SKÝR PÓLITÍSK LANDAMÆRI
26.04.2013
Fjölmiðlarnir hafa að mörgu leyti staðið sig vel í kynningu á framboðum til þingkosninganna á morgun. RÚV hefur reynt að rísa undir hlutverki sínu sem ríkisfjölmiðill - fjölmiðill í almannaeign - og gefið ÖLLUM framboðum tækifæri til að kynna stefnu sína og sjónarmið. Þetta hefur verið gert á frambjóðendafundum með fulltrúum framboðanna í útvarpi og sjónvarpi og einnig í þáttum þar sem talsmenn framboðanna hafa setið fyrir svörum.
Síðasta þáttinn er verið að sýna í Sjónvarpinu þegar þetta er ritað (sé ekki betur en Alþýðufylkinguna vanti - ekki veit ég hvers vegna). Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins er þessa stundina að harma auðlegðarskattinn. Hann vill þjóðarsátt á vinnumarkaði og verður eflaust hugsað til kröfugerðar Samtaka atvinnulífsins um fjórbreiðar hraðbrautir fjármagnaðar með vegatollum og síðan stóriðjuáform sem svokallaðir aðilar vinnumarkaðar kröfðust á undangengnu kjörtímabili.
Fremur en þjóðarsátt við aðila innan atvinnulífsins á þessum forsendum, þarf þjóðarsátt við almennt launafólk sem vill jöfnun lífskjara, eflingu almannatrygginga og velferðarkerfis. Þar er krafist afnáms notendgjalda, hvort sem er á þjóðvegum landsins eða á sjúkrahúsunum - enginn vafi leikur á því heldur að nýja fyrirkomulagið varðandi lyfjakaup mun þurfa gagngerra lagfæringa við.
Í þessum anda talar formaður VG hér við umræðuna. Það gera einnig að sönnu ýmsir aðrir fulltrúar í umræðunni ágætlega. Hitt er þó alveg ljóst að landamærin liggja á milli félagslegra gilda sem Vinstrihreyfingin grænt framboð var stofnuð um annars vegar og markaðshyggju Sjálfstæðisflokksins hins vegar; stefnu sem aðrir flokkar hafa síðan daðrað við í ýmsum tilbrigðum á undanförnum tveimur áratugum.
Á komandi kjörtímabili þarf að skerpa á félagshyggjunni , halda umhverfisfánanum að húni og standa vörð um fullveldi Íslands. Vinstrihreyfingin grænt framboð býður sig fram í krafti þessarar stefnu.