Fara í efni

Söguleg þingsetning


Setning Alþingis að þessu sinni varð söguleg að því leyti að stór hluti stjórnarandstöðunnar gekk á dyr undir ræðu forseta þingsins. Halldór Blöndal, þingforseti, lagði út af atburðum sumarsins, fjölmiðlalögunum, ákvörðun forseta Íslands að skrifa ekki undir lögin og vísa afgreiðslu þeirra til þjóðarinnar. Forseta Alþingis var misboðið og kvaðst hann hafa ákveðið að taka upp merki Alþingis, það væri beinlínis skylda sín. Hann fékk stuðning Morgunblaðsins í leiðara daginn eftir: "Það er ómetanlegt fyrir þjóðina að Alþingi nýtur forystu, sem tekur af skarið fyrir hönd þingsins af þeirri reisn, sem Halldór Blöndal gerði í gær." Og Moggi æsist og spyr með þjósti: "Þola þingmenn stjórnarandstöðunnar ekki aðrar skoðanir en sínar eigin? Er það til marks um virðingu þeirra fyrir tjáningarfrelsi og skoðanafrelsi, sem bundið er í stjórnarskrá íslenzka lýðveldisins, að þeir þola ekki að forseti Alþingis njóti og nýti sér þau mannréttindi, sem stjórnarskráin kveður á um?" Síðan er fjallað  um þá sem gengu út sem menn "lítilla sæva og sanda".

Nokkur orð um þetta. En fyrst um þingsetninguna almennt. Setning Alþingis er hátíðarfundur. Gengið er til kirkju. Þangað fara þjóðkirkjumenn og utankirkjumenn upp til hópa enda líta flestir á athöfnina sem "stofnanalega", það er að segja í ljósi sögu og hefðar fremur en sem trúarlega. Til marks um þetta fer illa í menn þegar haft er í frammi einhvers konar trúarlegt áreiti, þegar til dæmis ætlast er til að kirkjugestir hafi yfir trúarjátninguna. Prestarnir hafa oft verið ágætir. Það var séra Pálmi Matthíasson að mörgu leyti en hann var vor predikari að þessu sinni. Hann varaði við hinum nýju fjölmiðlum og einelti, iðulega í skjóli nafnleyndar og vísaði þar sérstaklega til netsins. Upp á þetta gátu held ég allir viðstaddir skrifað og þótti eflaust gott að á þetta væri minnt. Meiri efasemdir hafði ég um hugleiðingar séra Pálma Mathíassonar um að þingmönnum bæri að gjalda varhug við alþingi götunnar; að gagnvart því þinginu yrðu menn að sýna sjálfstæði!

Hvað var hér átt við; er það til dæmis Íraksdeilan? Meirihluti Íslendinga var á móti árás á írösku þjóðina, þ.e.a.s. alþingi götunnar var á móti, en ríkisstjórnin var fylgjandi hernaðarárásinni og talar einmitt um þá afstöðu sem dæmi um staðfestu sína og djörfung. Ráðherrar hafa meira að segja hælt sér af því að hafa verið staðfastir gegn meirihlavilja þjóðarinnar, með öðrum orðum, staðfastir gegn alþingi götunnar. Er það þetta sem séra Pálmi Matthíasson á við?

Þegar inn í þinghúsið kom, undir óþægilega miklum (og vaxandi?) honnör og hælasmellum minna annars prýðilegu lögreglufélaga í BSRB,  hóf forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, upp raustu sína. Ræða hans var ágæt en hún fjallaði um loftslagsbreytingar, svokölluð gróðurhúsaáhrif, og hugsanlegar félagslegar afleiðingar þeirra. En formálinn – áður en að þessu kom -  var pólitískur og ekki var það mín pólitík. Ólafur Ragnar gaf Davíð Oddssyni þá einkunn að undir hans forystu "eftir ábyrgðarskeið sem er einstakt í sögu þjóðarinnar"  hefðu orðið miklar framfarir á sviði velferðarmála og fyrir vikið myndi hann hljóta sérstakan virðingarsess í Íslandssögunni!

Verðandi forsætisráðherra er einnig, að mati forseta lýðveldisins, afburðamaður með áratuga veganesti, sem án efa muni nýtast honum vel. Um þessa tvo einstaklinga má vissulega segja ýmslegt ágætt, á það legg ég áherslu. En þegar leggja á mat á störf þeirra sem stjórnmálamanna sem um alllangt árabil hafa mótað stefnuna í landsmálum, inn á við og út á við, horfir málið öðru vísi við. Einmitt þessir menn hafa farið hamförum gegn velferðarþjónustunni á Íslandi, með einkavæðingu og gegndarlausum niðurskurði, fylgispekt við hernaðarstefnu Bandaríkjanna og eyðileggingu á íslenskri náttúru í krafti stóriðjustefnu Framsóknarflokksins. Í þessu samhengi létu m.a. eftirfarandi orð forseta Íslands undarlega í mínum eyrum: "Við þessi tímamót færi ég hæstvirtum ráðherra Davíð Oddssyni þakkir fyrir farsæl störf, forystu á umbrotatímum og mikilvægt framlag til hagsældar og velferðar Íslendinga sem skipar honum í sérstakan virðingarsess í annálum þings og þjóðar." Og síðan kom lofrulla um Halldór Ásgrímsson.

Að loknum hefðbundnum seremóníum hóf Halldór Blöndal, þá nýkjörinn forseti þingsins, upp mikinn lestur. Hatrammar deilur sumarsins voru vaktar upp, Ólafur Ragnar hafi sagt Alþingi stríð á hendur þegar hann neitaði að skrifa undir löggjöfina sem meirihlutinn á þingi hafði samþykkt um vorið. ÓRG væri arftaki arfakónga sem með neitunaravaldi sínu væri að grafa undan Alþingi sem væri "kjörið af þjóðinni".

Að mínu mati felst í þessum ummælum djúpstæður misskilningur. Alþingi starfar í umboði þjóðarinnar. Þegar þjóðinni eru fengin mál beint til úrlausnar þá er það undarlegt að halda því fram, að slíkt sé hneisa fyrir Alþingi. Samkvæmt slíkum skilningi væri Alþingi sett ofar þjóðinni! Þingið er að sjálfsögðu aðeins næstbesti kostur. Beint lýðræði er lýðræðislegasta fyrirkomulagið sem hugsast má. Það getur hins vegar verið erfitt í framkvæmd sökum þess hve svifaseint það er. Þess vegna neyðumst við til að taka kost númer tvö: Fulltrúalýðræði. Það er þennan næstbesta kost sem Halldór Blöndal er að verja, en gagnvart hverjum? Hann er að verja þingræði gagnvart þjóðinni! Það verður hins vegar ekki af forseta Alþingis skafið að þar talar maður af sannfæringu. Það er í sjálfu sér alltaf virðingarvert.

En nú er komið að kjarna þess sem ég vildi segja. Að mínu mati er það rangt hjá Morgunblaðinu að þetta snúist um tjáningarfrelsi. Þetta er spurning um kurteisi og tillitssemi. Presturinn, forseti lýðveldisins og forseti Alþingis eru staddir á hátíðarsamkomu. Þeir eiga vissulega að segja sinn hug. Það breytir því þó ekki að staður og stund skapa þeim ákveðinn ramma. Þegar Morgunblaðið segir það hafa verið "óhjákvæmilegt að forseti Alþingis tæki upp hanzkann fyrir löggjafarþingið", þá er þess að gæta að það gerir hann í óþökk helmings þingsins. Drjúgur hluti þingsins leit á ræðu hans sem aðför að stjórnarskrá og þar með Alþingi en þó fyrst og fremst móðgun við þjóðina. Þegar allt kemur til alls var allt fjaðrafokið í sumar út af hugsanlegri aðkomu þjóðarinnar að ákvörðunartöku; að hún fengi ráðið meiru en fulltrúasamkundan. Í þessu ljósi má véfengja umboð Halldórs Blöndals til að tala sem forseti Alþingis á þann veg sem hann gerði. Við setningu Alþingis er þingforsetinn sameiningartákn allra alþingismanna. Hann á að velja aðra stund en þessa  til að koma á framfæri afstöðu sinni í máli sem vitað er að skapað hefur mikla sundrungu á Alþingi. 

Forseti lýðveldisins vildi vera friðarins maður og mæla mjúklega til andstæðinga sinna frá í sumar. Slíkt er í sjálfu sér virðingarvert. En einnig hann var með pólitíska einkunnargjöf sem ég efast ekki um að fleirum en mér hafi mislíkað. Betur hefði farið á því að Ólafur Ragnar hefði haldið sig við bráðnandi jökla og hlýnandi loft.