SKÝRARI REGLUR UM RANNSÓKNARHEIMILDIR LÖGREGLU
Birtist í Morgunblaðinu 27.10.12.
Alþingi hefur nú fengið til meðferðar lagafrumvarp mitt til breytingar á lögum um meðferð sakamála. Breytingarnar snúast um að skýra heimildir lögreglu til að beita símahlustun eða símahlerun, upptökum á hljóði, myndatökum eða öðrum slíkum aðgerðum vegna rannsóknar á sakamálum. Þessum heimildum verði því aðeins beitt að refsirammi brota sem eru til rannsóknar sé sex ár og að ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefjist þess. Refsiréttarnefnd hefur haft veg og vanda af samningu frumvarpsins í framhaldi af óskum sem ég setti fram við hana um að ná fram þessum breytingum.
Dómsúrskurður skilyrði
Frumvarpið varðar XI. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Kaflinn fjallar um heimildir lögreglu til að grípa til tiltekinna aðgerða í þágu rannsóknar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Snúast þær aðgerðir meðal annars um símahlerun, upptöku á hljóðum og merkjum, töku ljósmynda og kvikmynda og notkun eftirfararbúnaðar. Slíkar aðgerðir skerða friðhelgi einkalífs þar sem þær eiga það sameiginlegt að til þeirra er aðeins gripið ef þeir sem þær beinast að vita ekki af þeim. Segir í greinargerð með frumvarpinu að af þessum sökum sé ástæða til að setja ströng skilyrði fyrir beitingu slíkra aðgerða. Ávallt er krafist dómsúrskurðar um heimildir sem þessar og eru engar breytingar lagðar til á því ákvæði laganna.
Samkvæmt gildandi lögum verður aðgerðum sem þessum aðeins beitt á grundvelli dómsúrskurðar enda sé ástæða til að ætla að með þeim hætti fáist upplýsingar sem skipt geta miklu máli fyrir rannsókn máls. Einnig er í lögunum skilyrði um að brot sem eru til rannsóknar varði allt að átta ára refsingu eða að ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefjist.
Skýrari skilyrði
Lögð er til sú breyting að heimild lögreglu til að beita símahlerun og skyldum aðgerðum við rannsókn mála verði þrengd og í öllum tilvikum bundin því að ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefðust þess en að refsiramminn yrði miðaður við sex ár. Dómari yrði að vega og meta hverju sinni þá hagsmuni sem byggju að baki kröfu um heimild til slíkrar aðgerðar í ljósi þeirra hagsmuna sem kynnu að verða skertir vegna hennar. Ætti dómari einungis að fallast á kröfu lögreglu til að beita aðgerð ef rannsóknarhagsmunir stæðu framar hagsmunum þess sem yrði fyrir skerðingu á friðhelgi einkalífs.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að á síðustu árum hafi komið fram gagnrýni þess efnis að skilyrði fyrir heimildum til símahlerana og skyldra aðgerða væru ekki nógu skýr og að slík heimild sé veitt í ríkari mæli en nauðsyn krefur og án nægilegs rökstuðnings. Segir þar einnig að ástæða sé til þess að skýrar reglur gildi um heimildir til beitingar aðgerða á borð við símahlerun og skyldar aðgerðir svo að ekki verði gripið til svo afdrifaríkrar skerðingar á friðhelgi einkalífs manna nema brýna nauðsyn beri til og þá aðeins í því skyni að upplýsa alvarleg brot.
Í frumvarpinu er þó jafnframt gert ráð fyrir undantekningu í tilfellum nokkurra brota sem varða minna en sex ára fangelsi. Þar er helst að nefna skipulagða brotastarfsemi, í skilningi 175. gr. almennra hegningarlaga. Er því tryggt að rannsóknarheimildir lögreglu ná til slíkrar starfsemi, enda nauðsynlegt að sporna við henni með öllum ráðum og hef ég beitt mér fyrir því á síðustu árum, þ.m.t. með sérstöku fjárframlagi til rannsókna lögreglu.
Skýrsla til Alþingis?
Hér takast á sjónarmið um verndun á grundvallarréttindum um friðhelgi einkalífsins annars vegar og sjónarmið um heimildir til handa lögreglu vegna rannsóknar á alvarlegum sakamálum hins vegar. Þetta eru viðkvæm og vandasöm málefni, hvort og hvernig eftirlitshlutverk þingsins eigi að vera. Eðlilegt er að þingið sjálft komist að niðurstöðu um það efni og gerði ég grein fyrir þessum sjónarmiðum í framsöguræðu minni.
Það er von mín að frumvarpið hljóti endanlega afgreiðslu þingsins svo fljótt sem verða má. Með því verður skerpt á rannsóknarheimildum lögreglu, þær gerðar ótvíræðar varðandi alvarleg brot en útilokaðar varðandi vægari brot, sem ekki krefjast svo íþyngjandi úrræða.