SKULDIR RÍKISINS OG NIÐURSKURÐUR Á VELFERÐ
Í fréttum er nær daglega sagt frá ótrúlegri svikamyllu íslenskra fjármálamanna sem höfðu fé af fólki og fyrirtækjum innan lands og utan með kunnum afleiðingum: Hruni íslenska fjármálakerfsins og í kjölfarið efnahagslegum þrengingum sem ekki er séð fyrir endann á.
Auðvitað skapaði þetta vantrú á Íslandi í heimi fjárfesta. Þó eru þessir fjárfestar margir hverjir ýmsu vanir enda hefur komið í ljós að virðulegar erlendar fjármálastofnanir tóku meðvitað þátt í braskinu hér heima þótt þær komi nú fram sem silkihreinir kröfuhafar.
Í viðtölum í Spegli RÚV í gærkvöldi var svo að skilja að allt væri komið í lag ef við aðeins hefðum borgað Icesave reikningana möglunarlaust. Vissulega hefðu bresk og hollensk stjórnvöld fagnað undanlátssemi okkar gagnvart ofríki þeirra. En hér innanlands? Halda viðmælendur Spegilsins að íslenskur almenningur hefði látið það yfir sig ganga að skera niður velferð um tugi milljarða umfram það sem við þó þurfum að gera. Halda menn að það hefði orðið friður og sátt um það?
Nú stíga fram á sjónarsviðið einstaklingar og tala digurbarkalega um að betra hefði verið að borga Icesave upp í topp strax og afnema gjaldeyrishöft strax. Þá væru matsfyrirtækin ánægð, líka fjárfestar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Allir ánægðir. Fréttamenn og prófessorar ánægðir. Einfalt mál. Þangað til þeir missa sjálfir vinnuna í niðurskurðinum. Og síðan er það skrítið að gefa sér að gjaldeyrishöftin hefðu horfið um leið og íslenskir skattgreiðendur gengju í ábyrgð fyrir Icesave. Skilja menn virkilega ekki að skuldsetning ríkisins er höfuðvandi okkar?
Mér finnst þetta tal vera sjálfsblekkingar ótrúlega áþekkar og við heyrðum 2007 þegar menn trúðu því að með tilfæringum í bókfærlsu væri hægt að skapa auð. Einn milljarður í greiðslur vegna Icesave er sami millljarðurinn og er notaður til að fjármagna RÚV og Háskóla Íslands. Það er samhengi á milli skuldbindinga vegna Icesave og niðurskurðar í velferð.
Það breytir því ekki að fyrr eða síðar þarf að fá niðurstöðu í Icesavedeiluna. Það hefur hins vegar sýnt sig að síðar reyndist betra en fyrr að því leyti að líkur eru á að töfin hafi dregið úr kröfum á hendur íslenskum skattgreiðendum.