Fara í efni

SKIPTIR MANNELDISSTEFNA STJÓRNVÖLD ENGU MÁLI?


Ég trúi því ekki fyrr en í fulla hnefana að öllum sé sama þótt Alþingi samþykki skattabreytingar þvert á ráðleggingar Lýðheilsustöðvar, stofnunar sem sett var á laggirnar til að ráðleggja stjórnvöldum, þar með talið löggjafanum í manneldismálum.
Fyrir þinginu liggur frumvarp um breytingar á virðisaukaskattslögum. Frumvarpið er tæknilegs eðlis en engu að síður nauðsynlegt svo matarskattslækkunin 1. mars geti komið til framkvæmda. Við þetta frumvarp legg ég fram breytingartillögu þess efnis að gosdrykkir og sykraðir drykkir verði undanskildir fyrirhuguðum lækkunum á virðisaukaskatti og vörugjöldum og styðst ég þar við álit Lýðheilsustöðvar frá í desember þegar matarskattslækkunin kom til umfjöllunar á Alþingi. Lýðheilsustöð ritaði þá þingmönnum bréf þar sem þeir voru beðnir lengstra orða að undanskilja gosið og sykurdrykkina fyrirhuguðum lækkunum.

Við þessu var ekki orðið nema hvað þingmenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs studdu málstað Lýðheilsustöðvar sem byggður var á traustum rökum, nefnilega þeim að rannsóknir hefðu sýnt að börn og unglingar væru næm fyrir verðstýringu og væri hætt við því að þessi skattalækkun myndi enn auka gosþambið í landinu. Heilsu ungu kynslóðarinnar væri þar með í voða stefnt.
Nokkrir þingmenn stjórnarmeirihlutans sögðu að ráðrúm væri til að endurskoða málið því breytingin á vörugjöldum og virðisaukaskatti kæmi ekki til framkvæmda fyrr en 1. mars. Nú er sá dagur að renna upp.
Ég skrifaði pistil um þetta málefni hér á síðuna fyrir fáeinum dögum þar sem ég hvatti til umræðu um þetta málefni. Vonaðist ég til að fram færi umræða í þjóðfélaginu í tæka tíð til að afstýra slysi. Engin sjáanleg viðbrögð urðu. Það eru vonbrigði. Í dag er gosmálið fyrsta mál á dagskrá Alþingis.
Athyglisvert verður að fylgjast með afstöðu þingmanna og þá einnig fjölmiðla. Getur það verið að öllum sé sama þótt löggjafinn stýri óhollustunni niður í æsku landsins? Sjá nánar  HÉR.