Skuldasprenging
Birtist í Mbl
Lengi vel gumaði ríkisstjórnin af því að henni væri að takst það ætlunarverk sitt að lækka skuldir ríkissjóðs. Þetta hefur vissulega gengið eftir sé miðað við skuldastöðuna um miðjan síðasta áratug. Hitt er áhyggjuefni hvernig skuldir sveitarfélaga hafa vaxið, að ekki sé minnst á skuldir heimila og fyrirtækja í landinu. Sú ógnarmynd sem blasir við þegar tölur eru settar á blað hefur eflaust orðið þess valdandi að ríkisstjórnin gerist nú hógværari í tali um árangur varðandi niðurfærslu skulda.
Eins og sjá má á meðfylgjandi töflum og stöplariti sem er sett saman á grunni upplýsinga frá Þjóðhagsstofnun hafa skuldir annarra en opinberra aðila tvöfaldast sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á einum áratug. Þetta á bæði við um skuldir heimilanna og skuldir fyrirtækja. Upphæðirnar sem hér er um að tefla eru hærri en menn hafa vanist að nefna. Þjóðhagsstofnun áætlar skuldir heimilanna á þessu ári sex hundruð sjötíu og fimm milljarða króna og skuldir fyrirtækjanna eitt þúsund fjörutíu og fimm milljarða króna. Heildarskuldir þjóðarinnar nema nú eittþúsund níuhundruð tuttugu og fimm milljörðum króna samkvæmt áætluðum tölum Þjóðhagsstofnunar fyrir þetta ár.
Vissulega er að mörgu að hyggja þegar rætt er um skuldastöðu, hvort sem er hjá hinu opinbera eða fyrirtækjum og heimilum og væri æskilegt að hafa einnig upplýsingar um eignamyndun og eignastöðu. Það breytir þó ekki hinu að þessar skuldir eru orðnar geigvænlegar og miðað við það vaxtastig sem við búum við er ósennilegt að fyrirtæki og heimili hlaði upp skuldum ef eignir þeirra bjóða upp á annað. Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að þær viðmiðanir sem hér er stuðst við eru verg landsframleiðsla sem mælir umfang efnahagsstarfsemi í landinu og það hlýtur að verða okkur öllum til umhugsunar þegar skuldir þjóðarinnar eru orðnar 259% af þessari stærð.
Sú kenning hefur verið í tísku á síðustu árum að háir vextir myndu slá á útlán lánastofnana. Samkvæmt þessari þróun virðist þessi kenning ekki standast og er eðlilegt að spurt sé hvort skort hafi annað stýritæki sem einfaldlega heitir heilbrigð skynsemi. Eitt er víst að við þessar aðstæður þarf að fara varlega ef forðast á hrun. Það er ekki að undra að krafist sé vaxtalækkana. Undarlegt má heita ef Seðlabankinn og reyndar lánastofnanirnar sjálfar hafa ekki forgöngu um að færa vexti niður því ella er sýnt að vaxtapíningin mun koma þeim í koll þótt síðar verði. Aðþrengdur skuldunautur reynir þó að borga; sá sem orðinn er gjaldþrota greiðir að sjálfsögðu ekki skuldir sínar að öðru leyti en því að þrotabúið gengur upp í skuldir. Stöðugleiki fjármálakerfisins og þar með efnahagslífsins alls er í húfi.