Söfnum fyrir Sjónarhól
Birtist í Morgunblaðinu 08.11.2003
Í kynningarbréfi frá þeim, sem standa að söfnun fyrir Sjónarhól, fyrirhugaða þjónustumiðstöð í þágu barna með sérþarfir og fjölskyldur þeirra, segir m.a.: "Það er foreldrum áfall að komast að því að barn þeirra er með langvinnan eða ólæknandi sjúkdóm, varanlega fötlun eða önnur þroskafrávik. Við tekur greining, rannsóknir, meðferð, upplýsingaleit, útvegun hjálpartækja, fundir, viðtöl og vinnutap vegna umönnunar með tilheyrandi fjárhagsvanda og röskun á heimilishögum og jafnvel búsetu. Fjölskyldulífið fer að verulegu leyti að snúast um þarfir hins veika eða fatlaða barns. Það kemur foreldrum á óvart hve mikill tími fer í að fá yfirsýn og samræma þann stuðning sem tiltækur er vítt og breitt í heilbrigðiskerfinu, hjá félagsþjónustu sveitarfélaga og á öllum stigum skólastarfsins." Síðar segir: "Ráðgjöfum Sjónarhóls er m.a. ætlað það hlutverk að kynna foreldrum þann stuðning sem þeir eiga rétt á frá opinberum aðilum og veita þeim aðstoð við að sækja hann." Á þessu er svo sannarlega þörf!
Ég er sannfærður um að ef vel tekst til getur Sjónarhóll komið til með að gegna lykilhlutverki í orðsins fyllstu merkingu. Mörgum reynist nefnilega erfitt að finna lykilinn að þeirri velferðarþjónustu sem er í boði eða á að vera í boði lögum samkvæmt. Þetta er frábært framtak og vona ég að sú landssöfnun sem er framundan skili góðum árangri. Það mun gagnast börnunum og fjölskyldunum sem í hlut eiga og það er mín sannfæring að það muni einnig styrkja velferðarþjónustuna, stuðla að því að hún verði opnari og markvissari.