Fara í efni

SÓL Í STRAUMI MÆTIR ÁLJÖF MEÐ 10 MÁLEFNALEGUM RÖKUM


Náttúruverndarsamtökin Sól í Straumi, sem beita sér gegn stækkun álvers Alcans í Straumsvík í Hafnarfirði og almennt í þágu náttúruverndar og heilbrigðrar skynsemi, brugðust við álgjöf Alcans með því að færa fulltrúum álrisans 10 röksemdir gegn stækkun álversins. Mútugjöf Alcans var þannig mætt á málefnalegan hátt. Gjöf Alcans er augljóslega ætlað að kaupa álverinu vinsældir í aðdranda kosningar um deiliskipulag fyrir stækkun álversins. Gjöfin er ætluð öllum kjósendum í Hafnarfirði! Hún er álinnpakkaður hljóm- og dvd- diskur vinsæls hljómlistarmanns og hefur ekkert með ágæti eða ókosti stóriðjustefnunnar að gera. Þess vegna er réttmætt að tala um mútugjöf. Það er þekkt bragð hjá aðilum með vafasaman málstað að reyna að vinna honum fylgi með því að beina umræðunni frá málefninu og helst að tengja málstaðinn einhverju allt öðru, þess vegna hugljúfum tónum vinsæls listamanns.  
Þegar félagar í Sól í Straumi skiluðu forsvarsmönnum Alcans álgjöfinni afhentu þeir, sem áður segir, eftirfarandi 10 röksemdir Alcanfólki til umhugsunar:

1. Loftmengun
Frábær árangur í baráttunni við loftmengun í Straumsvík síðustu 20 árin verður að engu við stækkun.

2. Sjónmengun
Lóðin eftir stækkun verður jafn breið og hún er löng í dag. Línumannvirki vegna stækkunar á útivistarsvæði Hafnfirðinga og í nágrenni við íbúabyggð eru óásættanleg

3. Mengunarsvæði
Byggingarland okkar Hafnfirðinga er takmarkað. Í framtíðinni þurfum við að fá Straumsvíkursvæðið og 10 ferkílómetra mengunarsvæði álverkssmiðjunnar undir blandaða íbúðabyggð, iðnað, verslun og þjónustu. Með því að stækka álbræðsluna núna eyðileggjum við framtíðartækifæri okkar.

4. Samfélagsmál
Við erum ekki lengur fátækur útgerðarbær, við búum ekki við atvinnuleysi, við eigum ekki ótakmarkað land og við reiknum ekki með að börnin okkar vilji vinna í álbræðslu. Við erfum ekki landið frá foreldrum okkar, við fáum það að láni hjá börnunum okkar

5. Fjármál
Allt byggt land í Hafnarfirði í dag er 12 ferkílómetrar. Við stækkun skuldbindum við 10 ferkílómetra byggingarlands undir mengunarsvæði um ókomna framtíð. Í stækkunarhugmyndunum er ekki gert ráð fyrir krónu til okkar Hafnfirðinga fyrir þessa fórn. Óljós loforð um greiðslur fyrir fasteignagjöld og hafnarnotkun koma ekki í staðin fyrir hana.

6. Atvinnumál
Stækkun álbræðslunnar hefur engin úrslitaáhrif fyrir atvinnulíf í Hafnarfirði. Í dag vinna 230 Hafnfirðingar hjá álverksmiðjunni . Í Hafnarfirði hefur störfum fjölgað undanfarin 7 ár um 240 störf á ári án þess að álbræðslan í Straumsvík hafi stækkað.

7. Virkjunarmál
Stækkun kallar á virkjun neðri hluta Þjórsár og hefur óafturkræfar afleiðingar fyrir náttúru Íslands.

8. Byggðaþróun
Innan fárra ára verður Straumsvíkursvæðið eitt það verðmætasta á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til staðsetningar. Nágrenni við höfuðborgina og nágrenni við alþjóðaflugvöllinn gerir þetta landssvæði eftirsóknarvert fyrir hátækni- og sprotafyrirtæki. Mengunarsvæðið takmarkar eðlilega byggðaþróun í Hafnarfirði.

9. Ábati fyrir íslenskt samfélag
“Jafnvel þó að Íslendingar kæmust í hóp stærstu álframleiðenda heims og myndu virkja alla hagkvæmustu virkjunarkosti landsins, myndi arðsemi þess og hagur fyrir íslenskt samfélag aldrei verða meiri en sem nemur framlagi eins öflugs útrásarfyrirtækis” (Ágúst Guðmundsson, Bakkavör, febrúar 2006).

10. Loftslagsbreytingar
Í starfsleyfinu er engin takmörkun á útblæstri gróðurhúsaloftegunda sem valda loftlagsbreytingum sem eru alvarlegasta umhverfisvandamál í heiminum í dag

Sjá nánar HÉR