Fara í efni

SNORRI INGIMARSSON: LIFIR ÞÓTT HANN DEYI

Í gær var Snorri Ingimarsson, læknir, jarðsunginn frá Hallgrímskirkju. Í dag birtust í Morgunblaðinu nokkur minningaroð frá mér um þennan góða og kæra vin minn:

Þau eru orðin mörg sem leitað hafa til Snorra Ingimarssonar þá áratugi sem hann hefur verið læknir, fyrst lengi vel á sviði krabbameinslækninga og síðar geðlækninga. Þetta nefni ég vegna þess að mér finnst það segja sína sögu um hann sjálfan hvern hug þau báru til hans sem höfðu þurft á hjálp hans að halda vegna sjúkdóma eða annarra erfiðleika eða þrenginga í lífinu.

Oftar en einu sinni hef ég nefnilega hitt fólk, sem enga hugmynd hafði þó um vinatengsl okkar Snorra, sem haft hefur á orði hvílíkur bjargvættur hann hefði reynst í þeirra lífi.

Þessu á ég auðvelt með að trúa þótt ég hafi kynnst Snorra og þekkt í öðru samhengi. Ég kynntist gestgjöfunum Kolbrúnu og Snorra, hestamanninum, sögumanninum en framar öllu góðum og traustum vini.

Á fimmtugsafmæli mínu fyrir rúmum tuttugu árum barst mér dularfullt skeyti norðan úr Skagafirði með hamingjuóskum frá Gestasveit sem nefndi sig svo. Síðar kom í ljós að þarna voru á ferðinni gamlir félagar og vinir sem ég átti eftir að kynnast upp á nýtt, að þessu sinni á hestbaki, á Guðnabakka og í fjallakofum, heitum pottum og síðast en ekki síst í Ásgarði í Blönduhlíð, yndislegu heimili þeirra hjóna, Kolbrúnar og Snorra, norðan heiða.

Þangað var gott að koma. Alltaf sól. Meira að segja veggirnir í Ásgarði eru sólgulir á lit þótt aðallega hafi hún verið huglæg sólin í Ásgarði. 

Skapgerð Snorra Ingimarssonar var ofin þráðum mikillar hlýju og glettni, stundum grárri en þó alltaf velviljaðri. Til þessa þekkti Gestasveit vel. Sú sveit hafði lag á að láta öllum félögum sínum líða vel. Lökum knapa fannst hann fær í flestan sjó. Þannig virkaði töfrasproti Snorra Ingimarssonar. 

Snorri er vinum sínum mikill harmdauði. Kannski er það vegna afneitunar á því að bráðasjúkdómur skyldi verða honum að aldurtila svo snögglega, en þannig er því varið með mig, að einhvern veginn finnst mér ekki ganga upp að segja að Snorri Ingimarsson sé allur. Hann er það nefnilega ekki í mínum huga og hygg ég að þar mæli ég fyrir munn margra.

Svo mikið lifandi var Snorri og svo mjög var hann nálægur þegar vinir komu saman, að minningin um hann verður aldrei þurrkuð út.
Það er góð tilhugsun.

Kolbrúnu og fjölskyldu vottum við Vala innilega samúð.