kostnaði vegna veikinda sinna, húsnæðis og menntunar barna sinna lítur á tilboð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hótun um auknar álögur eða niðurskurð á þjónustu.
Skyldu menn gera sér grein fyrir því að tilboð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks jafngilda því að öll útgjöld félagsmálaráðuneytisins yrðu þurrkuð út? Það er vitað hvað vakir fyrir Sjálfstæðisflokknum. Hann vill þröngva stofnunum til niðurskurðar, síðan einkavæðingar eða aukinna þjónustugjalda. Það er í samræmi við margboðaða stefnu flokksins. Vandséð er hvað vakir fyrir Framsókn annað en að fylgja húsbónda sínum að málum. Þó bendir margt til þess að flokkurinn sé svo skelfingu lostinn yfir skoðanakönnum, að hann sé reiðubúinn að lofa öllum öllu í þeirri von að hljóta náð hjá kjósendum. Þetta er náttúrlega ekki ábyrg afstaða. Og erum við þar komin að skattastefnu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.
Við viljum sjá árangur
VG leggur ofurkapp á að koma fram með tillögur sem eru líklegar til að skila árangri. Við erum staðráðin í því að rétta hluta lágtekjufólks og millitekjuhópanna í þjóðfélaginu. Til þess að ná því markmiði viljum við beita okkur fyrir skattkerfisbreytingum þar sem við höfum allt undir: skatta og millifærslukerfið. Færa þarf byrðarnar til, þannig að ráðstöfunartekjur okkar markhópa, láglauna- og millitekjuhópanna, aukist og þar með lífsgæði þeirra. Það verður hins vegar öllum að vera ljóst að það er ekki ásetningur okkar að rýra tekjur ríkissjóðs. Við erum þannig ekki að setja fram tillögur um skattalækkun heldur einvörðungu tilfærslu á skattbyrði.
Ef svo gleðilega vildi til að hagvöxtur yrði meiri en nú lítur út fyrir á komandi árum og tekjur ríkissjóðs ykjust af þeirri ástæðu umfram það sem nú er áætlað myndum við láta allan þann ávinning, sem þjóðinni sameiginlega áskotnaðist, renna til þeirra hópa sem ríkisstjórnir undir forræði Sjálfstæðisflokksins hafa fryst úti allar götur frá 1991.