Skoðanakúgun umhverfisyfirvalda
Fram hefur komið opinberlega að haft var í hótunum við landverði sem flögguðu íslenska fánanum í hálfa stöng 19. júlí í fyrra þegar ár var liðið frá undirritun samninga við Alcoa. Landverðir sýndu þannig hug sinn til óafturkræfra náttúruspjalla við Kárahnjúka en jafnframt vildu þeir minna á að aðrar náttúruperlur væru í hættu vegna stóriðjuáforma stjórnvalda. Í röðum landvarða var altalað að þeir sem höfðu sig í frammi í "fánamálinu", í Herðubreiðarlindum og Öskju myndu ekki fá endurráðningu í sumar. Einn starfsmaður lét á þetta reyna, Dagný Indriðadóttir, og reyndust menn sannspáir því henni var hafnað. Ég ákvað af þessu tilefni að kanna gögn í málinu og sýna þau að mínu mati fram á að umhverfisyfirvöld hafa gerst sek um tilraun til mjög grófrar skoðanakúgunar. Árni Bragason, forstöðumaður Náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar lýsir furðu yfir því í viðtali við Morgunblaðið í dag, að ég "slái fram" fullyrðingum í þessu máli án þess að hafa kynnt mér það. Ég get upplýst Árna Bragason um að ég hef kynnt mér þetta mál vel og lengi fylgst með framvindu þess einsog hann reyndar veit sjálfur!
Hins vegar er nú komið að því að Siv Friðleifsdóttir svari fyrir þær hótanir og tilraunir til skoðanakúgunar sem berlega koma fram í þessu máli.
Lesendur síðunnar geta hér með kynnt sér gögn í málinu. Eitt plaggið er merkt trúnaðarmál en er það ekki lengur, skv. upplýsingum viðkomandi. Bréf Umhverfisstofnunar lít ég á sem opinber plögg og birti þau með leyfi viðtakanda.
Sjá hér bréf Umhverfisstofnunar og önnur gögn í málinu (pdf form)