Fara í efni

SKILABOÐ ÚR MAGA MÁVS

Birist í helgarblaði Morgunblaðsins 27/28.07.24.
Fyrst persónuleg örsaga: Nýlega opnaði ég mjólkurfernu frá Mjólkursamsölunni með plasttappa. Aldrei þessu vant vildi tappinn ekki af hvernig sem ég skrúfaði. Og þegar ég hellti úr fernunni út á hafragrautinn spilltist mjólkin út um allt. Því olli áfasti tappinn og eflaust klaufaskapur minn. Ég hafði um þetta einhver orð sem ekki eiga erindi á prent og spurði hver fjárinn væri hlaupinn í Mjólkursamsöluna. Var mér þá sagt að þetta ætti við um allar fernur óháð því hvert væri innihaldið, skrúfutappar úr plasti ættu undantekningarlaust að vera áfastir. Þetta væru tilmæli sunnan úr Evrópu.
Gat verið, hugsaði ég, enn ein dellan frá Brussel.

En svo var mér bent á að fletta upp á upplýsingasíðu Umhverfisstofnunar. Og þar blasti við mynd sem varð til þess að mig setti hljóðan. Þetta var mynd af innvolsinu sem gat að líta í maga dauðs sjófugls. Myndin birtist upphaflega í heimildarmynd umhverfissinnans Chris Jordan um áhrif plastmengunar á náttúru og dýralíf og svo umhugað var honum um að koma skilaboðunum úr maga mávsins á framfæri við heiminn að hver og einn mætti nota myndir hans endurgjaldslaust. Heimurinn yrði að vakna til vitundar um þann vanda sem mengandi mannskepnan væri að valda.

Og nú var ég vissulega vaknaður og las af áhuga upplýsingar frá Umhverfisstofnun Íslands, meðal annars þetta:

„Plasttappar eru á meðal 10 algengustu plasthlutanna sem finnast á ströndum Evrópu. Þeir valda miklum skaða á lífríkinu. Þess vegna þurfa tapparnir nú að vera fastir við flöskuna. Dýrin gleypa tappana. Fuglar, fiskar og önnur sjávardýr halda oft að skærlitir tapparnir séu fæða. Dýrin geta drepist úr vannæringu ef þau innbyrða þá eða annað plast. Með því að tryggja að tapparnir haldist á flöskunum komum við í veg fyrir að þeir endi í náttúrunni og aukum líkurnar á því að þeir komist með í endurvinnslu. Vörur úr einnota plasti sem fjúka eða er hent í umhverfið enda oftar en ekki í hafinu ... Samkvæmt vöktun Umhverfisstofnunar á rusli við strendur Íslands eru plasttappar og -lok í 7. sæti yfir algengustu plasthlutina sem fundust á árunum 2016-2022.“

Og enn segir:

“Á hverju ári er talið að um 8 milljón tonn af plasti endi í hafinu. Plastið hverfur ekki heldur brotnar á endanum niður í smáar einingar sem kallast örplast. Plast hefur nú fundist nær allsstaðar á jörðinni; á botni dýpsta svæðis sjávar, í fylgju ófæddra barna, í mannsblóði og inni í Vatnajökli! ... Plast er frábært og endingargott efni sem oft er hægt að endurvinna í nokkur skipti. Það er því til mikils að vinna að halda því frá náttúrunni og inni í hringrásarhagkerfinu eins lengi og unnt er … Við erum alltaf að nota plastið í styttri og styttri tíma. Plast endist ótrúlega lengi en við notum það oft bara í nokkrar mínútur. Með aukinni framleiðslu og styttri líftíma endar meira og meira af plasti í náttúrunni með tilheyrandi skaða fyrir lífríkið ... Á Íslandi, þar sem óspillt náttúra og hreint haf er þjóðarstolt og máttarstólpi efnahagsins, er mikilvægt að leita allra leiða til að draga úr plastmengun.“

Undir þetta vil ég taka enda löngu búinn að taka áfestingu plasttappa í sátt. En ég tek líka alvarlega áskorun Umhverfisstofnunar að leita allra leiða til að draga úr plastmengun.

Allra leiða?

Er þá ekki næsta skref hjá MS að hætta að framleiða fernur með plasttöppum, jafnvel þótt þeir séu áfastir og þá einnig næsta skref fyrir mig að kaupa ekki fernur með plasttöppum? En þá eru það plastflöskurnar og allir tapparnir þar!

Það eru fleiri en MS og ég sem þurfa að hugsa sinn gang.

Skilaboðin úr maga mávsins eiga erindi við alla.

------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.