SKÝR SKILABOÐ OG JÁKVÆÐ
25.01.2009
Björgvin G. Sigurðsson - nú fyrrverandi viðskiptaráðherra - gaf skýr og jákvæð skilaboð á fréttamannafundi í morgun. Hann sagði af sér embætti og viðurkenndi að hann bæri að hluta til ábyrgð á því hvernig komið væri. Hann sagði að það gerðu fleiri í stjórnmálunum og stjórnsýslunni. Að sjálfsögðu þarf hér að bæta við upptalningu Björgvins, sjálfum höfuðpaurunum - „útrásarvíkingunum" , sem reyndust þegar á hólminn kom, vera innrásarvíkingar sem tæmt hafa allar fjárhirslur þjóðarinnar og gott betur.
Því fer fjarri að Björgvin G. Sigurðsson sé mestur ábyrgðarmaður fyrir því hvernig komið er. Í haust setti ég fram þá tilgátu að oddvitar ríkisstjórnarflokkanna myndu reyna að hvítþvo sig með því að fórna stöku ráðherra og nefndi ég þar viðskiptaráðherra sérstaklega. Sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/reyna-thau-ad-kaupa-ser-frid-med-thvi-ad-forna-samherjum
Það sem nú þarf að gerast er að flýta þarf kosningum og greiða þannig fyrir lýðræðilegu uppgjöri en jafnframt þurfa allir þeir sem hlut eiga að þeirri atburðarás, sem leitt hefur okkur út í ógöngurnar að taka pokann sinn og axla þannig ábyrgð. Það eitt að viðurkenna ábyrgð sína í orði er mikilvægt fyrsta skref. Það gerði Björgvin G. Sigurðsson á fréttamannafundinum í morgun þegar hann skýrði hvers vegna hann segði af sér embætti. Þannig viðurkennir Björgvin G. Sigurðsson ábyrgð í orði og verki. Ákvörðun hans ætti að verða öðrum fordæmi.